Andrésar andar leikunum lauk á laugardag. Talið er að allt að 4.000 manns hafi verið í bænum í tilefni leikanna.
Andrésar andar leikarnir eru stærsta skíðamót landsins og að þessu sinni tóku tæplega 900 keppendur á aldrinum 4-15 ára þátt í mótinu en þetta var í 48. sinn sem leikarnir eru haldnir. Keppendum fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að allt að 4.000 manns hafi sótt leikana að þessu sinni.
Keppendur komu frá 16 félögum. Flestir komu frá heimamönnum í Skíðafélagi Akureyrar eða 156 keppendur en Skíðadeild Ármanns var næstfjölmennasti hópurinn með 104 þátttakendur. Það fjölgaði í öllum greinum skíðaíþróttarinnar en metfjöldi tók þátt í skíðagöngu og voru 186 börn skráð þar til leiks. Þátttakendur í Alpagreinum voru 638 og 92 tóku þátt í snjóbrettagreinum.
Andrésar andar leikarnir eru afar mikilvægur viðburður fyrir alla bæjarbúa, fyrirtækin í bænum, barnamenningu bæjarins, ásamt því að vera mikilvægasti einstaki vetraríþróttaviðburður sem fram fer hér á svæðinu á hverju ári.
Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og hefur sú grein sótt í sig veðrið ár frá ári. Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki sl. u.þ.b. 10 ár en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.
Nú um nokkurra ára skeið hefur 4 og 5 ára börnum einnig verið boðin þátttaka í leikunum. Þessi börn keppa í leikjabraut þar sem allt snýst fyrst og fremst um að vera með og skemmta sér en ekki að sigra. Fá allir þátttakendur í leikjabraut verðlaun fyrir þátttökuna og allir fara því brosandi heim. Í ár voru 86 börn á þessum aldri skráð til leiks.
Eftir frábæran skíðavetur um allt land voru aðstæður í Hlíðarfjalli eins og þær gerast allra bestar. Mikill snjór og gott færi. Andrésar andar leikarnir eru alltaf hápunktur hvers skíðavetrar hjá börnunum og var því mikil gleði og spenna ríkjandi á leikunum.
Skoða má fréttaflutning á Facebooksíðu leikanna auk þess sem úrslit og fleiri fréttir hafa verið birt á www.skidi.is.