Hopp - fyrirspurn til skipulagssviðs

Málsnúmer 2020090583

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 345. fundur - 14.10.2020

Erindi dagsett 20. september 2020 þar sem Axel Albert Jensen leggur inn fyrirspurn varðandi opnun Hopp rafskútuleigu á Akureyri. Þá er jafnframt lögð fram tillaga að þjónustusamningi um stöðvalausa hjólaleigu sem byggir á sams konar samningi og Reykjavíkurborg hefur gert við Hopp.
Skipulagsráð samþykkir fyrir sitt leyti að gerður verði þjónustusamningur um stöðvalausa hjólaleigu við umsækjanda í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Skipulagsráð samþykkir ekki að umsækjandi fái sérleyfi á starfsemi rafskúta í sveitarfélaginu eða þá að fjöldi mögulegra leyfa verði takmarkaður.

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 87. fundur - 16.10.2020

Pétur Ingi Haraldsson sviðstjóri skipulagssviðs kynnti fyrir ráðinu samningsdrög að stöðvalausri hjólaleigu á Akureyri.
Umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkir fyrir sitt leyti að gerður verði þjónustusamningur um stöðvalausa hjólaleigu við umsækjanda í samræmi við fyrirliggjandi samningsdrög.

Skipulagsráð - 369. fundur - 10.11.2021

Lögð fram til kynningar gögn varðandi nýtingu Hopp hjóla á Akureyri fyrir árið 2021. Samkvæmt þeim voru farnar rúmlega 103 þúsund ferðir þá 6 mánuði sem starfsemin var í gangi á árinu og eknir voru rúmlega 169 þúsund kílómetrar. Voru hjólin 65 talsins en á næsta ári er gert ráð fyrir að þeim verði fjölgað í um 145 stk.
Skipulagsráð fagnar hversu vel hefur til tekist með Hopp hjól á Akureyri í sumar en hvetur um leið rekstraraðila til að stuðla að aukinni fræðslu fyrir notendur hjólanna.

Skipulagsráð - 390. fundur - 26.10.2022

Lagt fram erindi Axels Alberts Jensen dagsett 7. október 2022 þar sem óskað er eftir endurnýjun á samningi um stöðvalausa hjólaleigu á Akureyri en núgildandi samningur rennur út 9. mars 2023.
Skipulagsráð samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að vinna að nýjum samningi við Hopp í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið sem síðan verður lagður fram til samþykktar í skipulagsráði og umhverfis- og mannvirkjaráði. Miða skal við að samningur verði til tveggja ára eins og fyrri samningur. Ekki er samþykkt að umsækjandi fái sérleyfi á starfseminni eða þá að fjöldi mögulegra leyfa verði takmarkaður.

Skipulagsráð - 396. fundur - 15.02.2023

Lögð fram drög að endurskoðuðum samningi við Hopp um starfsemi stöðvalausrar rafskútuleigu á Akureyri.
Skipulagsráð samþykkir fyrir sitt leyti að þjónustusamningur við umsækjanda um stöðvalausa rafskútuleigu í samræmi við fyrirliggjandi gögn verði endurnýjaður til tveggja ára.

Umhverfis- og mannvirkjaráð - 134. fundur - 07.03.2023

Lagður fram til upplýsingar, samningur við hlaupahjólaleiguna Hopp Akureyri.

Skipulagsráð - 441. fundur - 12.03.2025

Lagt fram erindi Ársæls Gunnlaugssonar rekstraraðila Hopp Akureyri ehf. dagsett 17. febrúar 2025 þar sem sótt er um áframhaldandi samning fyrir Hopp. Er jafnframt óskað eftir að nýr samningur gildi í 5 ár í stað 2ja ára eins og nú er og að Hopp verði veitt einkaleyfi til reksturs hjólaleigu á samningstímanum til að koma í veg fyrir að of mörg hjól verði á svæðinu með tilheyrandi óþægindum.
Skipulagsráð samþykkir 5 ára þjónustusamning við umsækjanda en samþykkir þó ekki einkaleyfi til reksturs hjólaleigu á samningstímanum.