Skipulagsráð

434. fundur 13. nóvember 2024 kl. 08:15 - 11:28 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Jón Hjaltason
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Sindri Kristjánsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi
  • Steinmar Heiðar Rögnvaldsson byggingarfulltrúi
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia lögfræðingur
  • Einar Sigþórsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá

1.Blöndulína 3 - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2024010552Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna Blöndulínu 3 (Rangárlínu). Er afmarkað helgunarsvæði fyrir háspennulínu frá sveitarfélagamörkum að Rangárvöllum. Fram kemur að þegar tæknilegar forsendur bjóða upp á að þá verði hægt að setja hluta línunnar í jörðu og er sýnd tillaga að legu fyrirhugaðs jarðstrengs.
Afgreiðslu frestað þar til að frekari gögn berast frá Landsneti.

2.Austurbrú - ósk um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2024110156Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. nóvember 2024 þar sem að Oddur Kristján Finnbjarnarson fh. J.E.Skjanna ehf. óskar eftir breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóða við Austurbrú 10-18 og Hafnarstræti 80-82. Er óskað eftir að allar 15 íbúðir Austurbrúar 16 verði hluti af hóteli sem er í byggingu á lóð Hafnarstrætis 80-82, þ.e. að þeim verði breytt úr íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði. Felur þetta í sér fækkun íbúða á lóðinni úr 64 í 49.


Er jafnframt óskað eftir að heimilt byggingarmagn Austurbrúar 10-18 verði lækkað úr 10.675 fm í 10.275 fm og byggingarmagn Hafnarstrætis 80-82 úr 4.473 fm í 4.258 fm.
Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi sem snýr að breyttri nýtingu á húsnæðinu, með fyrirvara um samþykki allra eigenda íbúða innan lóðarinnar, en hafnar á sama tíma ósk umsækjanda um að lækka byggingarmagn skv. gildandi deiliskipulagi. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki er talin þörf á grenndarkynningu sbr. 44. gr. laganna. Er skipulagsfulltrúa falið að sjá um gildistöku breytingarinnar þegar fullnægjandi skipulagsgögn liggja fyrir.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.


Helgi Sveinbjörn Jóhannsson M-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.

3.Háskólasvæði - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2024101385Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 31. október 2024 þar sem að Hildur Steinþórsdóttir fh. FÉSTA leggur fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskólans á Akureyri til samræmis við niðurstöður samkeppni um uppbyggingu á stúdentagörðum. Í breytingunni er gert ráð fyrir að byggingarmagn lóðar D hækki úr 5.200 fm í 7.400 fm og að byggingar verði þrjár í stað tveggja. Þá er einnig gert ráð fyrir að fjöldi bílastæða miði við 1 bílastæði á hverjar 5 íbúðaeiningar.


Er jafnframt óskað eftir því að lóðagjöld verði reiknuð út frá byggðum fermetrum en ekki út frá hámarksbyggingarmagni lóða.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að deiliskipulagi og að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


Afgreiðslu varðandi ósk um að gjaldtaka miðist við byggða fermetra en ekki hámarksbyggingarmagn er frestað.

4.Þverholt 18 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2024091112Vakta málsnúmer

Á 431. fundi skipulagsráðs þann 25. september samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna deiliskipulagsbreytingu, á lóð Þverholts 18 þar sem gert er ráð fyrir bílskúr á lóðamörkum, fyrir lóðarhafa Þverholts 16.

Athugasemd barst frá lóðarhafa Þverholts 16 og er hún meðfylgjandi ásamt viðbrögðum umsækjanda við efni athugasemdarinnar.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur skipulagsfulltrúa að ræða við umsækjanda um framhald málsins.

5.Háimói 10 - ósk um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2024100722Vakta málsnúmer

Lagt fram að nýju erindi Haraldar S. Árnasonar dagsett 17. október 2024, fh. lóðarhafa Háamóa 10, þar sem óskað er eftir að gerð verði breyting á deiliskipulagi Móahverfis sem felur í sér að hámarksvegghæð einbýlishúsa með einhalla þaki megi vera allt að 4,3 - 4,5 m í stað 4,0 m. Afgreiðslu var frestað á fundi ráðsins 23. október 2024.

Er málið nú lagt fram að nýju ásamt umsögn skipulagshönnuðar deiliskipulags Móahverfis.
Skipulagsráð tekur undir álit skipulagshönnuðar um að ekki sé æskilegt að hækka vegghæð til samræmis við fyrirliggjandi erindi og hafnar því að breyta ákvæðum deiliskipulags Móahverfis um einbýlishús.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

6.Hríseyjargata 22 - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2024100912Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. október 2024 þar sem að Júlía Þrastardóttir óskar eftir því að fá að byggja bílskúr á suðurhluta lóðar við Hríseyjargötu 22. Á sama tíma óskar Júlía eftir lóðarstækkun svo að fyrirhugaður bílskúr verði í beinu framhaldi á bílskúr á lóð Hríseyjargötu 20.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna byggingaráformin fyrir lóðarhafa Hríseyjargötu 21a-d þegar fullnægjandi gögn liggja fyrir og skriflegt samþykki lóðarhafa Hríseyjargötu 20 fyrir byggingaráformunum liggur fyrir.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

7.Háhlíð 4 - umsókn um 2 fasteignanúmer

Málsnúmer 2024090290Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. september 2024 þar sem að Anna Þóra Ísfold Rebekkudóttir óskar eftir að Háhlíð 4 verði breytt úr einbýlishúsi í tvíbýlishús. Erindið var grenndarkynnt fyrir eigendum Háhlíðar 2, 6, 8, 10, 12 og 14 ásamt eigendum Höfðahlíðar 14, 15 og 17 frá 12. september 2024 til 15. október 2024. Tvær athugasemdir bárust á kynningartíma. Skipulagsráð frestaði afgreiðslu á 433. fundi sínum þann 23. október 2024 og fól skipulagsfulltrúa að vinna drög að umsögn um efni athugasemda til samræmis við umræður á fundi.


Fyrir liggja gögn grenndarkynningar, innkomnar athugasemdir auk umsagnar Ólafs Rúnars Ólafssonar lögmanns um efni athugasemda, fh. hönd umsækjanda.
Skipulagsráð samþykkir breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér heimild til að breyta húsinu í tvíbýlishús, kvöð um göngustíg verður felld úr gildi og að gert verði ráð fyrir 3 bílastæðum á vesturhluta lóðarinnar við Háhlíð. Er ekki samþykkt að núverandi stíg að húsinu verði breytt í akfæran stíg og að útbúið verði bílastæði við húsið. Umrætt hús er tæplega 300 fm að stærð og telur ráðið það vel til þess fallið að hluti þess sé nýttur fyrir minni íbúð sem gæti t.d. hentað fyrstu kaupendum.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

8.Sjafnarnes 11 - útboð lóðar

Málsnúmer 2024110295Vakta málsnúmer

Borist hafa fyrirspurnir í lóð sem samkvæmt gildandi deiliskipulagi er nr. 11 við Sjafnarnes. Lóðin hefur ekki verið stofnuð sem fasteign en framkvæmdir við að gera hana byggingarhæfa með aðgengi frá Óðinsnesi eru langt komnar.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa lóðina þegar mæliblað liggur fyrir og þegar hún hefur verið stofnuð í fasteignaskrá. Er miðað við að lóðin verði auglýst og úthlutað til samræmis við ákvæði 4.3.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.
Fylgiskjöl:

9.Kauptilboð í byggingarrétt lóðarinnar Gránufélagsgata 24

Málsnúmer 2024040881Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs 23. október sl. var samþykkt að veita hæstbjóðenda í byggingarrétt Gránufélagsgötu 24 frest til 1. nóvember til að skila inn gögnum til samræmis við ákvæði útboðsskilmála. Engin gögn hafa borist og heldur ekki ósk um lengri frest.
Þar sem hæstbjóðandi í byggingarrétt lóðarinnar Gránufélagsgata 24 hefur ekki skilað inn gögnum í samræmi við ákvæði gr. 4.4. í útboðsskilmálum og ekki hefur borist ósk um lengri frest, hafnar skipulagsráð fyrirliggjandi lóðarumsókn. Er skipulagsfulltrúa falið að útbúa nýja útboðsskilmála og leggja fyrir næsta fund skipulagsráðs.st.

10.Kjarnalundur - fyrirspurn varðandi skipulagsmál

Málsnúmer 2024110285Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. nóvember 2024 þar sem að Haraldur Árnason fh. Hótel Kjarnalundar ehf. óskar eftir tímabundnu afnotaleyfi af landi Akureyrarbæjar til 2ja ára. Umsækjandi í samvinnu við Norðurorku vinnur að framtíðarlausn fyrir fráveitu svæðisins og er því verið að óska eftir leyfi til að setja niður bráðabirgða siturlögn þar til að önnur lausn er tilbúin.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við að gerður verði tímabundinn samningur um leigu á landi austan lóðar Kjarnalundar til að koma fyrir bráðabirgða siturlögn. Er eingöngu gert ráð fyrir að samningur verði gerður til eins árs og að í honum verði ákvæði um að gengið verði frá svæðinu að lokinni notkun í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands.

11.Gatnagerðargjöld 2024

Málsnúmer 2024010363Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrstu drög að tillögu að breytingu á gjaldskrá gatnagerðar- og byggingarréttargjalda.

12.Starfsáætlun þjónustu- og skipulagssviðs

Málsnúmer 2022020303Vakta málsnúmer

Lögð fram endurskoðuð starfsáætlun skipulags- og byggingarmála fyrir 2025-2028.

13.Húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar 2025

Málsnúmer 2024100417Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrstu drög að endurskoðun húsnæðisáætlunar fyrir Akureyrarbæ.

14.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2024

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 990. fundar, dagsett 25. október 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 4 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

15.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2024

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 991. fundar, dagsett 31. október 2024, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:28.