Yfirlýsing bæjarstjóra um barnvænt sveitarfélag

„Það er skylda okkar að gera allt sem við getum til að skapa börnum okkar góða framtíð.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, í tengslum við ráðstefnu um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Forsvarsmenn barnvænna sveitarfélaga hittast á ráðstefnu í Köln í Þýskalandi um miðjan október. Ásthildur og Alfa Dröfn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags, verða fulltrúar Akureyrarbæjar. Þetta er fyrsta alþjóðlega ráðstefnan á þessu sviði. 

Í aðdraganda ráðstefnunnar verður ein yfirlýsing bæjar- og borgarstjóra birt á dag á vefsíðu barnvænna sveitarfélaga hjá UNICEF. Yfirlýsing Ásthildar var birt í gær, en alls koma 30 bæjar- og borgarstjórar skilaboðum áleiðis með þessum hætti. 

Akureyrarbær vinnur markvisst að því að verða barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF. Það er í raun líkan, eða verkfærakista, sem styður við innleiðingu Barnasáttmálans. Bæjarstjórn samþykkti aðgerðaáætlun vegna innnleiðingarinnar í byrjun árs og er fjórum skrefum þar með lokið af átta. Akureyrarbær vonast til að ljúka innleiðingarferlinu snemma á næsta ári og verða þar með fyrsta barnvæna sveitarfélagið hér á landi.

 

#Barnvænsveitarfélög #ChildFriendlyCities #ChildFriendlyCitiesSummit

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan