Átaksverkefni um nýtingu moltu á Norðurlandi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra að gróðursetja birkiplöntu með moltu. Ást…
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra að gróðursetja birkiplöntu með moltu. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Brynjar Skúlason frá Skógræktinni fylgjast með. Mynd: Ragnar Hólm

Ákveðið hefur verið að ráðast í tilrauna- og átaksverkefni um nýtingu moltu í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi. Meðal annars á að setja aukinn kraft í gróðursetningu í Græna trefilinn ofan Akureyrar og leggja grunn að Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Guðmundur Haukur Sigurðarson framkvæmdastjóri Vistorku undirrituðu samkomulag um samstarfsverkefni í morgun. Þetta er hluti af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum sem hefur verið flýtt vegna Covid-19 en með landgræðslu og skógrækt er stuðlað að aukinni bindingu kolefnis. 

Átakið er í raun þríþætt og snýst um að nota moltu til skógræktar og landgræðslu í umhverfi Akureyrar, til landgræðslu á Hólasandi og við repjurækt í Eyjafirði. 

Moltulundur og Græni trefillinn

Af þessum verkefnum er skógrækt og landgræðsla í kringum Akureyri einna stærst að umfangi. Leggja á grunn að Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli þar sem gerð er tilraun til trjáræktar og landgræðslu á rýru svæði yfir 500 metrum.

Einnig á að leggja grunn að 135 ha skóglendi á um 700 ha landsvæði til útivistar við Græna trefilinn sem Akureyrarbær hefur skilgreint við efri bæjarmörk. Stefnt er að því að ráða allt að 10 háskólanema í sumar í átaksvinnu sem felst meðal annars í undirbúningi svæða, gróðursetningu, girðingavinnu og dreifingu á moltu. Gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta um 1.800 m³ af moltu á Glerárdal í þessum hluta verkefnisins. 

Lífrænn úrgangur er auðlind á villigötum

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið styður verkefnin fjárhagslega en Vistorku er falið að framkvæma þau í samstarfi við Akureyrarbæ, Orkusetur, Moltu, Skógræktina, Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Stjórnvöld stefna að banni við urðun lífræns úrgangs, enda er hún kostnaðarsöm og veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Mikill meirihluti losunar vegna meðhöndlunar úrgangs kemur til vegna losunar metans og annarra gróðurhúsalofttegunda við niðurbrot lífbrjótanlegra efna. Stórbæta má nýtingu á lífrænum úrgangi, m.a. með því að vinna úr honum moltu. Molta hefur verið prófuð í landgræðslu og skógrækt en skoða þarf nánar hvernig hún reynist við mismunandi aðstæður. 

Samkomulagið var undirritað í morgun við starfsstöð Skógræktarinnar á Akureyri og voru mættir fulltrúar þeirra sem að verkefninu standa. Að undirritun lokinni gróðursetti ráðherra birkiplöntu í garðinn við Gömlu Gróðrarstöðina. Þetta er vefjaræktuð rauðblaða birkiplanta sem á sér merka sögu og var molta að sjálfsögðu notuð til gróðursetningar. Hér eru nokkrar myndir frá í morgun, smelltu til að stækka. 

   

Hvað er molta?

Kraftmolta er lífrænn áburður og jarðvegsbætandi efni sem verður til þegar lífrænn úrgangur rotnar. Framleiðslan á Norðurlandi fer fram hjá Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit og er Akureyrarbær meðal stærstu eigenda félagsins. Hráefni fæst einkum frá kjötvinnslum, sláturhúsum, fiskvinnslum auk lífræns úrgangs frá heimilum. Lífrænn úrgangur sem er settur í grænu körfuna og þaðan í brúna hólfið fer í moltu.

Akureyringar hafa náð góðum árangri í flokkun og endurvinnslu. Á undanförnum árum hafa um 80% heimila á Akureyri flokkað allan lífrænan úrgang. Höldum áfram, munum eftir grænu körfunni og gerum enn betur! 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan