Bæjarstjórn

3540. fundur 06. febrúar 2024 kl. 16:00 - 17:07 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Heimir Örn Árnason 1. varaforseti
  • Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir
  • Hlynur Jóhannsson
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir
  • Jón Hjaltason
  • Gunnar Már Gunnarsson
  • Andri Teitsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Olga Margrét Kristínard. Cilia fundarritari
  • Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir L-lista sat fundinn í forföllum Höllu Bjarkar Reynisdóttur.
Heimir Örn Árnason varaforseti bæjarstjórnar stýrði fundi í fjarveru Höllu Bjarkar Reynisdóttur.

Forseti leitaði í upphafi fundar afbrigða frá útsendri dagskrá þannig að við bætast nýir dagskrárliðir númer 1 og 2, breytingar í nefndum - kjörstjórn.

1.Breytingar í nefndum - kjörstjórn

Málsnúmer 2022030877Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Heimis Arnar Árnasonar D-lista um breytingu á skipan fulltrúa í kjörstjórn. Rúnar Sigurpálsson verði aðalmaður í stað Valdemars Karls Kristinssonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Breytingar í nefndum - kjörstjórn

Málsnúmer 2022030877Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga Heimis Arnar Árnasonar D-lista um breytingu á skipan fulltrúa í kjörstjórn. María Marinósdóttir verði varamaður í stað Ásgeirs Högnasonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Stefna um íbúasamráð

Málsnúmer 2022041947Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 1. febrúar 2024:

Lögð fram til samþykktar stefna Akureyrarbæjar um íbúasamráð til 2026 ásamt aðgerðaáætlun. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 23. nóvember sl. að vísa stefnunni til kynningar og umsagnar í fastanefndum, ungmennaráði, öldungaráði og samráðshópi um málefni fatlaðs fólks.

Sumarliði Helgason sviðsstjóri þjónustu- og skipulagsviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir framlagða stefnu um íbúasamráð ásamt aðgerðaáætlun með fjórum atkvæðum og vísar málinu til umræðu og afgreiðslu bæjarstjórnar.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista situr hjá.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista og Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista óska bókað:

Við teljum mjög mikilvægt að koma á laggirnar fjölmenningarráði Akureyrarbæjar og teljum við að það hefði átt að vera ein aðgerða stefnu um íbúasamráð.

Hlynur Jóhannsson kynnti málið.

Til máls tóku Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Jón Hjaltason og Lára Halldóra Eiríksdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 10 atkvæðum stefnu um íbúasamráð ásamt aðgerðaáætlun.

Hilda Jana Gísladóttir S-lista situr hjá.


Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Gunnar Már Gunnarsson B-lista og Hilda Jana Gísladóttir S-lista óska bókað:

Augljóslega hefur mistekist að boða ársfjórðungslega í bæjarráð, fulltrúa úr hópi innflytjenda eða aðila tengdum málefnum innflytjenda til samtals um málefni þeirra og helstu áskoranir, líkt og fram kemur í aðgerðaáætlun með Mannréttindastefnu Akureyrarbæjar. Í því ljósi leggjum við þunga áherslu á að stofnað verði fjölmenningarráð Akureyrarbæjar til þess að takast á við þær breyttu áherslur sem fjölmenningarleg samfélög kalla á á flestum sviðum samfélagsins, sem og að gefa fjölbreyttari hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.

4.Reglur Akureyrarbæjar um verklag vegna uppljóstrana og vernd uppljóstrara

Málsnúmer 2024011225Vakta málsnúmer

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 1. febrúar 2024:

Lagðar fram reglur Akureyrarbæjar um verklag vegna uppljóstrana og vernd uppljóstrara. Reglurnar byggja á lögum um vernd uppljóstrara nr. 40/2020, en skv. 5. gr. laganna skal setja reglur um verklag við uppljóstrun starfmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli.

Bæjarráð samþykkir framlagðar reglur um verklag vegna uppljóstrana og vernd uppljóstrara og vísar þeim til umræðu og afgreiðslu bæjarstjórnar.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagðar reglur um verklag vegna uppljóstrana og vernd uppljóstrara.

5.Hlíðarvellir - umsókn um lóð

Málsnúmer 2023110089Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 14. desember 2023:

Liður 6 í fundargerð bæjarstjórnar dagsettri 5. desember 2023:

Liður 7 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 15. nóvember 2023:

Erindi dagsett 3. nóvember 2023 þar sem Fanney Hauksdóttir f.h. atNorth ehf. sækir um lóð við Hlíðarvelli sem í deiliskipulagi er merkt sem lóð B og er staðsett austan núverandi lóðar fyrirtækisins. Umrædd lóð er 7.882 m² að stærð með nýtingarhlutfall 0,5.

Meðfylgjandi er greinargerð og afstöðumynd.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Sindri Kristjánsson S-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista leggja fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Skipulagsráð frestar afgreiðslu og vísar erindinu til bæjarráðs sem hefur með atvinnumál að gera.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu atkvæði Sóleyjar Bjarkar Stefánsdóttur V-lista.

Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að lóð B við Hlíðarvelli 1 verði úthlutað til atNorth ehf. án auglýsingar.

Sóley Björk Stefánsdóttir situr hjá við afgreiðslu málsins.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista og Sindri Krisjánsson S-lista óska bókað eftirfarandi:

Við teljum skipulagsráð ekki hafa forsendur að svo stöddu til að taka upplýsta ákvörðun um áframhaldandi uppbyggingu gagnavera á Akureyri. Sveitarfélagið þarf að setja sér stefnu varðandi uppbyggingu gagnavera í bæjarlandinu. Það liggur ekki fyrir hversu orkufrek þessi uppbygging er og hvert svigrúmið er þá til annarra stórnotenda sem mögulega hefðu hug á atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Bæjarstjórn vísar málinu til umræðu í bæjarráði, sem fer með atvinnumál fyrir hönd bæjarstjórnar.

Fyrir fundi bæjarráðs liggur greinargerð Eyjólfs Magnúsar Kristinssonar forstjóra atNorth dagsett 10. desember 2023.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð frestar málinu til næsta fundar bæjarráðs.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Deiliskipulag fyrir svæði AT16 var samþykkt í mars 2022 og var atNorth ehf. úthlutað lóð að Hlíðarvöllum 1 undir gagnaver samkvæmt viljayfirlýsingu bæjarstjórnar. Í deiliskipulaginu segir að lóðin Hlíðarvellir 1, merkt A í deiliskipulagi sé fyrir fyrsta áfanga gagnavers sem gefur möguleika á stækkun lóðar en einnig segir að sameina megi lóðir A, B og C án deiliskipulagsbreytingar. Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að úthluta lóð að Hlíðarvöllum 3, merkt B í deiliskipulagi, án auglýsingar, með vísan til 2.3. gr. í reglum um úthlutun lóða, þar sem deiliskipulag svæðisins er unnið með frekari stækkun gagnaversins í huga. Leggur bæjarráð einnig til við bæjarstjórn að gatnagerðargjald verði 15% sbr. heimild 1. mgr. 5.2. gr. í gjaldskrá gatnagerðar- og byggingarréttargjalda í Akureyrarbæ nr. 24/2024.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Víð ítrekum þá afstöðu að mikilvægt er að Akureyrarbær setji sér stefnu varðandi uppbyggingu gagnavera í sveitarfélaginu og í framhaldinu hvort að tilefni sé til þess að endurskoða deiliskipulagið, en það gerir ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu gagnavera á lóðum C, D og E. Í þeirri vinnu væri æskilegt að tekið verði upp víðtækara samtal við hlutaðeigendur á starfssvæði SSNE um uppbyggingu gagnavera á svæðinu til framtíðar, þar sem ýmislegt bendir til þess að Norðurland verði ákjósanlegur kostur gagnavera í framtíðinni.

Hlynur Jóhannsson kynnti.

Til máls tóku Hilda Jana Gísladóttir, Jón Hjaltason, Andri Teitsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 10 atkvæðum að úthluta lóð að Hlíðarvöllum 3, merkt B í deiliskipulagi, til atNorth ehf. án auglýsingar með vísan til 2.3. gr. í reglum um úthlutun lóða.

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir situr hjá.


Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum einnig að gatnagerðargjald verði 15% sbr. heimild 1. mgr. 5.2. gr. í gjaldskrá gatnagerðar- og byggingarréttargjalda í Akureyrarbæ nr. 24/2024.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Þegar horft er til orkumála og atvinnuuppbyggingar áréttum við mikilvægi þess að Akureyrarbær vinni metnaðarfulla atvinnu- og nýsköpunarstefnu sem yrði leiðbeinandi og höfð til hliðsjónar við mótun skipulags.

6.Viðjulundur 1 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2022120336Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. janúar 2024:

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóða við Viðjulund 1 og 2 þar sem gerðar hafa verið breytingar til að koma til móts við samþykkt skipulagsráðs frá 25. október 2023. Þær breytingar sem gerðar hafa verið eru eftirfarandi:

- Vestara húsið á lóðinni lækkar úr 7 hæðum í 6 hæðir.

- Felld eru út ákvæði um uppgefinn fjölda íbúða í hvoru húsi.

- Ákvæði um fjölda bílastæða breytast til samræmist við ákvæði Hagahverfis og Móahverfis.

- Bil milli byggingarreita minnkar úr 9 í 7 m.

- Bætt er við ákvæði um að svalir og skyggni megi standa 1,5 m út fyrir byggingarreit.

- Sett er inn kvöð um girðingu meðfram vesturlóðarmörkum til að lækka vindhraða.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi breyting á deiliskipulagi sem nær til lóða við Viðjulund 1 og 2 verði samþykkt með þeim breytingum sem tilgreindar eru nema breytingu sem felur í sér að bil byggingarreita minnki úr 9 m í 7 m. Ráðið leggur einnig til að tillaga að svörum við innkomnum athugasemdum verði samþykkt.

Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við afgreiðslu málsins.

Andri Teitsson kynnti.

Til máls tóku Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir og Jón Hjaltason.
Bæjarstjórn samþykkir með 9 atkvæðum tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóða við Viðjulund 1 og 2 með breytingum sem gerðar voru til þess að koma til móts við samþykkt skipulagsráðs frá 25. október 2023, nema breytingu sem felur í sér að bil byggingarreita minnki úr 9 m í 7 m. Þá samþykkir bæjarstjórn einnig framlagða tillögu að svörum við innkomnum athugasemdum.

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni.

Jón Hjaltason óháður situr hjá.


Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, óskar bókað:

Ég tel mikilvægt að þegar breytingar eru gerðar á eldra skipulagi að horft sé til sögulegs samhengis umhverfis og sérstöðu hverfa. Ég tel að taka eigi mark á umsögn Minjastofnunnar og gera eigi húsakönnun sem uppfyllir staðla Minjastofnunar áður en ákvörðun er tekin um að breyta skipulagi og rífa býlið Lund sem hefur menningarsögulegt gildi fyrir þennan bæjarhluta Akureyrarbæjar.

7.Göngubrú yfir Glerá - ósk um breytingu á deiliskipulagi Glerár

Málsnúmer 2024011322Vakta málsnúmer

Liður 9 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. janúar 2024:

Erindi Ágústs Hafsteinssonar og Lilju Filippusdóttur dagsett 25. janúar 2024, f.h. umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar, þar sem óskað er eftir að gerð verði breyting á deiliskipulagi Glerár. Í breytingunni felst að gert er ráð fyrir að fyrirhuguð göngubrú yfir Glerár, vestan Hörgárbrautar, hliðrist um 50 m til austurs.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og að hún verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki er talin þörf á að útbúa lýsingu eða kynna vinnslutillögu skv. 3. og 40. mgr. 40. gr. skipulagslaga.

Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér að fyrirhuguð göngubrú yfir Glerá hliðrist um 50 m til austurs og að deiliskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Heiðarmói 10-14 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2024011400Vakta málsnúmer

Liður 22 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. janúar 2024:

Erindi Guðbrands Sigurðssonar dagsett 25. janúar 2024, f.h. Brynju leigufélags, þar sem óskað er eftir að fá úthlutað lóðinni Heiðarmóa 10-14. Er jafnframt óskað eftir breytingu á deiliskipulagi á þann veg að á lóðinni megi byggja 6 tveggja herbergja íbúðir. Er umsóknin í samræmi við samkomulag félagsins og Akureyrarbæjar frá því í ágúst 2022 um að bæta við 32 íbúðum við leigusafnið á tímabilinu 2022 til 2026.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn, með vísun í samkomulag við Brynju leigufélag frá því í ágúst 2022, að lóðinni verði úthlutað til Brynju leigufélags án auglýsingar.

Með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar, samþykkir skipulagsráð jafnframt að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við fyrirliggjandi erindi um fjölgun íbúða. Ekki er samþykkt að gerð verði breyting á fyrirliggjandi gatnahönnun. Að mati ráðsins er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og er samþykkt að hún verði samþykkt án grenndarkynningar með fyrirvara um jákvæða umsögn Norðurorku og umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að lóðinni Heiðarmóa 10-14 verði úthlutað til Brynju leigufélags án auglýsingar með vísan til 2.3. gr. í reglum um úthlutun lóða á grundvelli samkomulags við Brynju leigufélag frá því í ágúst 2022.

9.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2023010626Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 19. og 25. janúar og 1. febrúar 2024
Bæjarráð 17. og 25. janúar og 1. febrúar 2024
Skipulagsráð 31. janúar 2024
Umhverfis- og mannvirkjaráð 16. og 23. janúar 2024
Velferðarráð 24. janúar 2024

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:07.