Skjaldarmerki Akureyrar

Skjaldarmerki Akureyrarkaupstaðar.
Skjaldarmerki Akureyrarkaupstaðar.

Á þriðjudag var 150 ára afmælismerki Akureyrarkaupstaðar kynnt til sögunnar en á næsta ári verður hálf önnur öld liðin frá því bærinn fékk kaupstaðarréttindi. Af því tilefni er vert að rifja upp sögu byggðarmerkis Akureyrar sem upphaflega var teiknað af Tryggva Magnússyni listmálara.

Merkið á rætur að rekja til Alþingishátíðarinnar 1930 en var þó illa varðveitt þegar fram liðu stundir og var loks svo komið að það hafði verið skrumskælt, ef svo má segja, og var til í mörgum býsna ólíkum útgáfum. Árið 1987 var loks gerð samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar um skjaldarmerki Akureyrar og hafði Guðmundur Ármann Sigurjónsson myndlistarmaður þá verið fenginn til að teikna það upp aftur, bæði í almennri einlitri útgáfu og þrílitri hátíðarútgáfu. Var þá sérstaklega kveðið á um notkun þess, lit og fleira.

Merkið er blár skjöldur með hvítum fugli. Á bringu fuglsins er skjöldur markaður með kornknippi. Blái liturinn er litur himinsins og fjarlægra fjalla, kornknippið tákn nafnsins Akureyri, en fuglinn tengdur frásögn Heimskringlu um landvættir: Haraldur Gormsson konungur bauð fjölkunnugum manni að fara hamförum til Íslands. Sá fór í hvalslíki. Er hann fór inn eftir Eyjafirði „fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir.“ Í Heimskringlu segir orðrétt:

Haraldur konungur bauð kunngum manni að fara í hamförum til Íslands og freista hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi og bar höfuðið hærra en fjöllin og margir aðrir jötnar með honum. (Ólafs saga Tryggvasonar 33. kap.)

Skjaldarmerki lýðveldisins Íslands.

 

 Fugl - Cosima Celine Zewe.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan