Ungmennaráð

20. fundur 28. september 2021 kl. 16:15 - 17:45 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
  • Anton Bjarni Bjarkason
  • Gunnborg Petra Jóhannsdóttir stýrði fundi
  • Helga Sóley G. Tulinius
  • Hildur Lilja Jónsdóttir
  • Rakel Alda Steinsdóttir
  • Stormur Karlsson
  • Telma Ósk Þórhallsdóttir
  • Þór Reykjalín Jóhannesson
Starfsmenn
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Dagskrá
Árlegur fundur ungmennaráðs með bæjarstjórn - "bæjarstjórnarfundur unga fólksins".

Í upphafi fundar tók Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar til máls og þakkaði fyrir boðið á fundinn. Jafnframt nefndi hún að mikilvægt væri að þau mál sem ungmennaráð vekur athygli á fái umfjöllun og afgreiðslu í bæjarkerfinu. Einnig hvatti hún ungmennaráð til að fylgja sínum málum eftir þegar þörf krefur.

1.Tæknilæsi ungmenna

Málsnúmer 2020030299Vakta málsnúmer

Telma Ósk Þórhallsdóttir kynnti.

Á bæjarstjórnarfundi unga fólksins í mars 2020 vakti ungmennaráð máls á mikilvægi tæknilæsis ungmenna. Hvaða árangri á sviði tæknilæsis og starfrænnar þróunar höfum við náð á þessu liðna ári? Ungmennaráð telur að sem fyrsta barnvæna sveitarfélag landsins ætti Akureyrarbær að halda áfram að sýna gott fordæmi, ekki aðeins með því að bæta líf ungmenna í núinu heldur að bæta það svo þeim verði allir vegir færir í framtíðinni. Auka þarf og bæta upplýsingatæknikennslu, byrja hana snemma og halda áfram út skólagönguna.


Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og nefndi m.a. að nýlega var samþykkt menntastefna Akureyrarbæjar en í henni er tekið á ýmsum þáttum sem snúa að tæknilæsi, upplýsingatæknikennslu o.fl. Vonir eru bundnar við að stefnan og aðgerðaáætlunin sem henni fylgir leiði til framfara.

2.Sjálfsmynd barna og unglinga

Málsnúmer 2021091273Vakta málsnúmer

Hildur Lilja Jónsdóttir kynnti.

Við lifum í samfélagi þar sem staðalímyndir og gríðarlegar útlitskröfur ná til flestra barna og unglinga í gegnum samfélagsmiðla. Við þurfum því að vinna markvist gegn þessum ýktu kröfum sem gera ekki annað en að láta ungmennum líða illa og efast um sjálf sig. Það er því ekki nóg að koma inn með eina og eina kynningu í skólana.

Við eigum forvarnastefnu með mikilvægum punktum t.d. að sterk sjálfsmynd barna og ungmenna hafi jákvæð áhrif á hegðun þeirra, líðan, námsárangur og tómstundaþátttöku.

Erum við að gera nóg?

Ungmennaráð leggur til að bærinn fari í markvissa vinnu í skólakerfinu til að bæta líðan og efla sjálfsmynd nemenda. Einnig að tekið verði tillit til einstaklinga sem þurfa aukna aðstoð og sérúrræði eins og sálfræðiþjónustu innan skólanna og einstaklingsklefa í íþrótta- og sundklefum.


Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar. Í máli hennar kom m.a. fram að skoða mætti hvort nemendur sem náð hafa þeim hæfniviðmiðum í sundi sem námsskrá gerir ráð fyrir gætu valið hvort þeir færu í skólasund eða aðra heilsurækt.

3.Sjálfbær skóli

Málsnúmer 2021091275Vakta málsnúmer

Anton Bjarni Bjarkason kynnti.

Í vinnu í átt að sjálfbærni og grænum skrefum, sem samfélag framtíðarinnar á að vera þátttakandi í, er upplagt að byrja í skólunum. Lagt er til að allir skólar í bæjarfélaginu stuðli að því að unnt sé að rækta grænmeti á skólalóðinni, jafnt í leikskólum sem og grunnskólum. Vel þarf að þessu að standa ef vel á að ganga en með aukinni fræðslu og að börn sjái tilgang og hafi hlutverk og með þessum grænu skrefum eykst bæði áhugi þeirra og ábyrgð.


Guðmundur Baldvin Guðmundsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir áhugaverðar tillögur.

4.Hinseginleikinn

Málsnúmer 2021091277Vakta málsnúmer

Helga Sóley G. Tulinius kynnti.

Samfélagið verður sífellt fjölbreyttara og við þurfum að þróast með því. Hinseginleikinn snertir alla og sérstaklega ungmenni þar sem opinberlega hinsegin ungmennum fjölgar með hverju ári. Við þurfum að sýna að við styðjum þau og að þau séu velkomin hér. Þetta er sérstaklega mikilvægt í skólum landsins. Ungt fólk eyðir miklum tíma í skólum og skólinn er einn aðalmótunarstaður þess. Skólinn á að vera staður þar sem ungt fólk getur lært, blómstrað og verið það sjálft. Því miður er það ekki staðreynd fyrir alla og eru hinsegin krakkar of oft í þeim hópi. Skólar þurfa að vera opnari fyrir hinsegin og kynsegin krökkum. Það þarf að vera meiri fræðsla og það þarf einnig að normalisera hinseginleikann, að hann sé eðlilegur hluti af skólalífinu. Of margir hinsegin krakkar verða fyrir einelti og útilokun frá jafnöldrum sínum vegna fáfræði.

Góð fræðsla fyrir ungmenni er mikilvæg en ekki síður þannig að þeir sem vinna með ungmennum séu vel að sér í málefninu, taki á því sem upp kemur og séu til staðar fyrir hinsegin ungmenni með skilningi.

Mikilvægt er að Akureyrarbær geri skólum bæjarins kleift að sinna þessum málum og að passað verði upp á að fræðslan komi inn í skólana, bæði til kennara og nemenda.


Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði Helgu Sóleyju fyrir góða brýningu og tillögur. Hún sagði það einlægan vilja bæjarfulltrúa að reynt verði að uppræta einelti af hvaða tagi sem er.

5.Heimanám

Málsnúmer 2021091279Vakta málsnúmer

Þór Reykjalín Jóhannesson kynnti.

Heimanám er hluti af því að vera í skóla og mikilvægur hluti af þroskaferli fólks en því miður er fullt af krökkum í skólum bæjarins sem ekki hafa foreldra eða aðstandendur sem geta aðstoðað þau við heimanámið.

Lagt er til að við höfum tíma á skólatíma þar sem kennarar eru til staðar fyrir þá krakka sem vilja vinna í heimanáminu og aðstoði þau við það.


Heimir Haraldsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og sagðist vera hrifinn af tillögunni og vonast til að henni verði hrint í framkvæmd.

Einnig tók Anton Bjarni Bjarkason til máls og tók undir tillöguna.

6.Skóli byrji kl. 9

Málsnúmer 2021091280Vakta málsnúmer

Telma Ósk Þórhallsdóttir kynnti.

Svefn er nauðsynlegur til að líða vel og ná árangri. Ungmenni sem sofa meira eru oftast hamingjusamari, borða hollari mat, hreyfa sig meira og taka frekar ábyrgð á heilsunni frekar en ungmenni sem sofa minna. Nægur svefn hefur líka jákvæð áhrif á einbeitingu og minni. Fyrir utan það er svefn auðvitað nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska unglings.

Allir hafa innbyggða líkamsklukku, en þessi líkamsklukka breytist í ungmennum þegar þau ná kynþroska. Líkamsklukka krakka á aldrinum 13-18 ára er allt að 3 klst. á eftir líkamsklukku fullorðins einstaklings.

Rannsóknir hafa sýnt að best væri að skóli hjá 13-18 ára einstaklingum byrji á milli kl. 10 og 11. Við viljum eflaust öll að ungmennum hér í bænum bæði líði vel og gangi vel. Þess vegna er lagt til að seinka byrjun skóladagsins frá kl. 8 til kl. 9.


Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og tók undir það að svefn væri afskaplega mikilvægur, sérstaklega fyrir unglinga. Þróa beri leiðir til úrbóta.

7.Fræðsla í skólum - lífsleikni og jafningjafræðsla

Málsnúmer 2021091281Vakta málsnúmer

Rakel Alda Steinsdóttir kynnti.

Undanfarin ár hefur í vaxandi mæli verið kallað eftir aukinni og fjölbreyttri fræðslu í skólum landsins. Fræðslu um fjármál, tryggingar, skattkerfið, fasteignir, sjálfsmynd, upplýsingatækni og í rauninni bara lífsleikni á allan hátt. Börn og unglingar vilja kynfræðslu, kynjafræðslu, jafnréttisfræðslu, hinseginfræðslu og stjórnmálafræðslu.

Ungt fólk vill vita hvað það á að gera þegar það kemur út á vinnumarkaðinn, við viljum að það sé ekki verið að svindla á ungmennum á vinnumarkaði. Við viljum að ungmenni læri starfsaga, við viljum að ungmenni kunni að hugsa vel um peningana sína og kunni að lesa launaseðilinn sinn.

Við viljum að krakkar geti staðið með sjálfum sér í öllum aðstæðum, við viljum að krakkar hafi skoðun á samfélaginu og við viljum að ungmenni viti hvað þau eiga að gera þegar þau eiga að fara að kjósa. Við viljum að ungmennin okkar styðji jafnrétti og að þau viti að allir eigi sín réttindi og sínar skyldur, að allir geti verið þeir sem þeir vilja án þess að vera hræddir um misrétti eða óréttlæti. Við viljum að ungmenni kunni mannleg samskipti og hvernig á að haga sér, almenna virðingu og umburðarlyndi gagnvart náunganum.

Á viðburði ungmennaráðs, stórþingi ungmenna árið 2019, kom fram að nemendur vilja aukna fræðslu á öllum þeim sviðum sem upp eru talin. Ungmennaráð tekur undir þetta og leggur jafnframt áherslu á mikilvægi jafningjafræðslu sem oft er mun áhugaverðari nálgun, að mati ungmenna, en hefðbundnar aðferðir.


Ingibjörg Ólöf Isaksen bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir áhugaverða yfirferð og góða punkta. Hún hvatti ungmennaráð til að nýta tækifæri sín til að koma málum á framfæri við ráð bæjarins t.d. í gegnum áheyrnarfulltrúa sína.

8.Ruslatunnumál

Málsnúmer 2021091286Vakta málsnúmer

Stormur Karlsson kynnti.

Mikilvægt er að búa í hreinum og snyrtilegum bæ. Almenn vellíðan og framleiðni eykst og einnig er mikilvægt að halda alls konar rusli fram náttúrunni okkar.

Ruslatunnur ættu að vera nálægt útidyrum allra skóla og verslana og jafnframt ættu þær að vera á algengum almenningsstöðum. Flokkunartunnur þyrftu að vera á fleiri stöðum.


Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir góðar tillögur sem hann taldi að ætti að koma í framkvæmd sem fyrst.

9.Akureyrarappið - upplýsingagjöf á nútímalegan hátt

Málsnúmer 2021091326Vakta málsnúmer

Telma Ósk Þórhallsdóttir kynnti.

Mikilvægt er að sveitarfélagið setji skýra stefnu um hvernig best sé að hátta upplýsingagjöf til allra í samfélaginu, sér í lagi ungs fólks.

Ungmennaráð leggur til hnitmiðaða og nútímalega lausn: allt á einum stað í appi, Akureyrarappinu.


Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði ungmennaráði fyrir að vekja athygli á mörgum þörfum málefnum. Hann sagði frá því að unnið væri að gerð Akureyrarapps sem vonandi sér dagsins ljós á næstu mánuðum.

Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi tók einnig til máls, tók undir mikilvægi vandaðrar upplýsingagjafar og sagði nánar frá gerð appsins.

Þórhallur Jónsson bæjarfulltrúi tók einnig til máls og hvatti ungmennaráð til að koma með tillögur að því hvernig appið eigi að þróast og hvað það eigi að innihalda.
Í lok fundar var borin upp og samþykkt eftirfarandi bókun:
Ungmennaráð samþykkir að vísa málefnum sem hér hafa verið til umfjöllunar til bæjarráðs og óskar jafnframt eftir að þeim verði vísað til fagnefnda til frekari umræðu.

Fundi slitið - kl. 17:45.