Frá vinnustofunni í Hofi.
Í morgun fór fram í Menningarhúsinu Hofi síðari vinnustofan í verkefninu Aðlögun sveitarfélaga að loftslagsbreytingum. Akureyrarbær er eitt fimm sveitarfélaga sem tekur þátt í verkefninu sem er til tveggja ára og er samstarfsverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, Byggðastofnunar, Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnunar og ýmissa annarra stofnana og hagaðila.
Markmið verkefnisins er að marka skýran farveg fyrir íslensk sveitarfélög þegar kemur að mótun aðgerða og ferla til aðlögunnar að áhrifum loftslagsbreytinga. Afurðir verkefnisins muni þannig gagnast íslenskum sveitarfélögum til að hámarka aðlögunargetu sína, grípa til aðgerða og lágmarka um leið efnahagslegt tjón og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á íslenskar byggðir, atvinnuvegi, innviði, samfélög og byggðaþróun.
Viðfangsefni Akureyrarbæjar í verkefninu snúa sérstaklega að gróðureldum, aurskriðum og sjávarflóðum og meðal þátttakenda í vinnustofunni var starfsfólk Akureyrarbæjar sem hefur snertifleti við þessi viðfangsefni. Þar voru jafnframt fulltrúar stofnana á svæðinu og aðrir hagaðilar. Þátttakendur voru um 20 talsins.