Skipulagsráð

313. fundur 10. apríl 2019 kl. 08:00 - 11:25 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson varaformaður
  • Grétar Ásgeirsson
  • Orri Kristjánsson
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson byggingarfulltrúi
Dagskrá
Grétar Ásgeirsson B-lista mætti í forföllum Tryggva Más Ingvarssonar og Orri Kristjánsson S-lista mætti í forföllum Ólínu Freysteinsdóttur.
Helgi Snæbjarnarson varaformaður ráðsins bar upp ósk um að bæta við útsenda dagskrá máli 14, Aðalskipulagsbreyting - Krossaneshagi, og máli 15, Dalsbraut KA - umsókn um stúku, og var það samþykkt.

1.Tryggvabraut - deiliskipulag

Málsnúmer 2018040295Vakta málsnúmer

Unnið hefur verið að gerð deiliskipulags fyrir svæði sem nær til Tryggvabrautar milli Hjalteyrargötu og Glerárgötu og athafnasvæðis norðan hennar að Glerá. Er deiliskipulagið unnið í samvinnu Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar. Skipulagsráðgjafi er Efla verkfræðistofa.

Bergþóra Kristinsdóttir hjá Eflu fór yfir og kynnti kosti sem verið er að skoða varðandi útfærslu Tryggvabrautar og gatnamóta við annars vegar Glerárgötu/Hörgárbraut og hins vegar gatnamót við Hjalteyrargötu.

Einnig mættu á fundinn Margrét Silja Þorkelsdóttir og Rúna Ásmundsdóttir frá Vegagerðinni, Jóhanna Helgadóttir frá Eflu og Jónas Valdimarsson frá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar og tóku þau þátt í umræðum um málið.
Skipulagsráð þakkar fyrir kynninguna.

2.Nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri

Málsnúmer 2018100200Vakta málsnúmer

Í lok árs 2018 fór af stað vinna við að skoða möguleika á staðsetningu nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri og var Teiknistofa Arkitekta fengin til að vinna greiningu á mögulegu staðarvali. Lauk þeirri vinnu með meðfylgjandi skýrslu dagsettri 2. apríl 2019.

Lilja Filipusdóttir og Árni Ólafsson hjá Teiknistofu Arkitekta kynntu helstu niðurstöður verkefnisins.
Skipulagsráð þakkar fyrir kynninguna.

3.Lundarsel - breyting á deiliskipulagi KA svæðis, Lundarskóla og Lundarsels

Málsnúmer 2019030272Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs þann 27. mars sl. var samþykkt að heimila gerð deiliskipulagsbreytingar í samræmi við innkomið erindi þar sem byggingarreitur fyrir færanlegar kennslustofur norðan við Lundarsel er stækkaður. Er hér lögð fram tillaga að breytingu sem felur í sér að núverandi byggingarreitur er stækkaður til norðurs og að hámarksbyggingarmagn hækki úr 150 m² í 400 m² og að hámarkshæð verði 4,5 m í stað 4 m.
Að mati skipulagsráðs er um óverulega breytingu að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og er ekki talin þörf á að grenndarkynna hana sbr. heimild í 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga þar sem ekki er um aðra hagsmunaaðila að ræða en Akureyrarbæ. Breytingin er samþykkt.

Helgi Sveinbjörn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi M-lista óskar bókað að hann telji að grenndarkynna eigi erindið.

4.Gránufélagsgata 4 - ósk um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2019010084Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs 13. mars 2019 var samþykkt að heimila umsækjanda, Sigurði Hafsteinssyni fyrir hönd RS fasteigna ehf., kt. 701213-0170, að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjarins sem nær til lóðarinnar Gránufélagsgata 4 þar sem gert er ráð fyrir auknu byggingarmagni og heimild til að láta svalir ná út fyrir byggingarreit.

Er nú lögð fram tillaga að breytingu þar sem gert er ráð fyrir að nýtingarhlutfall hækki úr 3.0 í 3.82 (allt að 4.206 m²) og að heimilt verði að láta svalir ná allt að 1 m út fyrir byggingarreit á 2. - 4. hæð. Til viðbótar er í framlagðri tillögu gert ráð fyrir að hámarkshæð verði 16,3 m í stað 15,8 m auk þess sem afmörkun og stærð lóðar breytist lítillega til samræmis við lóðablað og það sama á við um byggingarreit.

Að mati skipulagsráðs er breytingin óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og er samþykkt að grenndarkynna tillöguna skv. 44. gr. skipulagslaga með fyrirvara um lagfæringar á gögnum í samráði við skipulagssvið.

5.Hafnarstræti 67-69 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2018100368Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju að lokinni auglýsingu tillaga að breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits sem nær til Hafnarstrætis 67-79, húsaraðar vestan götu. Í tillögunni felst breyting á skilmálum þannig að ekki er gerð krafa um að nýbyggingar verði steinsteyptar að öllu leyti heldur verði heimilt að þeir hlutar húsa sem eru ofan 1. hæðar geti verið úr léttbyggðu burðarefni. Gilda þessir skilmálar einnig um breytingar og endurbætur núverandi húsa í húsaröðinni. Var tillagan auglýst 30. janúar 2019 með athugasemdafresti til 13. mars 2019. Umsagnir bárust frá Minjastofnun og Árna Ólafssyni skipulagsráðgjafa en engar athugasemdir. Þá er lögð fram umsögn sviðsstjóra skipulagssviðs um efnisatriði umsagna.
Skipulagsráð samþykkir deiliskipulagsbreytinguna með þeirri breytingu frá auglýstri tillögu að hún nái eingöngu til lóðar 67-69. Er skipulagssviði falið að ganga frá gildistöku breytingarinnar.

6.Tengir - framkvæmdaleyfi fyrir ljósleiðara 2019

Málsnúmer 2019030377Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Tengis hf., kt. 660702-2880, dagsett 25. mars 2019 þar sem óskað er eftir framkvæmdaleyfi fyrir lagningu ljósleiðara um Akureyri sumarið 2019 samkvæmt meðfylgjandi yfirlitsmynd.
Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi framkvæmdaáætlun og telur hana uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Um er að ræða heildarleyfi fyrir lagningu ljósleiðara á árinu 2019 sbr. meðfylgjandi yfirlitsuppdrátt.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

- Útgáfa framkvæmdaleyfis er háð yfirferð á frágangi fyrri framkvæmda.

- Skrifleg framkvæmdaleyfi fyrir nánar skilgreinda verkþætti verða ekki gefin út fyrr en öll fylgigögn og sérteikningar hafa borist og þær yfirfarnar.

- Settur er fyrirvari um legu ljósleiðara frá Óseyri í átt að Krossnesbraut vegna vinnu við gerð deiliskipulags á svæðinu.

- Framkvæmdir skulu gerðar í samræmi við verklagsreglur Akureyrarbæjar um yfirborðsfrágang í bæjarlandinu. Nákvæm lega lagna í bæjarlandinu skal ákveðin í samráði við umhverfis- og mannvirkjasvið og veitustofnanir bæjarins.

- Framkvæmdaleyfið gildir í eitt ár frá útgáfu leyfis og gildir einungis fyrir svæði utan íbúðarhúsalóða og annarra úthlutaðra lóða. Leyfishafi skal afla samþykkis lóðarhafa þar sem farið er með lögn um úthlutaðar lóðir.

- Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

Skipulagsráð samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis.

7.Framkvæmdaleyfi fyrir 33 kV háspennustrengslögn - Rangárvellir - Hólsvirkjun, Fnjóskadal.

Málsnúmer 2016070095Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Helga Más Pálssonar, f.h. Rarik ohf., kt. 520269-2669, um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu á 33 kV háspennustreng frá hringvegi, meðfram Miðhúsabraut og upp að Rangárvöllum. Er um að ræða minni háttar breytingu á legu strengsins frá þeirri leið sem kynnt var á fundi skipulagsnefndar 28. september 2016.
Skipulagsráð hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis. Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

- Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

- Hafa þarf samráð við umhverfis- og mannvirkjasvið varðandi útfærslu á þverunum gatna og frágang raskaðra svæða.

- Leyfi vegagagerðarinnar vegna framkvæmda við vegi í hennar umsjá þarf að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast.

- Umsækjandi skal kynna sérstaklega, með áberandi hætti, lokanir sem verða á núverandi göngustíg áður en framkvæmdir hefjast. Skipulagsráð leggur áherslu á að lokun á göngustígnum standist tímarammann sem fram kemur í umsókn.

8.Þingvallastræti 31 - umsókn um niðurrif og endurbyggingu

Málsnúmer 2018060096Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs 11. júlí 2018 var samþykkt umsókn um niðurrif á húsi nr. 31 við Þingvallastræti en skipulagsráð frestaði formlegri afstöðu til uppbyggingar þar til fyrir lægju tillöguteikningar sem sýndu útlit og afstöðu.

Eru nú lagðar fram tillöguteikningar frá Kollgátu að nýju 216 m² íbúðarhúsi með bílskúr á lóðinni með hámarksþakhæð 4,52 m frá gólfplötu.
Skipulagsráð samþykkir að grenndarkynna tillöguna skv. 44. gr. skipulagslaga.

9.Viðburðir í miðbæ - 2019

Málsnúmer 2019020165Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 3. apríl 2019 þar sem Hlynur Hallsson fyrir hönd Listasafnsins á Akureyri sækir um lokun Listagilsins í Kaupvangsstræti dagana: 13. apríl, 18. maí, 1. júní, 13. júlí, 14. september, 5. október, 23. nóvember og 7. desember 2019 frá kl. 14-17.
Meiri hluti skipulagsráðs heimilar lokun Listagilsins dagana 18. maí, 1. júní, 13. júlí og 14. september og bendir á verklagsreglur um lokun gatna þar sem aðeins er heimilt að gefa leyfi fyrir fjórum lokunum á tímabilinu maí til september vegna listviðburða í Listagilinu.

Í reglunum stendur:

Lokun vegna listviðburða í þeim hluta Kaupvangsstrætis sem kallast Listagil er heimiluð frá kl. 14 til 17 frá maí til september. Verður að hámarki gefið leyfi fyrir fjórum lokanir á þessu tímabili. Sækja skal um þær lokanir í apríl fyrir hvert ár. Lokunarskilti skulu vera við neðra horn Kaupvangsstrætis 19 og við efra horn Kaupvangsstrætis 23.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óskar bókað að hún vilji samþykkja erindið.

Orri Kristjánsson S-lista sat hjá við afgreiðsluna.

10.Bílastæði í miðbænum

Málsnúmer 2019010086Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Kristínar Sóleyjar Sigursveinsdóttur forstöðumanns upplýsinga- og þjónustudeildar Akureyrarbæjar fyrir hönd Akureyrarkaupstaðar, kt. 410169-6229, dagsett 27. mars 2019 þar sem óskað er eftir að tekið verði til skoðunar að skilgreina betur og merkja bílastæði á lóð Ráðhússins. Einnig er óskað eftir að nokkur stæði verði skilgreind sem fastleigustæði þannig að starfsmenn á vinnubílum geti gengið að stæðum vísum í nágrenni við húsið. Þá er einnig bent á að svæði sunnan við Ráðhús sem nýlega voru skilgreind sem 2ja klst. stæði eru lítið notuð sem hefur aukið ásókn í önnur stæði við Ráðhúsið.
Frestað.

11.Strandgata 9 - bílastæðamál

Málsnúmer 2019040036Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf starfsmanna og eigenda Zone hársnyrtistofu ehf., kt. 580199-2249, dagsett 1. apríl 2019, þar sem óskað er eftir að klukkustæði norðan við Strandgötu 9 verði breytt í 2ja klst. stæði auk þess að óska eftir upplýsingum um bílastæði fyrir starfsmenn sem vinna í miðbænum.
Skipulagsráð telur ekki þörf á að breyta stæðum við Strandgötu 9 þar sem í næsta nágrenni eru svæði þar sem heimilt er að vera í 2 klst. auk þess sem töluvert er um frístæði í næsta nágrenni, þ.e. við Strandgötu og Ráðhús.

12.Skipulagssvið - skýrslur

Málsnúmer 2018120041Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt um hlutfall yfirvinnu af dagvinnu í mars 2019 samanborið við mars 2018 og árin 2013-2017.

13.Samþykkt Akureyrarkaupstaðar um götu og torgsölu - endurskoðun 2018-2019

Málsnúmer 2019030043Vakta málsnúmer

Á fundi skipulagsráðs þann 14. nóvember 2018 var samþykkt að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að setja í gang vinnu við endurskoðun samþykktar um götu og torgsölu og voru Þórhallur Jónsson D-lista og Helgi Snæbjarnarson L-lista í vinnuhóp vegna endurskoðunarinnar. Er nú búið að skipa vinnuhóp sem í sitja, fyrir utan Þórhall og Helga, starfsmenn frá umhverfis- og mannvirkjasviði, skipulagssviði, Akureyrarstofu auk fulltrúa frá Miðbæjarsamtökunum.
Skipulagsráð samþykkir erindisbréf vinnuhópsins og einnig að vinnuhópurinn verði launaður.

14.Aðalskipulagsbreyting - Krossaneshagi

Málsnúmer 2018080081Vakta málsnúmer

Lögð fram að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem felst í að hluti núverandi athafnasvæðis, merkt AT5, sem liggur sunnan Óðinsness og vestan Krossanesbrautar breytist í iðnaðarsvæði. Tillagan var auglýst til kynningar 20. mars sl. og hafa engar athugasemdir borist en fyrir liggja umsagnir Skipulagsstofnunar, Minjastofnunar og Norðurorku við lýsingu aðalskipulagsbreytingarinnar.
Skipulagsráð leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst samkvæmt 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga og feli skipulagssviði að senda breytinguna til athugunar Skipulagsstofnunar.

15.Dalsbraut KA - umsókn um stúku

Málsnúmer 2019030165Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Sævars Péturssonar dagsett 5. apríl 2019 f.h. Knattspyrnufélags Akureyrar, kt. 700169-4219, um breytingu á deiliskipulagi sem felur í sér að heimilt verði að setja upp stúku á göngustíg sunnan við núverandi gervigrasvöll á tímabilinu 15. apríl til 1. október. Utan þess tíma verður stúkan fjarlægð og svæðið nýtt sem göngustígur.
Að mati skipulagsráðs er um óverulega breytingu að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og er ekki talin þörf á að grenndarkynna hana sbr. heimild í 2. ml. 3. mgr. 44. gr. laganna þar sem ekki er um aðra hagsmunaaðila að ræða en Akureyrarbæ.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óskar bókað:

Mikilvægt er að tryggja að hægt verði að nota núverandi göngustíg sem stofnstíg allt árið þegar nýtt stígaskipulag tekur gildi.

16.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2019

Málsnúmer 2019010038Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 716. fundar, dagsett 28. mars 2019, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 3 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:25.