Nanna Lind við störf í Upplýsingamiðstöðinni í Hofi
Mikil aðsókn var að Upplýsingamiðstöðinni í Hofi í sumar. Farþegar skemmtiferðaskipa voru drjúgur hluti þeirra sem þangað sóttu en lausaumferð fólks sem ferðast um landið á eigin vegum, hvort heldur sem er á eigin bílum, bílaleigubílum, reiðhjólum eða jafnvel gangandi, var einnig töluverð. Að sögn Nönnu Lindar, sem unnið hefur í Upplýsingamiðstöðinni síðustu þrjú sumur, hafa komur skemmtiferðaskipa verið betur skipulagðar en oft áður. Nú koma gjarnan færri skip sama daginn og þá gefst tækifæri til að veita betri þjónustu.
Mikil eftirspurn var eftir upplýsingum um gönguleiðir í bæjarlandinu. Einnig var mikið spurt hvað hægt væri að gera yfir daginn og vildu margir fá matreidda sérstaka dagskrá fyrir sig. Flestir eru þó fullsáttir við að fá upplýsingar um það helsta sem sjá má í bænum, til dæmis Lystigarðinn, söfnin og Innbæinn. Skógarböðin voru vinsæl meðal ferðamanna og eiga hrós skilið fyrir að bjóða upp á ferðir í böðin frá Hofi og aftur til baka.
Fjölbreyttar spurningar rata til starfsfólksins og var til að mynda oft spurt hvar hægt væri að sjá lunda og eins hvar væri hægt að geyma töskur. Töskugeymsla er klárlega þjónusta sem skortir í bænum og bendir Nanna á að þar sé viðskiptatækifæri fyrir áhugasama aðila. Mikill skortur var á leigubílum í bænum í sumar en vonandi stendur það til bóta fyrir næsta sumar.
Upplýsingamiðstöðin var opin frá 1. apríl en var lokað aftur nú í vikunni, á svipuðum tíma og í fyrra. Nanna bendir á að nú þegar vænta má töluverðs fjölda ferðamanna í bæinn yfir vetrartímann þegar boðið verður upp á beint flug til og frá Bretlandi, Hollandi, Sviss og Færeyjum, væri æskilegt að hafa opna upplýsingamiðstöð í bænum.
Það voru Hafnasamlag Norðurlands, Menningarfélag Akureyrar, hönnunar- og gjafavöruverslunin Kista og Akureyrarbær sem tóku höndum saman og stóðu að rekstri Upplýsingamiðstöðvarinnar í ár. Þetta er sami hópur og staðið hefur að opnun hennar síðustu þrjú sumur en því miður varð að loka Upplýsingamiðstöðinni fyrir fjórum árum þegar ríkið hætti að styðja reksturinn með fjárframlagi.
Þeir sem leita að upplýsingum um bæinn geta fundið það helsta á Halló Akureyri (íslensku) eða VisitAkureyri (ensku). Hægt er að nálgast prentað efni á borð við Akureyrir Guide og Götukort af Akureyri í afgreiðslu Ráðshússins, Geislagötu 9.