Fræðsla í skólum - lífsleikni og jafningjafræðsla

Málsnúmer 2021091281

Vakta málsnúmer

Ungmennaráð - 20. fundur - 28.09.2021

Rakel Alda Steinsdóttir kynnti.

Undanfarin ár hefur í vaxandi mæli verið kallað eftir aukinni og fjölbreyttri fræðslu í skólum landsins. Fræðslu um fjármál, tryggingar, skattkerfið, fasteignir, sjálfsmynd, upplýsingatækni og í rauninni bara lífsleikni á allan hátt. Börn og unglingar vilja kynfræðslu, kynjafræðslu, jafnréttisfræðslu, hinseginfræðslu og stjórnmálafræðslu.

Ungt fólk vill vita hvað það á að gera þegar það kemur út á vinnumarkaðinn, við viljum að það sé ekki verið að svindla á ungmennum á vinnumarkaði. Við viljum að ungmenni læri starfsaga, við viljum að ungmenni kunni að hugsa vel um peningana sína og kunni að lesa launaseðilinn sinn.

Við viljum að krakkar geti staðið með sjálfum sér í öllum aðstæðum, við viljum að krakkar hafi skoðun á samfélaginu og við viljum að ungmenni viti hvað þau eiga að gera þegar þau eiga að fara að kjósa. Við viljum að ungmennin okkar styðji jafnrétti og að þau viti að allir eigi sín réttindi og sínar skyldur, að allir geti verið þeir sem þeir vilja án þess að vera hræddir um misrétti eða óréttlæti. Við viljum að ungmenni kunni mannleg samskipti og hvernig á að haga sér, almenna virðingu og umburðarlyndi gagnvart náunganum.

Á viðburði ungmennaráðs, stórþingi ungmenna árið 2019, kom fram að nemendur vilja aukna fræðslu á öllum þeim sviðum sem upp eru talin. Ungmennaráð tekur undir þetta og leggur jafnframt áherslu á mikilvægi jafningjafræðslu sem oft er mun áhugaverðari nálgun, að mati ungmenna, en hefðbundnar aðferðir.


Ingibjörg Ólöf Isaksen bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir áhugaverða yfirferð og góða punkta. Hún hvatti ungmennaráð til að nýta tækifæri sín til að koma málum á framfæri við ráð bæjarins t.d. í gegnum áheyrnarfulltrúa sína.