Bæjarstjórn

3493. fundur 04. maí 2021 kl. 16:00 - 16:40 Hamrar í Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar
  • Andri Teitsson
  • Hlynur Jóhannsson
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Gunnar Gíslason
  • Heimir Haraldsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Þórhallur Jónsson
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Kristín Sóley Sigursveinsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar
Dagskrá
Í upphafi fundar leitaði formaður afbrigða til að taka á dagskrá mál sem ekki var í útsendri dagskrá en það er mál 2018060500 Bæjarstjórn Akureyrarbæjar - breytingar í nefndum 2018-2022 - skipulagsráð, sem verði 1. liður á dagskrá. Var það samþykkt samhljóða.

1.Bæjarstjórn Akureyrarbæjar - breytingar í nefndum 2018-2022 - skipulagsráð

Málsnúmer 2018060500Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga D-lista um breytingu á skipan varafulltrúa í skipulagsráði:

Þórunn Sif Harðardóttir verði varafulltrúi í stað Sigurjóns Jóhannessonar.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 - síðari umræða

Málsnúmer 2020090157Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 29. apríl 2021:

Síðari umræða um ársreikning Akureyrarbæjar fyrir árið 2020.

Bæjarfulltrúarnir Eva Hrund Einarsdóttir, Heimir Haraldsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð samþykkir með fimm samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti málið.
Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 er borinn upp í heild sinni og samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Hofsbót 2 - auglýsing lóðar

Málsnúmer 2021031834Vakta málsnúmer

Liður 27 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 31. mars 2021:

Lagt fram mæliblað af lóðinni Hofsbót 2, sem er í samræmi við gildandi deiliskipulag miðbæjar og einnig tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins sem nú er í auglýsingu.

Skipulagsráð leggur til við bæjarráð að byggingarréttur á lóðinni Hofsbót 2 verði boðinn út til samræmis við ákvæði gr. 3.2 í reglum um úthlutun lóða og að sviðsstjóra skipulagssviðs verði falið að útfæra útboðsskilmála í samráði við bæjarlögmann. Einnig er lagt til við bæjarstjórn að gatnagerðargjald fyrir lóðina verði 15% sbr. ákvæði 5.2.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að gatnagerðargjald fyrir lóðina Hofsbót 2 verði 15% sbr. ákvæði 5.2 í reglum um úthlutun lóða.

4.Holtahverfi norður - deiliskipulag

Málsnúmer 2016040101Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. apríl 2021:

Lögð fram til kynningar bréf Skipulagsstofnunar dagsett 6. og 15. apríl 2021 þar sem tilkynnt er um staðfestingu á aðalskipulagsbreytingu vegna Holtahverfis (reitir ÍB17 og ÍB18) og að ekki sé gerð athugasemd við gildistöku deiliskipulags Holtahverfis norður. Þá liggur einnig fyrir að umhverfis- og mannvirkjaráð hefur samþykkt að flýta framkvæmdum við hverfið þannig að hægt verði að úthluta fyrstu lóðunum nú í sumar og að þær verði tilbúnar til framkvæmda í febrúar 2022.

Einnig er lagt fram bréf Eiríks H. Haukssonar dagsett 23. apríl 2021, f.h. Búfesti, þar sem óskað er eftir að Akureyrarbær úthluti félaginu formlega þremur lóðum í nyrsta hluta hverfisins þar sem fyrirhugað er að byggja um 120 íbúðir á næstu 4 árum, að hluta í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK).

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að Búfesti verði veitt formlegt vilyrði fyrir lóðum 2-6 og 8-10 nyrst á skipulagssvæðinu án auglýsingar í samræmi við ákvæði gr. 2.4 í reglum um lóðarveitingar og með vísan til viljayfirlýsingar Akureyrarbæjar og Búfesti frá 5. janúar 2018. Hefur Búfesti komið að vinnu við gerð deiliskipulags Holtahverfis norður frá upphafi og eru umræddar lóðir útfærðar í samráði við félagið.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs. Auk hans tók Halla Björk Reynisdóttir til máls.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að veita Búfesti formlegt vilyrði fyrir lóðum 2-6 og 8-10 nyrst á skipulagssvæði Holtahverfis norður án auglýsingar í samræmi við gr. 2.4 í reglum um lóðarveitingar og með vísan til viljayfirlýsingar Akureyrarbæjar og Búfesti frá 5. janúar 2018.

5.Hlíðahverfi suðurhluti - Höfðahlíð 2, deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2018030150Vakta málsnúmer

Liður 7 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. apríl 2021:

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Höfðahlíðar 2. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er heimilt að fjarlægja núverandi hús og í staðinn byggja tveggja hæða íbúðarhús með tveimur íbúðum. Samkvæmt tillögu að breytingu er gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja 4-5 íbúða hús á tveimur hæðum og að nýtingarhlutfall hækki úr 0.45 í 0.60.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði auglýst samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að breyting á deiliskipulagi sem nær til Höfðahlíðar 2 verði auglýst samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin felst í að í stað tveggja hæða íbúðarhúss með tveimur íbúðum verði heimilt að byggja 4-5 íbúða hús á tveimur hæðum og að nýtingarhlutfall hækki úr 0.45 í 0.60.

6.Tjaldsvæðisreitur og Skarðshlíð 20 - breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2020090736Vakta málsnúmer

Liður 8 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. apríl 2021:

Lögð fram að lokinni auglýsingu skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem nær til tjaldsvæðisreits við Þingvallastræti og lóðar nr. 20 við Skarðshlíð. Tillagan var auglýst 10. mars með athugasemdafresti til 21. apríl 2021 og barst ein athugasemd auk þess sem fyrir liggja umsagnir frá Norðurorku, Minjastofnun, öldungaráði, hverfisnefnd og Hörgársveit. Sumar umsagnirnar bárust fyrr í skipulagsferlinu.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreytingin verði samþykkt ásamt tillögu að svörum við innkominni athugasemd.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs. Auk hans tók Hilda Jana Gísladóttir til máls.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum breytingu á aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 sem nær til tjaldsvæðisreits við Þingvallastræti og lóðar nr. 20 við Skarðshlíð. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn tillögu að svörum við innkominni athugasemd.

7.Tónatröð - umsókn um breytingu á skipulagi

Málsnúmer 2021011421Vakta málsnúmer

Liður 10 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. apríl 2021:

Lögð fram að nýju umsókn SS Byggis ehf. um breytingu á deiliskipulagi við Tónatröð til samræmis við meðfylgjandi hugmyndir að uppbyggingu.

Meirihluti skipulagsráðs samþykkir að vísa til bæjarstjórnar ákvörðun um hvort heimila eigi umsækjanda að vinna að gerð breytingar á skipulagi svæðisins til samræmis við fyrirliggjandi umsókn í samráði við skipulagssvið og skipulagsráð, samanber þá fyrirvara sem komu fram í lóðarumsókn. Fæli það í sér að umsækjanda yrði veitt vilyrði fyrir lóðum á þessu svæði, með vísun í heimild sem fram kemur í gr. 2.4 í reglum um úthlutun lóða. Endanleg úthlutun færi þó ekki fram fyrr en að loknum skipulagsbreytingum, náist samkomulag um breytingu á skipulagi svæðisins að loknu skipulagsferli í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óskar bókað að gera þurfi nýtt deiliskipulag og auglýsa lausar lóðir aftur til að gæta jafnræðis.

Sindri Kristjánsson S-lista situr hjá og óskar bókað: Fyrir liggur að eftirspurn virðist vera eftir lóðum á svæðinu undir fjölbýlishús. Á sama tíma liggur fyrir að lóðir á svæðinu hafa verið lausar til úthlutunar fyrir einbýlishús í lengri tíma og lítill sem enginn áhugi virðist vera fyrir hendi á uppbyggingu svæðisins samkvæmt slíku skipulagi. Í stað þeirrar leiðar sem valin hefur verið að fara, að vinna í átt að úthlutun lóðanna sem einbýlishúsalóða með fyrirvörum um breytingar á deiliskipulagi, telur sá sem þetta bókar að réttast væri að svæðið verði deiliskipulagt á ný og fjölbýlishúsalóðir auglýstar lausar til umsóknar á opnum markaði. Er eindregið hvatt til þess að þegar bæjarstjórn tekur málið fyrir verði horft til þessarar afstöðu og sjónarmið um jafnræði og gagnsæi höfð að leiðarljósi.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.

Í umræðum tóku til máls Ingibjörg Ólöf Isaksen, Hilda Jana Gísladóttir, Andri Teitsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Þórhallur Jónsson, Halla Björk Reynisdóttir og Sóley Björk Stefánsdóttir.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að heimila eigi umsækjanda að vinna að gerð breytingar á skipulagi svæðisins til samræmis við fyrirliggjandi umsókn í samráði við skipulagssvið og skipulagsráð, samanber þá fyrirvara sem komu fram í lóðarumsókn. Felur það í sér að umsækjanda er veitt vilyrði fyrir lóðum á þessu svæði, með vísun í heimild sem fram kemur í gr. 2.4 í reglum um úthlutun lóða. Endanleg úthlutun fer þó ekki fram fyrr en að loknum skipulagsbreytingum, náist samkomulag um breytingu á skipulagi svæðisins að loknu skipulagsferli í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.

Halla Björk Reynisdóttir L-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Heimir Haraldsson S-lista, Ingibjörg Ólöf Isaksen B-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista greiða atkvæði gegn afgreiðslunni og leggja fram eftirfarandi bókun.

Í anda góðrar stjórnsýslu og jafnræðis er eðlilegt að bæjarstjórn tryggi að allir áhugasamir fái jöfn tækifæri til þess að sækjast eftir lóðum við Tónatröð á breyttum forsendum. Við leggjum til að svæðið verði skipulagt sem almennur þróunarreitur og auglýst eftir samstarfsaðila vegna vinnu við skipulag reitsins, þó með þeim skilyrðum að uppbygging falli vel að nærliggjandi byggð.

8.Austurbrú og Hafnarstræti - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2021020310Vakta málsnúmer

Liður 11 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 28. apríl 2021:

Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar syðst á reitnum. Í tillögunni er gert ráð fyrir að á svæðinu verði byggðar 60-70 íbúðir í húsum sem liggja að Austurbrú, íbúðahóteli með 16-20 hótelíbúðum og verslun- og þjónustu á neðstu hæðinni við Hafnarstræti (lóð nr. 80) auk þess sem gert er ráð fyrir viðbyggingu sunnan við Hafnarstræti 82 en ekki norðan megin við húsið eins og í gildandi skipulagi. Þá er gata sem var á milli Hafnarstrætis 80 og Austurbrúar 10-12 felld niður og í staðinn verður þar gönguleið og garðar milli húsa. Einnig eru gerðar breytingar á bílastæðum við Hafnarstræti, staðsetningu einstefnu o.fl.

Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með minniháttar lagfæringum í samræmi við umræður á fundinum.

Þórhallur Jónsson kynnti tillögu skipulagsráðs.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum að framlögð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits, vegna uppbyggingar syðst á reitnum, verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar - samþykktar breytingar

Málsnúmer 2021041299Vakta málsnúmer

Liður 8 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 29. apríl 2021:

Lagðar fram tillögur að breytingum á samþykktum LSA ásamt geinargerð.

Bæjarráð staðfestir fyrir sitt leyti framlagðar tillögur um breytingar á samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar sem lagðar verða fram til samþykktar á ársfundi sjóðsins 11. maí nk. og vísar þeim til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson kynnti tillögurnar.
Bæjarstjórn samþykkir með 11 samhljóða atkvæðum framlagðar tillögur um breytingar á samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar.

10.Eyjafjarðarbraut - færsla við Hrafnagilshverfi

Málsnúmer 2021040416Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. apríl 2021 þar sem Margrét Silja Þorkelsdóttir f.h. Vegagerðarinnar tilkynnir Akureyrarbæ um fyrirhugaða færslu Eyjafjarðarbrautar vestri um Hrafnagilshverfi. Megintilgangur framkvæmdarinnar er að tryggja greiðari samgöngur og aukið umferðaröryggi. Akureyrarbær er eigandi Botns, landnr. 252574, sem verður fyrir áhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Veittur er fjögurra vikna frestur til þess að koma að athugasemdum við tilhögun framkvæmda ef einhverjar eru.

Þórhallur Jónsson kynnti erindið.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við tilhögun fyrirhugaðrar færslu Eyjafjarðarbrautar vestri um Hrafnagilshverfi.

11.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2021010534Vakta málsnúmer

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta fundi bæjarstjórnar.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa 23. og 29. apríl 2021
Bæjarráð 29. apríl 2021
Fræðsluráð 26. apríl 2021
Kjarasamninganefnd 27. apríl 2021
Skipulagsráð 28. apríl 2021
Umhverfis- og mannvirkjaráð 16. apríl 2021
Velferðarráð 21. apríl 2021

Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir

Fundi slitið - kl. 16:40.