Appelsínugul viðvörun gildir frá 15. nóvember kl. 15:00 til 16. nóvember kl. 06:00. Mynd af Veðurstofu Íslands.
Veðurspáin er afar slæm næstu tvo til þrjá daga. Veðurstofa Íslands spáir að veðrið byrji að versna seinnipartinn á morgun, föstudag. Búist er við að allra versta veðrið, ásamt hæstu sjávarstöðu, verði á milli klukkan 22 og 23 annað kvöld, með mikilli hættu á að sjór gangi á land á Oddeyri.
Veðurstofan spáir norðvestan hvassviðri eða stormi á morgun, föstudag, 18-23 m/s, með snjókomu og lélegu skyggni. Miklar líkur eru á samgöngutruflunum og ekkert ferðaveður. Appelsínugul viðvörun gildir frá 15. nóvember kl. 15:00 til 16. nóvember kl. 06:00.
Ítrekað er til fasteignaeigenda og umráðenda fasteigna á Eyrinni að gera viðeigandi ráðstafanir, þar sem búist er við að sjór gangi á land í töluverðu magni annað kvöld. Huga þarf að niðurföllum. Einnig er mikilvægt að ganga vel frá utandyra og tryggja lausamuni, svo þeir verði ekki á ferð um bæinn.
Fundur var haldinn í morgun með fulltrúum Veðurstofunnar, Hafnarsamlagi Norðurlands, Norðurorku og Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar. Allir aðilar undirbúa sig fyrir óveðrið og gera viðeigandi ráðstafanir. Búist er við talsverðri úrkomu með óveðrinu, sem mun gera aðstæður erfiðar fyrir viðbragðsaðila.
Ef veður eða færð verður þannig að lögregla mælir með því að skólahald verði fellt niður, verður slíkt tilkynnt. Almennt, þegar vond vetrarveður ganga yfir, þurfa foreldrar alltaf að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann ef engin tilkynning hefur borist frá lögreglu um að skólahald falli niður. Í hverjum skóla er alltaf einhver hluti starfsmanna til staðar til að taka á móti börnum sem mæta, ef upplýsingar um lokun að tilmælum lögreglu hafa ekki náð til foreldra að morgni. Tryggja skal öryggi ungra grunnskólabarna, þannig að þau séu ekki send ein heim aftur heldur sé ábyrgðaraðili látinn vita og beðinn um að sækja þau.
Hér eru ráð komi til þjónusturofs.