Ísabella Sól Ingvarsdóttir, Telma Ósk Þórhallsdóttir og Hildur Lilja Jónsdóttir sögðu á fundinum frá starfsemi ungmennaráðs og deildu sinni sýn á verkefnið barnvænt sveitarfélag.
Um þessar mundir er liðið eitt ár frá því að Akureyrarbær fékk viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag, fyrst íslenskra sveitarfélaga. Í tilefni af þessum tímamótum var á föstudag boðað til fundar í Íþróttahöllinni með UNICEF þar sem var fjallað um stöðu verkefnisins, hvað hefur áunnist og hvert bærinn stefnir sem barnvænt sveitarfélag.
Bæjarfulltrúum, ungmennaráði, stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagsins sem vinnur að málefnum barna var boðið að taka þátt. Fulltrúar UNICEF héldu erindi á fundinum um ávinning sveitarfélaga af verkefninu. Fulltrúar ungmennaráðs, þær Hildur Lilja Jónsdóttir, Ísabella Sól Ingvarsdóttir og Telma Ósk Þórhallsdóttir, sögðu frá sínu starfi og sýn á verkefnið og starfsfólk Akureyrarbæjar fjallaði um árið sem er liðið og hvað er framundan. Áhugaverðar og gagnlegar umræður sköpuðust meðal þátttakenda.
Barnvæn sveitarfélög skuldbinda sig til að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sveitarfélagsins og leggja hann til grundvallar í allri starfsemi. Akureyrarbær vinnur samkvæmt aðgerðaáætlun sem gildir til ársloka 2021 og þá tekur við ný aðgerðaáætlun sem er í smíðum. Á því ári sem nú er liðið hefur ungmennaráð bæjarins fengið aukið vægi, börnum hefur verið gert auðveldara að tilkynna mál til barnaverndar og hugmyndafræði Réttindaskóla UNICEF hefur verið innleidd, svo nokkur dæmi séu nefnd um það sem verkefnið hefur skilað.
Giljaskóli fékk í nóvember viðurkenningu sem fyrsti Réttindaskóli UNICEF utan höfuðborgarsvæðisins og er Naustaskóli í innleiðingarferli. Síðuskóli er að hefja innleiðingu í haust, sem og leikskólarnir Krógaból, Kiðagil, Iðavöllur, Hulduheimar og Klappir.
Hér eru nokkrar myndir frá fundinum á föstudag: