Bæjarstjórn

3367. fundur 03. febrúar 2015 kl. 16:00 - 18:12 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Sigríður Huld Jónsdóttir 1. varaforseti
  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Sóley Björk Stefánsdóttir
  • Bjarki Ármann Oddsson
  • Dagur Fannar Dagsson
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Silja Dögg Baldursdóttir
  • Eva Hrund Einarsdóttir
  • Gunnar Gíslason
  • Margrét Kristín Helgadóttir
  • Njáll Trausti Friðbertsson
Starfsmenn
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhúss ritaði fundargerð
Dagskrá
Bjarki Ármann Oddsson S-lista mætti í forföllum Loga Más Einarssonar.
Dagur Fannar Dagsson L-lista mætti í forföllum Matthíasar Rögnvaldssonar.

1.Norður-Brekka, neðri hluti - deiliskipulag

Málsnúmer 2014030299Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 28. janúar 2015: Skipulagslýsing fyrir deiliskipulag "Norður-Brekku, neðri hluta", var auglýst í Dagskránni 24. apríl 2014. Gögnin voru aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar og í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar.
Óskað var eftir umsögnum um lýsinguna frá fimm hagsmunaaðilum og bárust þrjár umsagnir:
1) Vegagerðin, dagsett 8. maí 2014. Engar athugasemdir voru gerðar.
2) Skipulagsstofnun, dagsett 13. maí 2014. Engar athugasemdir voru gerðar.
3) Minjastofnun Íslands, dagsett 30. júní 2014. Engar athugasemdir voru gerðar en bent á að gera skuli húsa- og mannvirkjakönnun.

Haldinn var íbúafundur í Ráðhúsi Akureyrar 5. nóvember 2014 þar sem deiliskipulagstillagan var kynnt. Í framhaldi af honum bárust tvær athugasemdir frá Helga Jóhannessyni og Þóroddi Bjarnasyni/Brynhildi Þórarinsdóttur. Einnig var haldinn fundur með hverfisnefnd Brekku og Innbæjar 3. desember 2014 og farið yfir þær breytingar sem gerðar voru á tillögunni eftir íbúafundinn.

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagi "Norður-Brekku, neðri hluta". Tillagan er unnin af Ómari og Ingvari Ívarssonum hjá Landslagi ehf., dagsett 14. janúar 2015. Einnig fylgir húsakönnun sem unnin er af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum.
Svör við umsögnum við skipulagslýsingu:
1) Gefur ekki tilefni til ályktunar.
2) Gefur ekki tilefni til ályktunar.
3) Húsakönnun er gerð samhliða deiliskipulagi.
Athugasemdir sem bárust eftir íbúafund verða skráðar sem athugasemdir við skipulagstillöguna með öðrum athugasemdum sem berast eftir auglýsingu hennar og verður svarað að athugasemdafresti liðnum.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan ásamt húsakönnun verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

2.Naustahverfi, reitur 28 - Krókeyrarnöf 1-15 - deiliskipulagsbreyting vegna stækkana lóða

Málsnúmer 2014080086Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 28. janúar 2015:
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Naustahverfis, reits 28, og Naustagötu í samræmi við bókun nefndarinnar 27. ágúst 2014. Um er að ræða stækkanir á lóðum númer 1, 3, 5, 7, 9, 11, 13 og 15 við Krókeyrarnöf. Tillagan er unnin af Ingólfi Guðmundssyni frá Kollgátu, dagsett 29. október 2014.
Haft var samráð við Norðurorku sem ekki gerir athugasemd við lóðastækkanirnar að öðru leyti en því að settar verði kvaðir innan lóðanna vegna lagna og að aðkoma að þeim verði tryggð.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

3.Krossaneshagi A-áfangi - breyting á deiliskipulagi við Njarðarnes og Baldursnes

Málsnúmer 2014090083Vakta málsnúmer

2. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 10. desember 2014:
Deiliskipulagstillagan var grenndarkynnt frá 6. nóvember til 4. desember 2014.\nEin athugasemd barst 3. desember 2014 frá Nesborgum ehf., Njarðarnesi 9. Farið er fram á að kostnaður vegna jarðvegsskipta á hluta göngustígs verði greiddur og að lóðin verði lagfærð þar sem lagt er til að kvöð um göngustíginn verði felld úr gildi.
Skipulagsnefnd felur formanni skipulagsnefndar og skipulagsstjóra að semja um kostnaðarþátttöku vegna framkvæmda við göngustíginn.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar með 11 samhljóða atkvæðum.

4.Kynjuð fjárhagsáætlanagerð

Málsnúmer 2011030090Vakta málsnúmer

Margrét Kristín Helgadóttir Æ-lista óskaði eftir umræðu um kynjaða fjárhagsáætlunargerð.
Margrét Kristín Helgadóttir Æ-lista lagði fram tillögu að bókun svohljóðandi:
Kynjuð fjárhagsáætlunargerð er metnaðarfullt verkefni sem kallar á breytingu í hugsun og verki með það að leiðarljósi að skapa sem mesta jafnræði á meðal bæjarbúa. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að við endurskoðun á Jafnréttisstefnu Akureyrarbæjar nú í vor verði lögð aukin áhersla á innleiðingu kynjasamþættingar og kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar í samræmi við þá vinnu sem þegar er hafin ásamt því að gerð verði nákvæm aðgerðaráætlun yfir það hvernig verkefnið skal unnið sem skuli kynnt fyrir bæjarráði. Aðgerðaráætlun verði tilbúin fyrir haustið 2015. Stefnt skal að því að innleiðing verði vel á veg komin við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017.

Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.

5.Græni trefilinn

Málsnúmer 2015010263Vakta málsnúmer

Njáll Trausti Friðbertsson D-lista óskaði eftir umræðu um græna trefilinn.
Almennar umræður fóru fram um málið.

6.Skýrsla bæjarstjóra

Málsnúmer 2010090095Vakta málsnúmer

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri fór yfir helstu atriði í störfum sínum frá síðasta bæjarstjórnarfundi.
Eftirtaldar fundargerðir eru lagðar fram til kynningar:

Afgreiðslufundur skipulagsstjóra 15. og 22. janúar 2015
Bæjarráð 22. og 29. janúar 2015
Félagsmálaráð 21. janúar 2015
Framkvæmdaráð 16. janúar 2015
Íþróttaráð 15. janúar 2015
Kjarasamninganefnd 26. janúar 2015
Samfélags- og mannréttindaráð 15. janúar 2015
Skipulagsnefnd 28. janúar 2015
Skólanefnd 19. janúar 2015
Stjórn Akureyrarstofu 15. janúar 2015
Umhverfisnefnd 20. janúar 2015


Hægt er að nálgast fundargerðirnar á heimasíðu Akureyrarbæjar / www.akureyri.is /
Stjórnkerfið / Fundargerðir

Fundi slitið - kl. 18:12.