Skipulagsráð

378. fundur 23. mars 2022 kl. 08:15 - 11:59 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Þórhallur Jónsson formaður
  • Sindri Kristjánsson
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
  • María Markúsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson forstöðumaður skipulagsmála
Dagskrá

1.Hrafnagilsstræti 2 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi vegna byggingaráforma

Málsnúmer 2021080753Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs þann 26. janúar sl. var skipulagsfulltrúa falið að vinna að útfærslu deiliskipulagsbreytingar vegna byggingaráforma á lóð nr. 2 við Hrafnagilsstræti í samráði við umsækjanda. Nú liggur fyrir endurskoðuð tillaga að útfærslu skipulagsbreytingarinnar.

Ingólfur Freyr Guðmundsson hjá Kollgátu ehf. arkitektastofu kynnti tillöguna.

Ingólfur Freyr og sr. Jürgen Jamin prestur kaþólska safnaðarins á Akureyri sátu fundinn undir þessum dagskrárlið.
Skipulagsráð samþykkir breytingu á deiliskipulagi fyrir Hrafnagilsstræti 2 sem fengið hefur meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum í samræmi við svör umsækjanda um efni athugasemda og umræður á fundi.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

2.Móahverfi - deiliskipulag

Málsnúmer 2018010050Vakta málsnúmer

Ottó Elíasson formaður fagráðs SSNE í umhverfismálum sat fundinn undir þessum dagskrárlið og kynnti möguleika á að koma upp svartvatnskerfi í nýju íbúðarsvæði, Móahverfi.

3.Grímsey - vindmyllur - aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 2021040690Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga á vinnslustigi að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna áforma um vindmyllur í Grímsey.

Skipulagslýsing fyrir verkefnið var kynnt frá 19. maí til 9. júní 2021 og hefur tillagan verið unnin með tilliti til umsagna sem bárust.

Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi bar upp vanhæfi við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hann af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.
Skipulagsráð samþykkir fram lagða tillögu á vinnslustigi og að hún verði kynnt skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Grímsey - vindmyllur - nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2022030794Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga á vinnslustigi ásamt greinargerð fyrir deiliskipulag fyrir svæði fyrir vindmyllur og fjarskipti í Grímsey, unnin af Landslagi ehf.

Á fundi skipulagsráðs þann 23. júní 2021 var samþykkt að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi bar upp vanhæfi við afgreiðslu málsins og var það samþykkt. Vék hann af fundi undir umræðum og við afgreiðslu máls.
Skipulagsráð samþykkir fram lagða tillögu á vinnslustigi og að hún verði kynnt skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samhliða kynningu aðalskipulagsbreytingar.

5.Hvannavellir 10-14 - nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2021120847Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs þann 9. febrúar sl. var skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að gerð deiliskipulags fyrir Hvannavelli 10-14 með þeim skilmálum að bygging á lóðinni verði að hámarki fjórar hæðir með efstu hæðina inndregna og að sett verði kvöð um skjólvegg á lóðamörkum.

Er nú lögð fram endurskoðuð tillaga lóðarhafa að uppbyggingu fjölbýlishúss á lóð Hvannavalla 10-14 þar sem byggingin verður áfram fimm hæðir en til að minnka áhrif skuggavarps á hús austan lóðarinnar hefur byggingunni verið hliðrað til vesturs auk þess sem útliti hennar hefur verið breytt.

Meirihluti skipulagsráðs hafnar erindinu. Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

Er skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að gerð deiliskipulags fyrir svæðið á þeim forsendum sem koma fram í bókun ráðsins frá 9. febrúar sl.

Þórhallur Jónsson D-lista situr hjá við afgreiðslu málsins og óskar bókað eftirfarandi:

Ég tel að það sé ekki ástæða til að hafna erindinu þar sem sýnt er fram á að með tilfærslu hússins innan byggingarreits og breyttri hönnun að skuggavarp komi ekki til með að aukast með þessari hækkun og sé sambærilegt við þá tillögu sem áður var samþykkt. Mikilvægt er að við hefjum uppbyggingu Oddeyrar þar sem þetta er okkar besti staður til að þétta byggð og spara í rekstri bæjarins.

6.Hálönd, 1. áfangi - umsókn um skipulag

Málsnúmer 2022030810Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. mars 2022 þar sem Halldór Jóhannsson fyrir hönd Hálanda ehf. sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir 1. áfanga Hálanda.

Fyrirhuguð breyting felur í sér eftirfarandi:

1. Byggingarreitur A er felldur út og byggingarreitur B aðlagaður með málsetningum. Hámarksfjöldi gistieininga verði 24.

2. Byggingarreitir C og E lengjast og stækka að flatarmáli. Hámarks byggingarmagn á þeim lóðum eykst úr 1.040 m² í 1.400 m². Hámarksfjöldi gistieininga yrði 30 á hvorum reit.

3. Byggingarreitur D hliðrast lítillega, heildar byggingarmagn breytist úr 4.760 m² í 4.440 m². Lóðamörk færast vestur um 10 m til stækkunar lóðar vegna bílastæða og hæðaraðlögunar. Lóðin stækkar því úr 14.386 m² í 15.280 m². Hæðarkótar eru settir á grunnfleti og þeir númeraðir. Bílastæði eru skilgreind í samræmi við gildandi deiliskipulag. Aðkoma að lóð breytist ekki. Grenndargámum er hliðrað til að bæta aðkomu að þeim. Kvöð um 2 m hverfisgöngustíg er nyrst á lóðinni. Meðfylgjandi er uppdráttur.
Skipulagsráð samþykkir að gerð verði breyting á deiliskipulagi til samræmis við erindið. Er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki er talin þörf á grenndarkynningu sbr. 44. gr. laganna. Er skipulagsfulltrúa falið að sjá um gildistöku breytingarinnar þegar fullnægjandi skipulagsgögn liggja fyrir.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

7.Stofnana- og athafnasvæði við Súluveg - nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2021061415Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga AVH arkitekta ehf. að nýju deiliskipulagi fyrir stofnana- og athafnalóðir við Súluveg.

Kynningu deiliskipulagstillögu á vinnslustigi lauk þann 12. janúar sl. Engar athugasemdir bárust. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands og Vegagerðinni.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki fram lagða tillögu að deiliskipulagi með minniháttar lagfæringum í samráði við skipulagsfulltrúa og að tillagan verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jafnframt samþykkir meirihluti skipulagsráðs að gerðar verði breytingar á deiliskipulagi athafna-, verslunar- og þjónustusvæðis við Miðhúsabraut, Súluveg og Þingvallastræti varðandi legu göngustíga.

Þórhallur Jónsson D-lista situr hjá við afgreiðslu málsins.

8.Þingvallastræti 23 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2022030795Vakta málsnúmer

Erindi Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna (FSRE) dagsett 16. mars 2022 þar sem óskað er eftir að gerð verði breyting á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Þingvallastrætis 23, þ.e. lóðar fyrirhugaðrar heilsugæslu suður. Er óskað eftir því að ekki verði gert ráð fyrir bílakjallara og bílastæðum ofanjarðar fjölgað þess í stað. Eru lagðar fram tvær tillögur að mögulegri breytingu.
Skipulagsráð lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé vilji til að gera ráð fyrir bílakjallara undir heilsugæslunni eins og miðað hefur verið við frá því að skipulagsvinna á svæðinu hófst veturinn 2020-2021. Að mati skipulagsráðs er bílakjallari forsenda fyrir byggingu heilsugæslustöðvar á þessu svæði. Skipulagsráð hvetur hlutaðeigandi eindregið til þess að að gera ráð fyrir umræddum kostnaði við uppbyggingu heilsugæslunnar svo ekki verði tafir á framvindu verkefnisins enda ótækt að heilsugæslan búi lengur við núverandi húsnæðiskost.

Skipulagsráð hafnar því ósk um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

9.Kjarnagata 55 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2021120104Vakta málsnúmer

Auglýsingu deiliskipulagstillögu fyrir Kjarnagötu 55-57 lauk þann 14. mars sl.

Ein athugasemd barst og er hún lögð fram ásamt undirskriftalista frá íbúum í Geirþrúðarhaga 1. Jafnframt eru lögð fram viðbrögð umsækjanda við athugasemdum auk tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við efni athugasemda.

Óskar lóðarhafi eftir því að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að gert verði ráð fyrir djúpgámum vestast á lóðinni sem felur í sér minniháttar stækkun á lóð.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að hún samþykki tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Kjarnagötu 55-57 skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með breytingu er varðar stækkun á lóð vegna uppsetningar djúpgáma. Jafnframt leggur skipulagsráð til við bæjarstjórn að hún samþykki fyrirliggjandi drög skipulagsfulltrúa að svörum við athugasemdum.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista og Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista sitja hjá við afgreiðslu málsins.

10.Rauðamýri 22 - fyrirspurn til skipulagsráðs

Málsnúmer 2022010822Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs þann 26. janúar sl. var samþykkt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi Mýrarhverfis vegna stækkunar byggingarreits fyrir bílskúr á lóð nr. 22 við Rauðumýri. Miðaðist breytingin við innkeyrslu frá Mýrarvegi.

Nú er lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu deiliskipulags þar sem gert er ráð fyrir innkeyrslu frá Rauðumýri og stæði fyrir kerru / hjólhýsi norðan byggingarreits.
Skipulagsráð hafnar erindinu.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

11.Ráðhústorg 1 - fyrirspurn varðandi sorpgeymslu

Málsnúmer 2022030709Vakta málsnúmer

Erindi Guðbjargar Söndru Gunnarsdóttur f.h. Tasty ehf., Ráðhústorgi 1, dagsett 16. mars 2022 þar sem sótt er um leyfi fyrir sorptunnuskýli utandyra við skjólvegg á lóðamörkum.

Meðfylgjandi eru skýringarmyndir.
Skipulagsráð hafnar erindinu.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

12.Hof - bílastæði fyrir almenningsvagna

Málsnúmer 2022030191Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. mars 2022 þar sem Samtök ferðaþjónustunnar leggja inn fyrirspurn varðandi bílastæði fyrir almenningsvagna við Hof. Meðfylgjandi er greinargerð.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið. Er skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að málinu í samvinnu við umhverfis- og mannvirkjasvið og lóðarhafa á svæðinu.

13.Glerárgil - zip lína - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2021080749Vakta málsnúmer

Erindi Jóns Heiðars Rúnarssonar og Anitu Hafdísar Björnsdóttur f.h. Zipline Iceland þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir uppsetningu fluglínubrautar í Glerárgili innan þéttbýlismarka Akureyrar.

Umrætt svæði er á náttúruminjaskrá og fyrir liggur jákvæð umsögn Umhverfisstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd.
Skipulagsráð samþykkir erindið og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist. Er samþykkið með fyrirvara um umsögn Vinnueftirlits og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Í framkvæmdaleyfið skal setja skilmála um varúðarmerkingar vegna þverunar ökutækja á göngustíg meðfram Þingvallastræti.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

14.Hringtorg við Hvannavelli-Tryggvabraut - breytingar á lóðum

Málsnúmer 2022030796Vakta málsnúmer

Lagt fram samkomulag milli Akureyrarbæjar og lóðarhafa Tryggvabrautar 5, 10 og 14 varðandi breytingar á afmörkun lóða vegna framkvæmda við nýtt hringtorg á gatnamótum Hvannavalla og Tryggvabrautar.
Skipulagsráð samþykkir fyrirliggjandi samkomulag og þær breytingar á afmörkun og stærð lóða sem það felur í sér.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

15.Bráðabirgðabiðstöð SVA við Hofsbót - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2022030845Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn umhverfis- og mannvirkjasviðs dagsett 18. mars 2022 um framkvæmdaleyfi fyrir færslu á biðstöð SVA við Hofsbót vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóð Hofsbótar 2.
Skipulagsráð samþykkir erindið og felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.

16.Holtahverfi norður - auglýsing lóða

Málsnúmer 2021070119Vakta málsnúmer

Skipulagsfulltrúi óskar eftir heimild skipulagsráðs til að auglýsa fimm fjölbýlishúsalóðir við Miðholt lausar til umsóknar þegar mæliblöð liggja fyrir og búið er að stofna lóðirnar.
Afgreiðslu málsins er frestað og skipulagsfulltrúa falið að vinna útboðsskilmála fyrir næsta fund.

17.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 854. fundar, dagsett 2. mars 2022, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er hana að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

18.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 855. fundar, dagsett 10. mars 2022, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er hana að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

19.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2022

Málsnúmer 2022010178Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 856. fundar, dagsett 17. mars 2022, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:59.