Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 24. maí 2023:
Kynningu tillögu á vinnslustigi að breytingu á deiliskipulagi fyrir Viðjulund 1 lauk þann 19. apríl sl.
Þrettán ábendingar bárust við tillöguna auk umsagna frá Norðurorku og Rauða krossinum.
Er nú lögð fram breytt tillaga þar sem gert er ráð fyrir tveimur byggingum eins og í fyrri tillögu en í stað tveggja sex hæða húsa er nú gert ráð fyrir að önnur byggingin verði fimm hæðir og hin sjö hæðir.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki að auglýsa framlagða tillögu skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim fyrirvara að kvöð verði sett um hávaxinn gróður innan lóðar, blágrænar ofanvatnslausnir og að vindgreining verði framkvæmd á auglýsingatíma.
Þá leggur skipulagsráð til að haldinn verði kynningarfundur fyrir íbúa á auglýsingatíma tillögunnar.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista situr hjá við afgreiðslu málins. Hilda Jana og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óska bókað eftirfarandi:
Við höfum efasemdir um að sjö hæða hús sé heppilegt á þessum reit.
Jón Hjaltason óflokksbundinn greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað eftirfarandi:
Augljóst er að áform um byggingu tveggja fjölbýlishúsa, fimm og sjö hæða, á lóð Viðjulundar 1 ganga í berhögg við byggingarlistastefnu bæjarins. Þar segir meðal annars um nýbyggingar: „Byggingin sé í góðu samræmi við nánasta manngert og náttúrulegt umhverfi [...] og falli vel inn í umhverfi og götumynd.“ Með öðrum orðum, það kann aldrei góðri lukku að stýra að byggja mjög mishátt í þéttri byggð. Vindafar breytist og lífsgæði skerðast. Þá má velta fyrir sér hvort fjölbýlishúsin sem hér um ræðir séu ekki enn eitt dæmið um þá öfgafullu mynd sem þétting byggðar er að taka á sig í okkar fallega bæ.
Halla Björk Reynisdóttir kynnti.
Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Andri Teitsson, Gunnar Már Gunnarsson, Halla Björk Reynisdóttir, Heimir Örn Árnason og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.