Stóri plokkdagurinn verður haldinn laugardaginn 25. apríl, á Degi umhverfisins, og eru Akureyringar og landsmenn allir hvattir til að plokka rusl.
Nú er góður tími til að hreinsa bæinn okkar, enda hopar snjórinn hratt og ýmislegt sem kemur í ljós eftir veturinn. Plokk er frábær útivera, við finnum fyrir tilgangi, sjáum árangur, eflum núvitund og gerum umhverfinu okkar gott. Plokkið kostar ekkert og kallar ekki á búnað eða tæki nema ruslapoka og ef til vill hanska.
Það er tilvalið að plokka í samkomubanni þar sem auðvelt er að virða tveggja metra regluna.
Í Facebook hópnum Plokk á Akureyri er tilvalið að hafa samband við aðra plokkara, merkja sér svæði til að hreinsa og láta vita hvernig gengur með máli og myndum.
Í hópnum Plokk á Íslandi eru sömuleiðis ýmsar gagnlegar upplýsingar og hvatning.
Afrakstur plokksins má skilja eftir í pokum við grenndarstöðvar á Akureyri. Ruslið verður hirt á laugardagskvöldið.
Nokkur góð ráð:
-Plokkum og hreyfum okkur í leiðinni – æfing dagsins
-Klæðum okkur eftir veðri
-Notum hanska og tangir ef þær eru til
-Virkjum alla fjölskylduna en hver á sínum hraða
-Virðum fjarlægðarmörk
Allir út að plokka! Deilum myndum á samfélagsmiðlum og notum myllumerkið #plokkak eða #plokk2020