Nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri

Málsnúmer 2018100200

Vakta málsnúmer

Skipulagsráð - 313. fundur - 10.04.2019

Í lok árs 2018 fór af stað vinna við að skoða möguleika á staðsetningu nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri og var Teiknistofa Arkitekta fengin til að vinna greiningu á mögulegu staðarvali. Lauk þeirri vinnu með meðfylgjandi skýrslu dagsettri 2. apríl 2019.

Lilja Filipusdóttir og Árni Ólafsson hjá Teiknistofu Arkitekta kynntu helstu niðurstöður verkefnisins.
Skipulagsráð þakkar fyrir kynninguna.

Skipulagsráð - 335. fundur - 22.04.2020

Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skipulagssviðs dagsett 16. apríl 2020 um mögulegar lóðir til uppbyggingar tveggja heilsugæslustöðva. Meðfylgjandi er einnig skýrsla um staðarvalsgreiningu dagsett 2. apríl 2019 og auglýsing ríkiskaupa um útboð um byggingu heilsugæslustöðva sem birtist í Fréttablaðinu 4. apríl 2020.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að koma tillögum um lóðir til uppbyggingar á heilsugæslum á Akureyri á framfæri við Ríkiskaup í samræmi við meðfylgjandi minnisblað.

Skipulagsráð - 343. fundur - 09.09.2020

Sviðsstjóri skipulagssviðs fór yfir stöðu mála varðandi uppbyggingu tveggja heilsugæslustöðva á Akureyri.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að setja í gang vinnu við breytingu á aðal- og deiliskipulagi tjaldsvæðisreits og að vinnu við breytingu á deiliskipulagi sem nær til Skarðshlíðar 20 verði flýtt.

Bæjarráð - 3709. fundur - 10.12.2020

Rætt um nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri.

Anna Sofia Kristjánsdóttir og Örn Baldursson frá Framkvæmdasýslu ríkisins og Jón Helgi Björnsson og Guðný Friðriksdóttir frá HSN komu á fund bæjarráðs.

Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og bæjarfulltrúarnir Heimir Haraldsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Þórhallur Jónsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.

Ungmennaráð - 13. fundur - 07.01.2021

Breytingar á aðalskipulagi Akureyrar lagðar fram til kynninga.
Ungmennaráð gerir engar athugasemdir við breytingarnar.

Bæjarráð - 3717. fundur - 18.02.2021

Rætt um fyrirhugaða staðsetningu heilsugæslustöðvar norðan Glerár.

Þórhallur Jónsson formaður skipulagsráðs og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Meirihluti bæjarráðs telur að skoða eigi betur valkosti fyrir staðsetningu heilsugæslustöðvar norðan Glerár en mikilvægt er þó að slík skoðun leiði ekki til umtalsverðra tafa á framgangi málsins. Er því óskað eftir að auglýst verði á almennum markaði eftir leiguhúsnæði fyrir norðurstöð heilsugæslu þannig að aðrir möguleikar en Skarðshlíð 20 komi til greina. Áfram verði unnin skipulagsvinna fyrir Skarðshlíð 20 og er gert ráð fyrir að aðal- og deiliskipulagsbreyting verði auglýst á næstu vikum og taki gildi á vormánuðum. Er gert ráð fyrir að lóðin verði hluti af auglýsingunni sem felur í sér að aðilar geta annað hvort lagt fram nýjan uppbyggingarkost eða þá boðið leiguhúsnæði með því að byggja á Skarðshlíð 20.

Er sviðsstjóra skipulagssviðs falið að koma þessu á framfæri við heilbrigðisráðuneytið.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Val á staðsetningu fyrir heilsugæslu á Akureyri norðan Glerár hefur verið langt, flókið en um leið vandað ferli. Eftir opið auglýsingaferli var niðurstaðan að Skarðshlíð 20 væri heppilegasta staðsetningin fyrir heilsugæslu norðan Glerár og hafa forsvarsmenn HSN lýst yfir ánægju sinni með það staðarval miðað við þeirra forsendur. Þá kallast staðsetningin vel á við hugmyndafræðina um 20 mínútna bæinn. Við teljum uppbyggingu heilsugæslu við Skarðshlíð vænlegan kost og engar nýjar málefnalegar ástæður vera til að breyta því staðarvali. Mikilvægt er að nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri verði teknar í notkun eins fljótt og hægt er.

Skipulagsráð - 353. fundur - 24.02.2021

Formaður skipulagsráðs fór yfir stöðu mála varðandi uppbyggingu heilsugæslustöðva á Akureyri.
Orri Kristjánsson S-lista og Arnfríður Kjartansdóttir V-lista óska bókað:

Þann 18. febrúar sl. bókaði meirihluti bæjarráðs Akureyrarbæjar á fundi sínum að skoða skyldi aðrar staðsetningar en Skarðshlíð 20 fyrir heilsugæslustöð norður sem valin var í staðarvalsgreiningu. Niðurstaða meirihluta bæjarráðs var að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að koma þessum skilaboðum áleiðis til heilbrigðisráðuneytisins. Staðarvalsgreining þessi var langt og flókið ferli en um leið vandað og hafa forsvarsmenn HSN lýst yfir ánægju með umrædda staðsetningu.

Skipulagsvinna miðuð við að heilsugæslustöð rísi á þeim reit er hafin og fullkomlega óskiljanlegt er hvers vegna bæjarráð tekur fram fyrir hendurnar á skipulagsráði á þennan hátt. Í bókun sinni tekur bæjarráð fram að þessi viðsnúningur eigi ekki að tefja málið. Draga verður þá fullyrðingu í efa þar sem opið auglýsingaferli mun taka við með tilheyrandi tíma og viðbótar skipulagsvinnu sem mun augljóslega tefja málið enn frekar. Þetta útspil meirihluta bæjarráðs sætir mikill furðu og má telja það í beinni andstöðu gegn hagsmunum bæjarbúa þar sem mikilvægt er að nýjar heilsugæslustöðvar verði teknar í notkun á Akureyri við fyrsta mögulega tækifæri. Að því er virðist liggja engar málefnalegar ástæður að baki þessari vegferð meirihluta bæjarráðs.

Meirihluti skipulagsráðs telur að ákvörðun bæjarráðs muni ekki tefja ferli uppbyggingar á heilsugæslustöð norður.