Erindi dagsett 24. mars 2017 þar sem Sigurður Sigurðsson fyrir hönd SS Byggis ehf., kt. 620687-2519, sækir um heimild til að deiliskipuleggja lóðir í landi Hálanda. Skipulagslýsing var auglýst þann 10. maí 2017. Innkomnum ábendingum var vísað í vinnslu deiliskipulagsins. Tillaga að deiliskipulagi er dagsett 12. mars 2018 og unnin af Halldóri Jóhannssyni hjá Teikn, ráðgjöf og hönnun. Drög að deiliskipulagi voru kynnt og óskað eftir umsögnum í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 5. apríl 2018. Drög voru aðgengileg á heimasíðu Akureyrarbæjar og í þjónustuanddyri. Auglýsing birtist í dagskránni þann 11. apríl 2018.
Sjö ábendingar og umsagnir bárust:
1) Minjastofnun Íslands, dagsett 11. apríl 2018.
Minjastofnun gerir ekki athugasemd við tillöguna en vekur athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 vegna óþekktra fornminja.
Önnur umsögn Minjastofnunar er dagsett 18. apríl 2018.
Nánari könnunar er þörf á hugsanlegum jarðlægum minjum áður en kemur til þess að byggt verði innan hættusvæðisins sem er afmarkað á skipulagsuppdrætti. Mótvægisaðgerðir þessar þurfa að vinnast af hæfum fornleifafræðingi í samráði við minjavörð Norðurlands eystra. Ákvörðun um hvort ráðast þurfi í frekari mótvægisaðgerðir mun byggja á niðurstöðum þessarar könnunar. Eftir atvikum er mögulegt að krafa verði gerð um heildaruppgröft minja sem kunna að koma í ljós.
2) Lóðafélag í Hálöndum, dagsett 14. apríl 2018.
Mótmælt er:
a) Umfangi hótelbyggingarinnar fyrir allt að 250 herbergi og telja slíka byggingu ekki eiga heima í lágreistri, rólegri byggð frístundahúsa.
b) Hæð hótelbyggingarinnar sem á ekki við í lágreistri byggð frístundahúsa og skyggir á útsýni.
c) Staðsetningu bílastæða við hótelið sem er við megin leik- og útivistarsvæði frístundabyggðarinnar.
3) Sverrir Þorsteinsson og Herdís Jónsdóttir, dagsett 14. apríl 2018.
Þau eru eigendur frístundahúss í Hálöndum og var aðalástæða kaupanna sú að fulltrúi byggingafyrirtækisins sagði að útsýni yrði óhindrað, hverfið væri lágreist, barnvænt og umhverfisvænt. Í fyrirliggjandi drögum er meðal annars gert ráð fyrir stóru hóteli beint fyrir framan húsið þeirra ásamt tilheyrandi bílastæðum. Þetta er ekki í samræmi við loforð og ekki í samræmi við deiliskipulag 2. áfanga hverfisins.
4) Lodge ehf., dagsett 15. apríl 2018.
Mótmælt er:
a) Umfangi hótelbyggingarinnar fyrir allt að 250 herbergi og telja slíka byggingu ekki eiga heima í lágreistri, rólegri byggð frístundahúsa.
b) Hæð hótelbyggingarinnar, sem á ekki heima í lágreistri byggð frístundahúsa og skyggir á útsýni.
c) Staðsetningu bílastæða við hótelið sem er við megin leik- og útivistarsvæði frístundabyggðarinnar.
d) Við kaup á frístundahúsi voru þau í góðri trú um að það myndi rísa lágreist hótel í anda Hótel Föroyar. Þar sem nú er áformað að reisa hótel var kynnt að þar ætti að vera útivistarsvæði.
5) Starfsmannafélag Orkuveitu Reykjavíkur, dagsett 17. apríl 2018.
Starfsmannafélagið tekur undir athugasemdir lóðafélagsins. Staðsetning á hóteli mun gjörbreyta ásýnd svæðisins og þeim gæðum sem svæðið hefur í dag.
6) Eignarhaldsfélagið Sigtún, dagsett 15. apríl 2018.
Mótmælt er:
a) Umfangi hótelbyggingarinnar fyrir allt að 250 herbergi og telja slíka byggingu ekki eiga heima í lágreistri, rólegri byggð frístundahúsa.
b) Hæð hótelbyggingarinnar, sem á ekki heima í lágreistri byggð frístundahúsa og skyggir á útsýni.
c) Staðsetningu bílastæða við hótelið sem er við megin leik- og útivistarsvæði frístundabyggðarinnar.
d) Við kaup á frístundahúsi voru þau í góðri trú um að það myndi rísa lágreist hótel í anda Hótel Föroyar. Þar sem nú er áformað að reisa hótel var kynnt að þar ætti að vera útivistarsvæði.
7) Norðurorka hf., dagsett 17. apríl 2018.
Bílastæði fyrir fyrirhugað hótel brýtur í bága við samning sem gerður var milli Norðurorku og Hálanda frá 3. febrúar 2017. Semja þarf um færslu á háspennulögn nyrst og austast sem liggur að Hesjuvöllum. Þörf er á lagnaleið milli lóða niður úr neðstu götu að bænum Hlíðarenda. Við hönnun þarf að taka tillit til hæðarkóta fráveitu þannig að tryggt verði að hún sé sjálfrennandi. Norðurorka getur samkvæmt fyrrgreindu ekki fallist á tillöguna eins og hún hefur verið birt.
Skipulagsráð heimilar umsækjanda að vinna tillögu að deiliskipulagi svæðisins, sem verði auglýst skv. 41. grein skipulagslaga nr. 123/2010. Umsækjanda er bent á að hafa samráð við Minjastofnun varðandi fornleifaskráningu svæðisins.
Edward Hákon Huijbens V-lista sat hjá við afgreiðsluna.