Bæjarstjórn

3552. fundur 29. október 2024 kl. 16:00 - 17:47 Íþróttamiðstöðin í Hrísey
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Heimir Örn Árnason
  • Hlynur Jóhannsson
  • Jón Hjaltason
  • Ásrún Ýr Gestsdóttir
  • Gunnar Már Gunnarsson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hulda Elma Eysteinsdóttir
  • Lára Halldóra Eiríksdóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá
Jón Þorvaldur Heiðarsson L-lista sat fundinn í forföllum Andra Teitssonar.

1.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2025-2028 - fyrri umræða

Málsnúmer 2024040694Vakta málsnúmer

Liður 5 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 24. október 2024:

Unnið að gerð fjárhagsáætlunar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Þá sat bæjarfulltrúinn Lára Halldóra Eiríksdóttir undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2025-2028 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Heimir Örn Árnason kynnti.

Til máls tóku Hulda Elma Eysteinsdóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Jón Þorvaldur Heiðarsson, Hilda Jana Gísladóttir og Heimir Örn Árnason.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2025-2028 til frekari yfirferðar í bæjarráði og síðari umræðu í bæjarstjórn.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað:


Venju samkvæmt eru mörg brýn og jákvæð verkefni í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Hins vegar er áhyggjuefni að ekki sé gert ráð fyrir sjálfbærum rekstri A-hluta næstu fjögur árin, þrátt fyrir mikla tekjuaukningu sveitarfélagsins. Samkvæmt áætluninni stefnir í taprekstur af aðalsjóði um rúman milljarð á næsta ári og gert ráð fyrir áframhaldandi taprekstri næstu ár. Veltufé frá rekstri og handbært fé fer jafnframt lækkandi, á sama tíma og líklega aldrei hefur verið framkvæmt jafn mikið og fyrirhugað er á næsta ári, en stefnt er að lántöku upp á 1700 m.kr. í óhagstæðu vaxtaumhverfi. Þrátt fyrir að fyrirhugað sé að framkvæma mikið, eru engar framkvæmdir þess eðlis að þær séu líklegar til að draga úr rekstrarkostnaði til framtíðar, heldur þvert á móti auka hann. Þá er áhyggjuefni að ekki séu á áætlun framkvæmdir sem gætu mögulega komið í veg fyrir fjárhagslegt tjón í framtíðinni t.d. endurbætur á þaki Síðuskóla og Ráðhússins. Þess utan er áhyggjuefni að á áætluninni er ekki gert ráð fyrir bættum húsakosti leikskólans Lundarsels, sem er löngu tímabært.

2.Þórssvæði - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2024100096Vakta málsnúmer

Liður 5 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 9. október 2024:

Erindi dagsett 2. október 2024 þar sem að Arnþór Tryggvason fh. umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar óskar eftir deiliskipulagsbreytingu fyrir íþróttasvæði Þórs.

Breytingin felur í sér að gert sé ráð fyrir upphituðum gervigrasvelli með 23 metra háum ljósamöstrum auk þess sem afmarkaður er byggingarreitur fyrir stúku.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Þórssvæðis, með þeim fyrirvara að bætt verði við stíg austan við stúkuna skv. gildandi stígaskipulagi, og að breytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fyrir fundi bæjarstjórnar liggja uppfærð gögn til samræmis við bókun skipulagsráðs.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Þórssvæðis með 11 samhljóða atkvæðum og að breytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Tónatröð 2-14 - breyting á deiliskipulagi Spítalavegar

Málsnúmer 2021110358Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 24. október 2024:

Liður 8 í fundargerð bæjarstjórnar dagsettri 1. október 2024:

Rætt um stöðu breytinga á deiliskipulagi Spítalavegar. Bæjarstjórn samþykkti 7. febrúar 2023 að kynna drög að deiliskipulagi og samsvarandi drög að breytingu aðalskipulags.

Málshefjandi er Sunna Hlín Jóhannesdóttir og lagði fram svofellda tillögu:

Bæjarstjórn dregur til baka ákvörðun sína frá 7. febrúar 2023 þar sem samþykkt var að kynna drög að deiliskipulagi skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samsvarandi drög að breytingu aðalskipulags við Spítalaveg.

Til máls tók Andri Teitsson og lagði fram svofellda tillögu f.h. meirihluta bæjarstjórnar:

Í ljósi þess hversu langur tími er liðinn frá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um að vinna að breytingu á deiliskipulagi við Tónatröð án árangurs, felur bæjarstjórn bæjarráði að fara yfir fjárhagshliðina á verkefninu og taka ákvörðun um framhaldið.

Þá tóku til máls Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Örn Árnason og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Jón Hjaltason óháður á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið.

Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 10 samhljóða atkvæðum.

Jón Hjaltason óháður vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Tillaga Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur var borin upp til atkvæða. Þrír greiða atkvæði með tillögunni. Heimir Örn Árnason D-lista, Lára Halldóra Eiríksdóttir D-lista, Andri Teitsson L-lista, Hulda Elma Eysteinsdóttir L-lista, Geir Kristinn Aðalsteinsson L-lista og Inga Dís Sigurðardóttir M-lista greiða atkvæði gegn tillögunnni. Tillagan felld.

Tillaga meirihluta bæjarstjórnar var borin upp til atkvæða. Sex greiða atkvæði með tillögunni. Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista sitja hjá.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Jón Hjaltason óháður á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið.

Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarráð og var það samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Jón Hjaltason óháður vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Bæjarráð telur að þar sem ekki liggur fyrir samkomulag um fjárhagshlið verkefnisins, að þá þurfi bæjarstjórn að taka ákvörðun um hvort að halda eigi áfram með breytingu á skipulagi svæðisins.

Í upphafi þessa dagskrárliðar vakti Jón Hjaltason óháður á því athygli að hann teldi sig vanhæfan að fjalla um þennan lið.

Með vísan til 7. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 var meint vanhæfi lagt upp til atkvæða fyrir bæjarstjórn og var það samþykkt með 10 samhljóða atkvæðum.

Jón Hjaltason óháður vék af fundi við umræðu og afgreiðslu málsins.

Hlynur Jóhannsson kynnti.


Bæjarstjórn samþykkir með 10 atkvæðum að draga til baka ákvörðun sína frá 7. febrúar 2023 þar sem samþykkt var að kynna drög að deiliskipulagi skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samsvarandi drög að breytingu aðalskipulags við Spítalaveg.


Jón Hjaltason kom inn á fund þegar þessum lið var lokið.

4.Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 - ákvörðun um endurskoðun

Málsnúmer 2022090355Vakta málsnúmer

Liður 2 úr fundargerð skipulagsráðs dagsettri 23. október 2024:

Í mars 2023 var samþykkt að hefja vinnu við minniháttar endurskoðun á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030. Eru nú lögð fram drög að skipulagslýsingu þar sem farið er yfir þau atriði sem fyrirhugað er að breyta.

Skipulagsráð samþykkir fyrirliggjandi skipulagslýsingu með fyrirvara um breytingar til samræmis við umræður á fundi. Leggur ráðið til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði samþykkt og hún kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er miðað við að helstu atriði lýsingarinnar verði kynnt á opnum íbúafundi sem haldinn verður í Hofi þann 31. október nk.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Til máls tóku Jón Hjaltason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Jón Þorvaldur Heiðarsson og Halla Björk Reynisdóttir.

Bæjarstjórn samþykkir skipulagslýsinguna með 11 samhljóða atkvæðum og að hún verði kynnt skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Einnig er miðað við að helstu atriði verði kynnt á opnum íbúafundi í Hofi næstkomandi fimmtudag.

5.Þursaholt 2-12 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2024081518Vakta málsnúmer

Liður 3 úr fundargerð skipulagsráðs dagsettri 23. október 2024:

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Holtahverfis sem nær til lóðarinnar Þursaholts 2-12. Í breytingunni felst að lóðinni er skipt í tvær lóðir og á annarri þeirra, Þursaholti 2, er gert ráð fyrir 6000 fm hjúkrunarheimili á allt að 4 hæðum. Á hinni lóðinni verði gert ráð fyrir uppbyggingu íbúða fyrir eldra fólk, 60 ára og eldri auk heimildar til uppbyggingar á þjónustustarfsemi. Er gert ráð fyrir að hjúkrunarheimilið geti tengst þjónustuhlutanum.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að deiliskipulagi, með minniháttar breytingum í samræmi við umræður á fundinum, og að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samhliða auglýsingu aðalskipulagsbreytingar.

Hulda Elma Eysteinsdóttir kynnti.

Til máls tóku Gunnar Már Gunnarsson, Heimir Örn Árnason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Halla Björk Reynisdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagða tillögu að deiliskipulagi og að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, samhliða auglýsingu aðalskipulagsbreytingar.

6.Þjónustusamningur um rekstur almenningsbókasafns

Málsnúmer 2024090752Vakta málsnúmer

Liður 7 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 24. október 2024:

Lagður fram þjónustusamningur milli Akureyrarbæjar og Svalbarðsstrandarhrepps um rekstur almenningsbókasafns. Markmið samningsins er að veita íbúum Svalbarðsstrandarhrepps aðgengi að safnkosti og þjónustu Amtsbókasafns gegn greiðslu sem nemur kr. 6.017.303 á ársgrundvelli samkvæmt samningnum.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir þjónustusamninginn og vísar honum til staðfestingar í bæjarstjórn með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum.

Hlynur Jóhannsson kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir þjónustusamninginnm með 11 samhljóða atkvæðum.

7.Gjaldskrá Hlíðarfjalls 2025

Málsnúmer 2024100774Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 24. október 2024:

Lögð fram drög að gjaldskrá Hlíðarfjalls.

Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir gjaldskrá Hlíðarfjalls fyrir sitt leyti og vísar henni til afgreiðslu í bæjarstjórn með þeim breytingum sem voru gerðar á fundinum.

Heimir Örn Árnason kynnti.

Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að gjaldskrá Hlíðarfjalls með 11 samhljóða atkvæðum.

8.Alþingiskosningar 2024 - utankjörfundur

Málsnúmer 2024100612Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi dagsett 17. október 2024 frá Svavari Pálssyni sýslumanninum á Norðurlandi eystra vegna alþingiskosninga.

Samkvæmt 69. gr. kosningalaga nr. 112/2021 er atkvæðagreiðsla utan kjörfundar heimil í húsnæði á vegum sveitarfélags, enda skuli sýslumaður að ósk sveitarstjórnar skipa kjörstjóra til að annast atkvæðagreiðslu. Hefð er fyrir atkvæðagreiðslu á skrifstofu Akureyrarbæjar í Hrísey og í Grímsey hjá sérstökum kjörstjóra.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að óska eftir því við Sýslumanninn á Norðurlandi eystra að skipa kjörstjóra í Hrísey og Grímsey vegna utankjörfundaratkvæðagreiðslu alþingiskosninga 2024. Jafnframt tilnefnir bæjarráð Önnu Maríu Sigvaldadóttur sem kjörstjóra í Grímsey og Dröfn Teitsdóttur sem kjörstjóra í Hrísey.

9.Hrísey - helstu verkefni

Málsnúmer 2024100977Vakta málsnúmer

Rætt um helstu verkefni Akureyrarbæjar í Hrísey.

Halla Björk Reynisdóttir kynnti.

Til máls tók Gunnar Már Gunnarsson og las upp sameiginlega bókun bæjarstjórnar.

Þá tóku til máls Ásrún Ýr Gestsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir og Jón Hjaltason.
Tuttugu ár eru nú liðin frá því að íbúar Akureyrar og Hríseyjar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Það er óhætt að segja að sameiningin hafi auðgað bæði samfélög. Mannlífið hefur blómstrað og samstarfið verið afskaplega gott allt frá upphafi. Ýmis verkefni á þessum tíma hafa stutt við blómlega byggð í Hrísey, s.s.: Ráðist var í uppbyggingu á íþróttahúsi og sundlaug, og þannig hefur Ungmennafélagið Narfi getað haldið úti öflugu starfi yfir vetrartímann. Staðinn hefur verið vörður um leik- og grunnskóla í Hrísey, og þannig hefur sveitarfélagið stutt við búsetu barnafólks. Með stuðningi sveitarfélagsins var lagður ljósleiðari út til eyjar og með tilkomu hans hafa atvinnumöguleikar aukist. Að endingu hefur sveitarfélagið staðið með íbúum þegar kemur að ferjusamgöngum, sem er lífæð samfélagsins. Framtíðin er björt og íbúaþróun jákvæð með lækkandi meðalaldri.

10.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2023010626Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 17. október 2024
Bæjarráð 17. og 24. október 2024
Fræðslu- og lýðheilsuráð 9. október 2024
Skipulagsráð 23. október 2024
Umhverfis- og mannvirkjaráð 15. október 2024
Velferðarráð 23. október 2024

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 17:47.