Evrópska samgönguvikan stendur nú sem hæst og á föstudaginn er komið að bíllausa deginum þegar fólk er hvatt til að skilja bílinn eftir heima og nýta vistvæna samgöngumáta. Þess má geta að nú eru 20 ár frá því Akureyrarbær hélt bíllausa daginn hátíðlegan í fyrsta sinn.
Á Akureyri eru kjöraðstæður til að skilja einkabílinn eftir heima enda eru vegalengdir almennt stuttar og munið, "það er alltaf gott veður á Akureyri!"
Tilvalið er að ganga, hjóla eða notfæra sér þann einstaka munað sem Akureyringar búa við, nefnilega að í bænum er frítt í strætó. Og það er ekki allt því í tilefni bíllausa dagsins föstudaginn 22. september fá farþegar með strætó boðsmiða í Sundlaug Akureyrar þann dag og einnig fella rafskútuleigurnar Hopp og Skutla niður startgjald af þjónustu sinni.
Göngugatan í Hafnarstræti verður að venju lokuð fyrir bílaumferð frá kl. 11 í tilefni dagsins.
Þema evrópsku samgönguvikunnar í ár er orkusparnaður. Með aukinni notkun á almenningssamgöngum og virkum ferðamáta spörum við orku úr jarðefnaeldsneyti og spörum líka peninga. Vistorka hefur metið ávinninginn fyrir Akureyri: Með breyttum ferðavenjum og orkuskiptum í samgöngum getum við sparað meira en 3,5 milljarða króna árlega í eldsneytiskostnað sem samsvarar rúmlega 12 milljón lítrum af bensíni og dísilolíu á ári. Það er því til mikils að vinna.