Vindmyllur í Grímsey - Tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 og nýtt deiliskipulag

Hluti Aðalskipulags Akureyrar 2018-2030, Grímsey. Rauður hringur sýnir svæðið sem deiliskipulagið næ…
Hluti Aðalskipulags Akureyrar 2018-2030, Grímsey. Rauður hringur sýnir svæðið sem deiliskipulagið nær til.

Nú eru í kynningu drög að tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030, í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Breytingin felur í sér skilgreiningu á nýju iðnaðarsvæði I35 sem verður 1,0 ha að stærð. Samtímis er athafnasvæðið AT20 fellt út. Forsendur fyrir breytingunni eru áform um að reisa allt að sex 6 kW vindmyllur á svæðinu til rafmagnsframleiðslu og draga um leið úr notkun jarðefnaeldsneytis á eynni. Möstur á vindmyllum verða 9 m há, þvermál spaða 5,6 m og hámarkshæð frá jörðu tæpir 12 m. Fjarlægð milli mastra verður 30–50 m.

Skipulagstillöguna má nálgast hér.

Samhliða kynningu aðalskipulagsbreytingar eru kynnt drög að deiliskipulagstillögu ásamt greinargerð fyrir svæði fyrir vindmyllur og fjarskipti skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Viðfangsefni deiliskipulagsins er m.a. að afmarka lóðir og byggingarreiti innan svæðis I35, sjá uppdrátt hér og greinargerð hér.

Tillögurnar verða jafnframt aðgengilegar hjá þjónustu- og skipulagssviði í Ráðhúsi Akureyrarbæjar. Hægt er að skila inn ábendingum um skipulagstillögurnar á netfangið skipulag@akureyri.is eða bréfleiðis til Þjónustu- og skipulagssviðs, Ráðhúsi, Geislagötu 9, 600 Akureyri, til 13. apríl 2022.

Athugasemdir teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir koma fram í fundargerðum skipulagsráðs sem birtar eru á heimasíðu Akureyrarbæjar. Persónuupplýsingar sem fylgja athugasemdum við skipulag, s.s. kennitala, nafn og netfang eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda. Sjá nánar um meðferð persónuupplýsinga hjá Akureyrarbæ hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan