Í dag var undirritaður samningur Akureyrarbæjar og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, um innleiðingu barnasáttmála SÞ í reglur og samþykktir bæjarins. Akureyrarbær er fyrsta íslenska sveitarfélagið sem gerir slíkan samning. Um tilraunaverkefni er að ræða og er vonast til að í kjölfar vinnunnar með Akureyrarbæ verði til verklag og efni sem nýtist öðrum sveitarfélögum við innleiðingu sáttmálans.
UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna kynntu verkefnið, innleiðingarlíkan og vefsíðu (www.barnvaensveitarfelog.is) sem styður sveitarfélög í innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á alþjóðlegu verkefni, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem barnvæn sveitarfélög frá UNICEF á Íslandi.
Akureyri verður fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að nýta sér líkanið og tekur þátt í tilraunaverkefni í þróun þess til tveggja ára. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi, skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu þess efnis. Við sama tækifæri veitti innanríkisráðuneytið Akureyrarbæ 2,6 milljón króna styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þátttöku í verkefninu.
Að sveitarfélag innleiði Barnasáttmálann þýðir að það samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur hans gangi sem rauður þráður í gegnum þjónustu þess. Líkja má innleiðingunni við að starfsmenn og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins setji upp "barnaréttindagleraugu" og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum. Barnasáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna. Ferlið við að gerast barnvænt sveitarfélag krefst pólitískrar skuldbindingar, sem er grundvöllurinn fyrir innleiðingu Barnasáttmálans í sveitarfélaginu, ásamt samræmdum aðgerðum þvert á öll svið sveitarfélagsins.
Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Snædís Sara Arnedóttir, Hulda Margrét Sveinsdóttir og Páll Rúnar Bjarnason úr ungmennaráði Akureyrarbæjar, Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri innanríkisráðuneytisins og Elísabet Geirsdóttir lögfræðingur hjá umboðsmanni barna.
www.barnvaensveitarfelog.is