Barnið verði hjartað í kerfinu

Mynd: Indíana Hreinsdóttir
Mynd: Indíana Hreinsdóttir

„Lögin snúast fyrst og fremst um að koma til móts við börn og fjölskyldur þeirra og stuðla að því að þau fái óheftan aðgang að fagfólki og aðstoð,“ segir Anna Dögg Sigurjónsdóttir, þroskaþjálfi og ráðgjafi samþættingar og fjölskyldustuðnings hjá Akureyrarbæ, um ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Farsældarlögin tóku gildi í janúar 2022 og eru að skoskri fyrirmynd. Tilgangur þeirra er að börn og fjölskyldur falli ekki milli kerfa og séu ekki send á milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Þjónustan er veitt á þremur þjónustustigum. Grunnþjónustan er aðgengileg öllum börnum í ungbarnavernd, leik-, grunn- og framhaldsskólum, á öðru stigi er veittur einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur. Barn sem nýtur þjónustu á þriðja stigi hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda.

Anna Dögg segir markmið laganna sé að sem flest börn fái viðeigandi þjónustu á fyrsta stigi og að þjónusta þess stigs sé það öflug að færri börn þurfi þá umfangsmiklu þjónustu sem á sér stað á 2. og 3. stigi. „Í fyrra komu mörg börn á annað stig með mjög þung mál, en nú leita skólarnir til okkar fyrr. Við viljum mæta börnunum þar sem þau eru stödd og fá þeirra aðstoð til að finna bestu lausnina með því að hlusta á þau. Oft eru þau með bestu lausnina og verða opnari fyrir aðstoð fyrir vikið.“

Hún segir að áður hafi aðstoð oft verið bundin við fötluð börn eða börn sem búin séu að fara í gegnum greiningu. „Nú hafa öll börn og foreldrar þeirra aðgang að tengiliði í skólanum, sem er sýnilegur á vefsíðu skólans. Engin mörk eru á fyrstu þjónustunni. Hugmyndin er að barnið fái rétta þjónustu, á réttum tíma og frá réttum aðila. Nú vinna allir aðilar; skólar, félagsþjónustan, heilbrigðiskerfið og barnavernd, saman og í sömu átt, og þeir sem starfa með barninu er veittur aðgangur að upplýsingum um mál barnsins. Barnið verður þannig raunverulega hjartað í kerfinu.“

Hún segir enn fremur að þótt biðlistar úrræða séu langir muni þeir styttast eftir því sem farsældin festist betur í sessi. „Mín ósk er að eftir fimm til sjö ár hefjast öll mál á fyrsta stigi og að öll börn séu meðvituð um rétt sinn að þessari þjónustu. Nú þurfum við að kynna þetta vel og helst vildi ég sjá farsældarkerfið fara inn í skólana, líkt Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Innleiðingin mun taka tíma og Skotar, sem hafa unnið með þessa hugmyndafræði í 30 ár, segjast enn vera í innleiðingaferli. Samfélagið breytist svo ört með nýjum áskorunum, og við þurfum að vera tilbúin að aðlagast og vera í sífelldri endurskoðun á kerfinu.“

Hér má lesa meira um farsældarlögin.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan