Skipulagsráð

286. fundur 28. febrúar 2018 kl. 08:00 - 11:20 Fundarsalur á 2. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Anna Bragadóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Helgi Snæbjarnarson L-lista mætti í forföllum Evu Reykjalín Elvarsdóttur.
Formaður óskaði eftir að fá að taka af dagskrá lið 17, Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 - Melgerðisás; lið 18, Melgerðisás - deiliskipulag; lið 19, Íþróttasvæði Þórs, kastsvæði - breyting á deiliskipulagi; sem voru í útsendri dagskrá og var það samþykkt.

1.Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030

Málsnúmer 2015110092Vakta málsnúmer

Tillaga að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 var lögð fram til samþykktar. Til samþykktar voru eftirtalin gögn: Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 Greinargerð, Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 þéttbýlisuppdráttur Akureyri, Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 uppdráttur Hrísey og Grímsey, Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 sveitarfélagsuppdráttur, Oddeyri rammaskipulag og Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 umhverfisskýrsla. Fylgiskjöl, ekki til samþykktar: Friðlýst, friðuð og umsagnarskyld hús í Akureyrarkaupstað og Hús byggð í Akureyrarkaupstað 1926-1930. Gögn lögð fram til skýringar eru Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 greinargerð breytingar eftir auglýsingu merktar, Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 Skýringaruppdráttur þéttbýli Akureyri, Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 Skýringaruppdráttur Hrísey og Grímsey og Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 Skýringaruppdráttur sveitarfélag. Til hliðsjónar Athugasemdir og úrvinnsla við auglýst aðalskipulag.
Skipulagsráð samþykkir Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 og gerir eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar:

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að senda Skipulagsstofnun aðalskipulagið til staðfestingar í samræmi við 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Holtahverfi, austan Krossanesbrautar - deiliskipulag

Málsnúmer 2016040101Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing fyrir Holtahverfi norður var auglýst skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þann 6. desember 2017. Skipulagsráð vísaði innkomnum umsögnum til vinnslu deiliskipulagsins.

Á fundinn kom Arnþór Tryggvason á AVH og kynnti drög að deiliskipulagi svæðisins.
Skipulagsráð þakkar Arnþóri fyrir kynninguna.

3.Margrétarhagi 4-12 - breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2018010253Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. janúar 2018 þar sem Þröstur Sigurðsson hjá Opus ehf. fyrir hönd Karls Hjartarsonar sækir um leyfi til að leggja fram breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 8 við Margrétarhaga. Óskað er eftir að auka nýtingarhlutfall úr 0,27 í 0,28 og breikka byggarreit til vesturs úr 4,5 m í 8,7 m. Skipulagsráð heimilaði umsækjanda þann 24. janúar 2018 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi.

Tillagan er dagsett 13. febrúar 2018 og unnin af Árna Ólafssyni hjá Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssonar og félaga. Sambærileg breyting á byggingareit er gerð á húsunum við Margrétarhaga 4-12.
Skipulagsráð samþykkir að tillagan verði grenndarkynnt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Sjafnargata 9 - breyting á deiliskipulagi v. geymsluhúsnæðis

Málsnúmer 2018020356Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. febrúar 2018 þar sem Þröstur Sigurðsson hjá Opus ehf. fyrir hönd BK byggis ehf., kt. 630118-0180, sækir um leyfi til að leggja fram deiliskipulagsbreytingu fyrir lóðina Sjafnargötu 9. Breytingin felst í færslu byggingarreits, að neyðarstigi frá kjallara verði utan byggingarreits, felld verði niður krafa um gönguleið yfir lóð, heimilt verði að girða af lóðina, nýtingarhlutfall verði aukið úr 0,40 í 0,56 og heimilt verði að hafa kjallara undir húsum fyrir geymslur. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Þröst Sigurðsson.
Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og heimilar umsækjanda að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar í samræmi við hugmyndir umsækjanda sem afgreidd verði samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Rangárvellir 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2018010252Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. janúar 2018 þar sem Haraldur S. Árnason fyrir hönd SS Byggis ehf., kt. 620687-2519, óskar eftir viðbótarlóð við lóð nr. 4 við Rangárvelli til norðurs samkvæmt heimild í deiliskipulagi. Einnig er óskað eftirtaldra breytinga á deiliskipulagi:

1) Byggingarreitur stækki og verði 45x55 m.

2) Nýtingarhlutfall verði 0,300.

3) Mesta hæð bygginga (sílóa) verði allt að 12,0 m frá gólfi efri hæðar. Meðfylgjandi er mynd.

Umsagnir:

1) Norðurorka, dagsett 8. febrúar 2018.

Tveir kostir eru í stöðunni ef færa á strengjasett sem liggja yfir svæðið:

a. Takmarka lóðarstækkun SS Byggis til norðurs þannig að milli lóða 4 og 6 verði um 10 metra ræma sem þjónustuleið fyrir bæði strengjasettin. Hér mætti líka taka af lóð nr. 6 til suðurs til að skapa nægjanlegt pláss.

b. Leggja nýja leið norður Rangárvelli og til austurs við enda götunnar. Um ræðir lengri leið og stærri framkvæmd. Eðlilega er sú krafa gerð að lóðarhafar kosti framkvæmdina á móti Norðurorku sem í þessu tilfelli bæri hluta kostnaðar samkvæmt ákveðnu skiptimódeli sem ræðst af lífaldri strengjanna. Nú er okkur ekki ljóst hver fer með forræði á lóð nr. 6 og við hvern er að semja. Norðurorka hefur ekki gert kostnaðaráætlun um færslu strengjanna en er tilbúin í það, háð þeirri lausn sem aðilar telja heppilegasta.

2) Isavia, dagsett 12. febrúar 2018.

Á svæðinu gilda skipulagsreglur fyrir Akureyrarflugvöll. Umrædd lóð stendur upp úr hindranafleti en þar gildir að heimilt er að gera ráð fyrir og reisa byggingar allt að 18 metra upp fyrir óhreyft land. Ekki er lagst gegn breytingunni séu hæðir innan þessara marka. Í tilfelli sem þessu er gert ráð fyrir að bygging kunni að vera hindranalýst og óskað er eftir að þörf á því verði skoðuð í samráði við byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar.

b. Um uppsetningu krana eða annarra tímabundinna hindrana gilda sömu reglur og um varanlegar hindranir. Ekki má víkja frá hæðartakmörkunum nema með samþykki Samgöngustofu.

3) Samgöngustofa, dagsett 15. febrúar 2018.

Rangárvellir 4 stendur uppúr hindrunarfleti Akureyrarflugvallar og þarf því að takmarka hæð bygginga og meta mögulega þörf á merkingum og hindranalýsingu bygginga á svæðinu. Einnig þarf samráð um mögulegar merkingar og hindranalýsingu á tímabundnum hindrunum s.s. byggingakrönum. Að ofangreindum skilyrðum uppfylltum setur Samgöngustofa sig ekki á móti væntanlegri stækkun lóðarinnar Rangárvellir 4 og fyrirhugaðri byggingu á þeirri lóð.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við umsækjanda og umsagnaraðila.

6.Grímsey - deiliskipulag hafnarsvæðis og þéttbýlis

Málsnúmer 2018010355Vakta málsnúmer

Skipulagsráð samþykkti á fundi 25. október 2017 að hefja vinnu við deiliskipulag hafnarsvæðisins í Grímsey. Lögð eru fram drög að skipulagslýsingu til kynningar dagsett 14. febrúar 2018 og unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi. Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 14. febrúar 2018.
Skipulagsráð samþykkir að deiliskipulagið skuli ná til allrar eyjarinnar og felur skipulagshöfundum að breyta skipulagslýsingunni í samræmi við það.

7.Geirþrúðarhagi 4 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2018010262Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 7. febrúar 2018 þar sem Haraldur Árnason fyrir hönd Fjölnis ehf., kt. 530289-2069, sækir um breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 4 við Geirþrúðarhaga. Óskað er eftir að nýtingarhlutfall verði hækkað úr 0,420 í 0,560 og fjölgun íbúða úr 8 í 16. Einnig er óskað eftir framlengingu á framkvæmdafresti til 1. júní 2018.

Skipulagsráð frestaði erindinu á fundi 14. febrúar 2018 og óskaði eftir upplýsingum frá skipulagssviði um stærðardreifingu íbúða í Hagahverfi sem búið er að samþykkja í hverfinu.
Skipulagsráð synjar erindinu þar sem fjölgun íbúða og hækkun nýtingarhlutfalls er of mikil og stærðarhlutfall fjölbýlisíbúða í hverfinu samræmist ekki stefnu deiliskipulagsins.

Skipulagsráð samþykkir umbeðinn framkvæmdafrest og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við umsækjanda.

Sigurjón Jóhannesson D-lista sat hjá við afgreiðsluna.

8.Ásvegur 33 - umsókn um lóðarstækkun

Málsnúmer 2017100181Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. október 2017 þar sem Jón Valgeir Halldórsson og Hulda Sif Hermannsdóttir sækja um stækkun á lóð sinni til austurs norðan Ásvegar fyrir bílastæði við hús sitt Ásveg 33.

Erindið var grenndarkynnt frá 25. janúar til 24. febrúar 2018.

Ein athugasemd barst.

1) Hjalti Jónsson, dagsett 22. febrúar 2018.

Gerð er athugasemd við að stór hluti klapparinnar verði eyrnamerktur einu húsi í götunni. Umrætt svæði hefur hingað til verið nýtt sem útivistarsvæði barna og fullorðinna í hverfinu, útsýnisstaður fyrir heimamenn sem og ferðamenn og síðast en ekki síst sem losunarsvæði fyrir snjó sem rutt er úr götunni.
Svar við athugasemd:

Um er að ræða lóðarstækkun um 7 m til austurs og 7 m til norðurs frá núverandi gangstétt. Þrátt fyrir þá lóðarstækkun sem farið er fram á verða eftir rúmir 12 m að lóð austan götunnar. Skipulagsráð telur að sú opnun úr enda götunnar sé nægjanleg til að koma við snjósöfnunarsvæði að vetri og hindri ekki heldur aðgengi almennings að klöppunum norðan Ásvegar.

Skipulagsráð samþykkir því umbeðna lóðarstækkun og bílastæði og felur lóðarskrárritara að gera yfirlýsingu um breytta lóðarstærð. Skipulagsráð gerir kröfu um að gengið vel verði frá bílastæðinu og aðlögun að klapparsvæðinu.

9.Munkaþverárstræti 36 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2017100251Vakta málsnúmer

Erindi móttekið 17. október 2017 þar sem Sigurður Hallgrímsson fyrir hönd SSG ehf., kt. 681005-0210, sækir um breytingu á deiliskipulagi fyrir breytingum á skilmálum fyrir lóðina Munkaþverárstræti 36. Skipulagsráð heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi 25. október 2017.

Tillagan er dagsett 22. febrúar 2018 og unnin af Sigurði Hallgrímssyni hjá Arkþingi.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna breytinguna samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

10.Hesjuvellir landnr. 212076 - deiliskipulag

Málsnúmer 2015080002Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 21. júlí 2015 f.h. Rósu Maríu Stefánsdóttur þar sem lögð er fram tillaga að deiliskipulagi fyrir Hesjuvelli, landnr. 212076.

Tillaga að deiliskipulagi Hesjuvalla var auglýst frá 10. janúar til 21. febrúar 2018. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu bæjarins.

Á deildarfundi umhverfis- og mannvikjasviðs og skipulagssviðs þann 6. febrúar 2018 kom fram að tryggja þarf framtíðarsvæði fyrir vegstæði Lögmannshlíðarvegar, talið að 15 m út frá miðlínu geti þjónað framtíðaruppbyggingu vegarins og reiðleiðar.

Tvær umsagnir bárust:

1) Minjastofnun Íslands, dagsett 21. febrúar 2018.

Engar skráðar minjar eru á skipulagssvæðinu og gerir Minjastofnun Íslands ekki athugasemd við deiliskipulagstillöguna.

Vakin er athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar.

2) Landsnet 19. febrúar 2018.

Af öryggisástæðum skal skilgreina lágmarksfjarlægðir háspennulína til annarra mannvirkja. Helgunarsvæði eru ekki af staðlaðri stærð, heldur ákvörðuð í hverju tilviki. Lágmarks viðmið helgunarsvæða fyrir 66kV loftlínu er 25 m og fyrir 132 kV loftlínu er 35-45 m. Innan helgunarsvæðis gildir byggingabann og þar er ekki hægt að viðhafa skógrækt. Ef upp koma áform um að reisa mannvirki og/eða breyta landnotkun nærri helgunarsvæði er mikilvægt að haft verði samband við Landsnet til að yfirfara lágmarksfjarlægðir. Tryggja þarf að helgunarsvæði séu virt og að tryggja aðgang vegna eftirlits.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og sviðsstjóra skipulagssviðs falið að ræða við umsækjanda.

11.Aðveita frá Hjalteyri - umsókn um framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2018010368Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. febrúar 2018 þar sem Anton Benjamínsson fyrir hönd Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu 1. áfanga nýrrar hitaveitulagnar frá Hjalteyri. 1. áfangi er frá suðurbakka Glerár til norðurs. Meðfylgjandi eru myndir.
Skipulagsráð frestar erindinu þar til Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 hefur hlotið staðfestingu.

12.Saltnes í Hrísey - umsókn um afnot af svæði fyrir vélhjólasport

Málsnúmer 2013090248Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 23. september 2013 þar sem Hermann Erlingsson fyrir hönd Stimpils félags áhugamanna um akstursíþróttir, kt. 541217-1850, sækir um leyfi til að stunda vélhjólasport í malarnámu við Saltnes í Hrísey. Skipulagsráð óskaði eftir umsögn hverfisráðs Hríseyjar.

Umsögn hverfisráðs Hríseyjar fundaði 11. febrúar 2018.

Hverfisráð bendir á að hvorki bein sjón- né hljóðmengun stafi af vélhjólasportsiðkun á svæðinu, þar sem svæðið er ekki nálægt byggð. Viðstaddir aðilar hverfisráðsins eru sammála um að það eigi að gefa leyfi til áframhaldandi afnots af svæðinu.

Lagt fram álit Þorgeirs Jónssonar formanns Hverfisráðs Hríseyjar sem ekki var viðstaddur afgreiðslu málsins.
Skipulagsráð heimilar umbeðna notkun í námunni, sem merkt er E4 í tillögu að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030, með vísan til umsagnar hverfisráðs Hríseyjar, en taka skal fullt tillit til starfsemi námunnar.

13.Glerárdalur - fyrirspurn um gáthlið vegna snjóflóðaýla

Málsnúmer 2018020273Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. febrúar 2018 þar sem Ari Fossdal fyrir hönd Landssambands íslenskra vélsleðamanna/Félags vélsleðamanna í Eyjafirði, kt. 501286-1769, þar sem hann leggur inn fyrirspurn um leyfi fyrir uppsetningu gáthliðs í Glerárdal sem kannar hvort snjóflóðaýlir viðkomandi er í lagi eða ekki. Meðfylgjandi er mynd og kort af staðsetningu.
Skipulagsráð tekur jákvætt í fyrirspurnina og heimilar uppsetningu skiltis í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið.

14.Byggðavegur 127 - fyrirspurn um lóð

Málsnúmer 2018020156Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. febrúar 2018 þar sem Valþór Brynjarsson hjá Kollgátu ehf. fyrir hönd Ingólfs F. Guðmundssonar og Herdísar M. Ívarsdóttur leggur inn fyrirspurn varðandi lóð milli húsa nr. 125 og 137 við Byggðaveg. Tillagan er að sú lóð verði einbýlishúsalóð og verði nr. 127 og úthlutuð umsækjendum í kjölfar samþykkis. Meðfylgjandi er mynd.
Skipulagsráð synjar erindinu þar sem svæðið er ódeiliskipulagt.

Það er stefna skipulagsráðs að deiliskipuleggja öll svæði bæjarins og vísar hugmyndinni um stofnun lóðar til þeirrar vinnu þegar komið er að deiliskipulagi þessa svæðis.

15.Furuvellir - fyrirspurn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu

Málsnúmer 2018020418Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 21. febrúar 2018 þar sem Björn Anton Jónsson fyrir hönd Coca-cola Eur.Partn. Ísland ehf., kt. 470169-1419, leggur inn fyrirspurn hvort leyfi fáist til að byggja við hús nr. 18 við Furuvelli. Viðbyggingin er fyrirhuguð vegna nýrra þvottakerfa fyrir áfyllivélar. Meðfylgjandi er skýringarmynd.
Skipulagsráð telur að umrædd breyting sé óveruleg og muni ekki skerða hagsmuni nágranna, t.d. hvað varðar útsýni, skuggavarp eða innsýn, ekki breyta eða hafa teljandi áhrif á götumynd. Því sé ekki þörf á að grenndarkynna fyrirhugaða breytingu þar sem hún snertir ekki hagsmuni annarra en umsækjanda og Akureyrarkaupstaðar.

Skipulagsráð tekur jákvætt í erindið og felur byggingarfulltrúa að afgreiða byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

16.Kaupvangsstræti 16 - starfsemi breytt í gistiskála

Málsnúmer 2018010390Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 26. janúar 2018 þar sem Haraldur S. Árnason fyrir hönd Fasteigna ehf., kt. 581088-1409, sækir um leyfi fyrir breyttri notkun á 2. hæð húss nr. 16 við Kaupvangsstræti. Áætlað er að setja þar upp gistiskála. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Harald Árnason og samþykki meðeigenda á lóðinni.
Skipulagsráð samþykkir með þremur atkvæðum gegn tveimur að fallast á umbeðna breytingu á notkun og heimilar byggingarfulltrúa að afgreiða umsókn um byggingarleyfi.


Jón Þorvaldur Heiðarsson Æ-lista, Edward Hákon Huijbens V-lista og Ólína Freysteinsdóttir S-lista óska bókað:

Í Aðalskipulagi Akureyrar er stefna um að í Grófargili eigi að vera uppbygging menningar og listar.

Með vísun í Aðalskipulag Akureyrar teljum við því ekki skynsamlegt að fallast á umbeðna breytingu á notkun hússins í gistihús.

17.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2018

Málsnúmer 2018010013Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 15. febrúar 2018. Lögð var fram fundargerð 666. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:20.