4. liður í fundargerð skipulagsnefndar dags. 14. maí 2014:
Tillaga að deiliskipulagi Naustahverfis 3. áfanga ásamt tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 28 og Naustabraut var auglýst frá 5. mars með athugasemdafresti til 13. apríl 2014. Breyting á aðalskipulagi Akureyrar var auglýst samhliða, sjá málsnr. 2014010276.
Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaðinu, Dagskránni og Fréttablaðinu. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar, vefsíðu skipulagsdeildar Akureyrar og hjá Skipulagsstofnun.
Tvær umsagnir og tvær athugasemdir bárust sem eru í fylgiskjali merktu "Hagar deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 30.4.2014".
Einnig barst fundargerð nafnanefndar dags. 17. mars 2014 þar sem lagðar eru til breytingar frá fyrri tillögu að götunöfnum.
Bæjarstjórn vísaði málinu þann 6. maí 2014 á ný til skipulagsnefndar þar sem umsögn Umhverfisstofnunar dags. 2. maí 2014, barst eftir að umsagnartíma lauk þann 16. apríl 2014 og eftir afgreiðslu skipulagsnefndar 30. apríl 2014.
1) Umhverfisstofnun dags. 2. maí 2014:
Stofnunin tekur undir að gera þurfi mótvægisaðgerðir vegna hávaða s.s. hljóðmanir meðfram Naustabraut og Wilhelmínugötu svo viðmiðunarmörk náist við húsvegg. Einnig er mikilvægt að viðmiðunarmörk hljóðvistar náist innandyra með öðrum tæknilausnum til mótvægis við umferðarhávaða. Bent er á að hægt væri í upphafi að gera ráð fyrir nægilegri fjarlægð frá byggð að umferðargötum svo ekki þurfi að fara í ofangreindar mótvægisaðgerðir.
Stefán Friðrik Stefánsson áheyrnarfulltrúi D-lista lagði fram tillögu um að deiliskipulagstillögunni verði breytt á þann veg, að gerð verði umferðartenging frá Naustabraut inn í Nonnahaga milli lóða nr. 5 og 7 og þar með hugsanlega fella niður lóðir til að ná tengingunni, vegna reynslu frá 1. áfanga Naustahverfis.
Svör við umsögnum og athugasemdum eru í skjali merktu "Hagar deiliskipulag, athugasemdir og svör dags. 30.4.2014". Tekið er tillit til athugasemdar nr. 1 og viðeigandi lagfæringar gerðar á skipulagsgögnum. Einnig er tekið tillit til breytingartillagna nafnanefndar um götunöfn og viðeigandi lagfæringar gerðar á skipulagsgögnum.
Svar við umsögn Umhverfisstofnunar dags. 2. maí 2014:
1) Mótvægisaðgerðir eru skilgreindar í hljóðskýrslu til að uppfylla viðmiðunarmörk hljóðvistar á svæðinu með það að leiðarljósi að nýta landið eins og best verður á kosið, ekki síst vegna umhverfissjónarmiða. Til þess að það verði hægt er þörf á hljóðmönum meðfram tengibrautinni. Að öðru leyti gefur umsögnin ekki tilefni til svars.
Svar við tillögu Stefáns Friðriks Stefánssonar:
Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir aðkomu að Hagahverfi á fjórum stöðum, þar af tveimur frá tengibrautinni Naustabraut. Rammaskipulag Naustahverfis var haft til hliðsjónar við vinnslu deiliskipulags Hagahverfis en þar er einungis gert ráð fyrir einni tengingu við Hagahverfi frá Naustabraut. Skipulagstillagan gerir hinsvegar ráð fyrir tengingu við Wilhelmínugötu og við Davíðshaga en fjarlægðin þarna á milli er uþb. 350m. Með því að opna á tengingu á milli Naustabrautar og Nonnahaga mun einbýlishúsalóðum fækka og gæði lóðanna m.a. við Nonnahaga rýrna vegna aukinnar bílaumferðar, auk þess sem nýting safngötunnar Wilhelmínugötu mun minnka. Skipulagsnefnd getur því ekki fallist á tillöguna.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan þannig breytt ásamt breytingartillögu um reit 28 og Naustabraut verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku þeirra.
Skipulagsnefnd þakkar Árna Ólafssyni fyrir kynninguna.