Á leikskólanum Kiðagili baka börnin stafakleinur
Síðustu vikurnar hefur Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri heimsótt alla leik- og grunnskóla sveitarfélagins til þess að spjalla við starfsfólk og nemendur og kynnast enn betur þeirri fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram.
Bæjarstjóri hefur í starfi sínu lagt áherslu á að heimsækja reglulega hinar ýmsu starfsstöðvar innan sveitarfélagsins, þar með talda leik- og grunnskóla, og segir hún að það skipti miklu máli að hitta starfsfólk og stjórnendur á þeirra heimavelli og eiga samtal um starfsemina, verkefnin sem starfsfólk leysir frá degi til dags og líðan þess.
Alls eru ellefu leikskólar á Akureyri og eru tveir þeirra, Iðavöllur og Tröllaborgir, með starfsemi á tveimur stöðum, og grunnskólarnir eru níu. Heimsóknirnar voru því eins fjölbreyttar og þessar starfsstöðvar eru margar þótt þær eigi það allar sameiginlegt að fræða og gæta barna og ungmenna.
Ásthildur bendir á að starfsfólk og stjórnendur bæði leik- og grunnskólanna hafi staðið frammi fyrir miklum áskorunum síðustu misserin, s.s. vegna veikinda starfsfólks í kjölfar Covid-19, styttingar vinnuvikunnar sem hefur krafist breytinga á skipulagi og vegna húsnæðismála sem sums staðar hefur þurft að endurskipuleggja af ýmsum ástæðum. Öll þessi mál hafa stjórnendur og starfsfólk lagt sig fram um að leysa með faglegum hætti svo bæði nemendum og starfsfólki líði vel á sínum vinnustað og að hverjum degi fylgi ánægja og skemmtilegar áskoranir.