Frá ársbyrjun 2007 hefur verið frítt í strætó á Akureyri og frá þeim tíma hefur farþegum fjölgað umtalsvert á hverju ári. Samkvæmt upplýsingum Odds Helga Halldórssonar formanns framkvæmdaráðs er gert ráð fyrir því að áfram verði frítt á strætó á Akureyri á næsta ári.
Oddur Helgi segir að samkvæmt fjárhagsáætlun þessa árs hafi verið settar 104 milljónir króna í rekstur Strætisvagna Akureyrar og að gert sé ráð fyrir að þær áætlanir standist. Áður en frítt var í strætó á Akureyri var árlegur farþegarfjöldi um 150 þúsund á ári. Árið 2007, þegar fyrst var ákveðið að hafa frítt í strætó, ferðuðust um 330 þúsund manns með vögnum SVA og árið 2008 voru farþegarnir um 440 þúsund alls. Á síðasta ári voru farþegar SVA um 480 þúsund og á þessu ári er gert ráð fyrir að þeir verði enn fleiri eða á bilinu 480-500 þúsund.
Frétt af www.vikudagur.is