Innleiðingarferlið
Eitt helsta markmiðið með verkefninu barnvænt sveitarfélag er að börn og fullorðnir læri að þekkja réttindi barna. Akureyrarbær vonast til að ljúka innleiðingarferlinu snemma á næsta ári og verða þar með fyrsta barnvæna sveitarfélagið hér á landi.
Þetta er meðal þess sem kom fram í áhugaverðu viðtali við Ölfu Dröfn Jóhannsdóttur, verkefnastjóra barnvæns sveitarfélags hjá Akureyrarbæ, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Akureyrarbær vinnur markvisst að því að verða barnvænt sveitarfélag. Það er í raun líkan, eða verkfærakista, sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bæjarstjórn samþykkti aðgerðaáætlun vegna verkefnisins í byrjun þessa árs.
Tilbúin að ganga skrefinu lengra
Í viðtalinu ræddi Alfa Dröfn við Óðin Svan Óðinsson, fréttamann RÚV, um tilgang verkefnisins og innleiðingarferlið. „Við teljum okkur öll vera barnvæn, af því að sjálfsögðu önnumst við börnin okkar vel, en ég held að við höfum fundið það núna hjá Akureyrarbæ að við erum tilbúin til að taka þetta skrefinu lengra,“ segir Alfa.
„Barnvænt sveitarfélag skuldbindur sig til þess að setja upp svona barnaréttindagleraugu og líta á sveitarfélagið og það sem við erum að gera með augum barnsins, hvort við séum raunverulega að gera það sem við gerum og taka þær ákvarðanir sem við tökum með hag barnsins að leiðarljósi.“
Aðspurð segir hún að það hafi gengið vel að fá ungmenni til að taka þátt. Nýjasta dæmið er Stórþing ungmenna sem var haldið á sl. föstudag í tengslum við LÝSU – Rokkhátíð samtalsins. „Þau hafa skoðanir og liggja ekki á skoðunum sínum. Þess vegna er svo mikilvægt að tala við börnin, því það veit enginn betur hvernig er að vera barn í dag en börnin sjálf.“
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Ölfu. Það hefst eftir um eina klukkustund og sex mínútur af þættinum.
Hér er ný frétt um málið á vef RÚV.