Tillaga að deiliskipulagi Norður-Brekku, neðri hluta, var auglýst frá 11. febrúar með athugasemdafresti til 25. mars 2015. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaðinu og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagsdeildar.
Fimm athugasemdir bárust:
1) Hverfisnefnd Brekku- og Innbæjar, dagsett 23. mars 2015.
Mat hverfisnefndarinnar er að gönguleið gegnum syðra útivistarsvæðið sé forsenda fyrir færslu leiksvæðisins sem nú er við Helgamagrastræti. Á meðan ekki er gönguleið í gegnum útivistarsvæðið er leiksvæðinu betur komið við Helgamagrastræti.
2) Undirskriftalisti með 45 undirskriftum, dagsettur 10. mars 2015.
Mótmælt er fyrirhugaðri byggingu á lóð Þórunnarstrætis 126. Samkvæmt kynningu sem fram fór fyrir byggingu leikskólans var talað um að svæðið ætti að verða viðbót við bílastæði leikskólans.
3) Tómas Björn Hauksson og Elín Auður Ólafsdóttir, dagsett 25. mars 2015.
a) Grenndarkynntir aðaluppdrættir vegna viðbyggingar í Þingvallastræti 10 sýndu fjarlægð frá lóðamörkum Lögbergsgötu 9 að byggingarreit upp á 5,1m. Í skipulagstillöguninni er fjarlægðin 4,27m og gerð er athugasemd við þá breytingu.
b) Gerð er athugasemd við að ekki sé gerð tillaga að mögulegum viðbyggingum á svæðinu. Óskað hefur verið eftir að tekið verði tillit til nýtingarhlutfalls á lóð Lögbergsgötu 9 með svipuðum hætti og samþykkt var í Þingvallastræti 10.
c) Ábendingar varðandi húsakönnun.
4) Tómas Björn Hauksson, dagsett 24. mars 2015.
Fyrirspurn um hvort búið sé að meta kostnað við að gera lóð við Helgamagrastræti 8 byggingarhæfa og útbúa nýtt leiksvæði á klöppinni.
5) Alda Þórðardóttir, dagsett 26. mars 2015.
Erindi úr viðtalstíma bæjarfulltrúa þar sem vakin er athygli á að þegar Hólmasól var byggð, var sagt að á lóðinni Þórunnarstræti 126 yrðu bílastæði vegna leikskólans. Einnig er bent á að Davíðshús er í næsta nágrenni og þangað sæki ferðamenn.
Í framhaldi af kynningarfundi 5. nóvember 2014 bárust tvær athugasemdir:
1) Helgi Jóhannesson, dagsett 17. desember 2014.
Mótmælt er áformum um að gera gangstétt í Munkaþverárstræti frá Bjarkarstíg að Helgamagrastræti, breyta bílastæðum og færa akrein bíla í vesturhluta götunnar. Nánari röksemdafærslur og myndir fylgja athugasemdinni.
2) Brynhildur Þórarinsdóttir og Þóroddur Bjarnason, dagsett 9. janúar 2015.
Ítrekaðar eru óskir íbúa um gangstétt við norðanverðan Hamarstíg og vísað er í undirskriftalista frá 2013.
Þrjár umsagnir bárust:
1) Vegagerðin, dagsett 3. mars 2015.
Engar athugasemdir eru gerðar.
2) Minjastofnun Íslands, dagsett 10. apríl 2015.
Engar athugasemdir eru gerðar. Óskað er eftir samvinnu þegar farið verður í að bæta aðgengi og setja upplýsingaskilti við minjar á Mylluklöpp.
3) Norðurorka, dagsett 13. apríl 2015.
Talið er að lagnakerfi sé nægjanlega öflugt til að fæða fyrirhugaðar nýbyggingar. Bent er á að kostnaður af færslu lagna fellur á þann sem breytinganna óskar.
Skipulagsnefnd þakkar Ómari Ívarssyni fyrir kynninguna.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um hana.