Tekið fyrir að nýju, bæjarstjórn frestaði afgreiðslu á fundi sínum þann 16. desember 2014.
6. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 10. desember 2014:
Bæjarstjórn samþykkti 29. ágúst 2012 að hluti Glerárdals yrði skilgreindur sem fólkvangur í samræmi við lög um náttúruvernd nr. 44/1999, gr. 55. Einnig var samþykkt að gerð yrði tillaga til Umhverfisstofnunar um mörk og nýtingarmöguleika fólkvangsins og gerð grein fyrir þeim takmörkunum sem ákvörðun um fólkvang kann að setja Akureyrarbæ sem rétthafa landsvæðisins.
Í framhaldinu voru lagðar fram tillögur starfshóps sem skipaður var til að vinna að friðun Glerárdals sem fólkvangs. Tillagan er lögð fram á ný eftir kynningu Umhverfisstofnunar þar sem gerðar hafa verið þrjár orðalagsbreytingar í texta friðlýsingarskilmála.
Innkomin umsögn frá ISAVIA dagsett 28. nóvember 2014 sem ekki gerir athugasemd við tillöguna.
Umhverfisnefnd fjallaði um tillöguna á fundi sínum 9. desember 2014 og vísaði henni til umfjöllunar skipulagsnefndar.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við þær breytingar sem gerðar hafa verið við tillöguna um afmörkun fólkvangsins og ákvæði hennar vegna stofnunar fólkvangs í Glerárdal og vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.
8. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 11. febrúar 2015:
Á fundi bæjarstjórnar 16. desember 2014 var óskað eftir að nokkur atriði í skilmálatexta fólkvangsins yrðu skýrðir. Umhverfisnefnd hefur 10. febrúar 2015 yfirfarið umræddan texta og gert tillögur að breytingum sem skýra þau atriði nánar.
Í stað setningarinnar 'Umferð hesta er heimiluð á stígum og stikuðum leiðum.' komi
'Ferðir á hestum um fólkvanginn eru aðeins leyfðar á stikuðum leiðum sem eru sérstaklega merktar sem göngu- og reiðleiðir.'
Í stað setningarinnar 'Umferð loftfara sem valda hávaða og truflun (t.d. þyrluflug) í fólkvanginum fyrir gesti og dýralíf er óheimil nema um sé að ræða hefðbundið aðflug að og brottflug frá flugvelli. ' komi
'Umferð loftfara sem truflað gæti gesti og dýralíf er óheimil án sérstaks leyfis (t.d. þyrluflug). Undanskilið er hefðbundið aðflug og brottflug til og frá flugvelli, ásamt leitar- og björgunarflugi.'
Nefndin vísaði breytingartillögunni til afgreiðslu skipulagsnefndar.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við tillögu umhverfisnefndar á breytingum á skilmálatexta fólkvangsins.
Afgreiðslu breytingartillögunnar er vísað til bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að stefnt skuli að því að hluti Glerárdals verði skilgreindur sem fólkvangur í samræmi við lög um náttúruvernd nr. 44/1999, gr. 55.
Bæjarstjórn samþykkir einnig með 11 samhljóða atkvæðum að gerð verði tillaga til Umhverfisstofnunar um mörk og nýtingarmöguleika fólkvangsins og gerð grein fyrir þeim takmörkunum sem ákvörðun um fólkvang kann að setja Akureyrarbæ sem rétthafa landsvæðisins.