Erindi dagsett 12. júní 2015 þar sem Helgi Jóhannesson f.h. Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um breytingar á deiliskipulagi Sandgerðisbótar vegna lóðar skolphreinsistöðvar. Skipulagstillagan var auglýst frá 24. febrúar með athugasemdafresti til 7. apríl 2017. Skipulagsgögn voru aðgengileg hjá Skipulagsstofnun, í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagssviðs.
Ein athugasemd barst:
1) Undirskriftalisti með 32 undirskriftum, dagsettur 22. mars 2017.
Gerð er athugasemd við að stígur meðfram sjónum sé felldur niður og að búið sé að girða lóðina af.
Fjórar umsagnir bárust:
1) Umhverfisstofnun, dagsett 10. mars 2017.
Við mat á umhverfisáhrifum hreinsistöðvarinnar benti Umhverfisstofnun á að óvíst væri hvort sú aðgerð að dæla skólpi lengra frá landi muni hafa jákvæð áhrif á viðtakann nema að því marki að þynning mun aukast. Sjónmengun mun minnka. Á heildina litið telur Umhverfisstofnunin að deiliskipulagsbreytingin muni hafa jákvæð umhverfisáhrif í för með sér og gerir ekki athugasemdir við umrædda tillögu.
2) Skipulagsstofnun, dagsett 16. mars 2017.
Skipulagsstofnun telur að framlögð gögn lýsi skipulagsáformum og umhverfismati tillögunnar með fullnægjandi hætti.
3) Minjastofnun Íslands, dagsett 17. mars 2017.
Engar fornleifar eru þekktar á svæðinu og eru því ekki gerðar athugasemdir. Vakin er athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.
4) Náttúrufræðistofnun Íslands, dagsett 7. apríl 2017.
Engar athugasemdir eru gerðar.
Á fundinn kom Baldur Dýrfjörð frá Norðurorku.