Gleði í Móa og opið hús á fimmtudaginn

Myndir: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Myndir: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Gleði og kátína var ríkjandi í Móa þegar ljósmyndari Akureyri.is lagði þangað leið sína í gærmorgun en Mói er deild fyrir elstu börn leikskólans Krógabóls og er í Síðuskóla. Þar stunda nú nám 24 kátir krakkar sem langflestir halda áfram námi sínu í 1. bekk Síðuskóla næsta vetur.

Að sögn starfsfólks Móa hefur starfsemi deildarinnar gengið mjög vel það sem af er vetri. Börnin njóta góðs af samvinnu við Síðuskóla með ýmsu móti, t.d. hafa þau aðgang að bókasafni, íþróttasal og sérdeild skólans, auk þess að vera boðið á ýmsar skemmtanir eða uppákomur sem fram fara í Síðuskóla.

Næsta ár verða á deildinni börn af árgangi 2019 og ennþá er nokkrum plássum óráðstafað. Foreldrum sem hafa áhuga á að nýta sér þennan skóla eða vilja skoða aðstæður er velkomið kíkja á opið hús í Móa, næsta fimmtudag, 7. mars, kl. 16.30. Ef foreldrar hafa áhuga á að sækja um fyrir barn sitt í Móa, er umsóknir um leikskóla að finna í þjónustugáttinni á Akureyri.is.

Þegar ljósmyndara bar að garði voru krakkarnir ýmislegt að sýsla og m.a. voru ungir drengir að reisa úr kubbum fullbúið heimili með stofu, hundabæli, síma o.fl. Þeim félögum lá mikið á hjarta og vildu ólmir segja kennara sínum frá merkilegum síma sem langamma eins þeirra hafði átt. Hann var að sögn með „svona tölum ofan á með götum og svo var hægt að snúa…“ Tímarnir breytast og mennirnir með.

Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan