KortEr er ný tæknilausn utan um alþjóðlega hugmyndafræði sem snýst um að allir íbúar geti fullnægt flestum þörfum sínum í stuttri göngu- eða hjólaferð frá heimili sínu.
Verkefnið, sem er til þess fallið að vinna gegn ofmati á ferðatíma göngu og hjólreiða, samanstendur af vefsíðu, appi og prentuðu korti sem sýnir hversu langt er hægt að komast á innan við stundarfjórðungi gangandi eða hjólandi frá skilgreindum upphafspunkti.
Þú kemst lengra en þú heldur
Evrópska samgönguvikan stendur nú sem hæst og því eru íbúar sérstaklega hvattir til að kynna sér KortEr, ná í appið og prófa sig áfram. Prentaðar útgáfur af KortEr hafa einnig verið settar upp í nokkrum stofnunum sveitarfélagsins, þar á meðal í Ráðhúsinu, sundlaugum, Amtsbókasafninu og félagsmiðstöðvum eldri borgara. Það kemur mörgum á óvart hversu langt er hægt að komast á ekki lengri tíma.
KortEr er liður í hugmyndafræðinni SKREF og samstarfsverkefnum Vistorku, Orkuseturs, Akureyrarbæjar, Reykjavíkurborgar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem snúa að því að fræða fólk um loftslagsmál í víðu samhengi. Unnið er að því að stuðla að breyttum ferðavenjum og hvetja fólk til að draga úr notkun á fólksbílnum. Auknar hjólreiðar, ganga og almenningssamgöngur eru auðveldasta leiðin til að minnka eldsneytisnotkun, útblástur, umferð og hávaða.
Strætómiðuð æfingatafla
Strætóskólinn er annað verkefni af sama meiði en tilgangur þess er að kynna strætó fyrir grunnskólabörnum og gera þau að sjálfstæðum notendum. Markmiðið er að nemendur geri sér grein fyrir þeim samfélagslega og persónulega ávinningi sem þau hafa af því að nota strætó, læri að lesa leiðarkerfi, tímatöflur og að skipuleggja ferðir sínar. Strætóskólinn verður hluti af námi í 5. bekk og er stefnt að því að hann fari af stað á þessu skólaári.
Stefna Vistorku, sem annast Strætóskólann í samstarfi við Orkusetur og Símey, er að allir sem útskrifist úr grunnskólum Akureyrarbæjar kunni að nota strætó.
Íþróttafélög geta einnig haft samband við Vistorku og fengið aðstoð við að setja upp strætóleiðir fyrir æfingatöflur vetrarins og hvetja þannig iðkendur sína til að nota strætó til að komast á æfingar og viðburði á vegum félaganna. Hér er dæmi um slíka töflu hjá UFA.