Málsnúmer 2015080022Vakta málsnúmer
Skipulagstillagan var auglýst frá 26. apríl með athugasemdafresti til 7. júní 2017. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagssviðs.
Þrjár athugasemdir bárust:
1) Ragnar Sverrisson, móttekið 17. maí 2017.
Lagt er til að hringtorg komi á mótum Glerárgötu og Gránufélagsgötu. Auk þess verði hægt að aka niður Eiðsvallagötu þegar komið er sunnan Glerárgötu. Þannig ætti að vera hægt að tengja Oddeyrina aftur og hún verði ekki áfram einangruð frá miðbænum og efri hluta bæjarins. Áréttað er við kjörna bæjarfulltrúa og nefndarmenn í skipulagsráði að það eru þeir, en ekki bæjarstarfsmenn eða undirverktakar, sem bera ábyrgðina þegar til kastanna kemur.
2) Útgerðarfélag Akureyrar, dagsett 7. júní 2017.
Gerðar eru athugasemdir vegna skerðingar lóðar Útgerðarfélagsins vegna breyttrar legu Laufásgötu, lagningu þjónustugötu meðfram viðleguköntum og að blönduð byggð verði nærri ÚA.
3) BS kreppa ehf., dagsett 31. maí 2017.
Samkvæmt uppdráttum virðist sem opna eigi fyrir Eiðsvallagötu niður að Laufásgötu. Því er mótmælt þar sem það er mikil eignaskerðing fyrir lóðarhafa. Lagt er til að Kaldbaksgata 6 og 8 verði heldur sameinaðar í eina lóð, Laufásgötu 7.
Átta umsagnir bárust:
1) Isavia, dagsett 8. maí 2017.
Engar athugasemdir eru gerðar en bent er á að Samgöngustofa ætti að fá tillöguna til umsagnar.
2) Hafnasamlag Norðurlands, dagsett 9. maí 2017.
Ítrekaðar eru fyrri athugasemdir Hafnasamlagsins. Mikilvægt er að settar séu kvaðir vegna Kelduhverfis um að íbúar geri sér grein fyrir að menn séu í nálægð við atvinnustarfsemi sem getur leitt af sér hávaða eða annað sem tengist viðkomandi starfsemi.
3) Vegagerðin, dagsett 30. maí 2017.
Engar athugasemdir eru gerðar.
4) Norðurorka, dagsett 31. maí 2017.
Í ljósi mikilvægi veitna sem hluta grunninnviða samfélagsins teljum við æskilegt að í tillögunni séu dregnir fram í stuttu máli framangreindir þættir og þar með að tekinn sé út textinn um að ekki sé fjallað um veitukerfi. Við lítum svo á að beinlínis sé skylt að vekja athygli á þessum þjónustukerfum, þó í stuttu máli sé og þannig minnt á að ævinlega er nauðsynlegt að taka mið af þeim á öllum stigum skipulagsvinnunnar enda eru þessir innviðir forsenda annarrar uppbyggingar og þeirrar þjónustu sem nútíma samfélag kallar á. Samráð og samvinna um þessa þætti er því mikilvæg í áframhaldandi skipulagsvinnu.
5) Minjastofnun Íslands, dagsett 6. júní 2017.
Minjastofnun fer fram á að gerð sé grein fyrir lögum um menningarminjar í skipulaginu og hver lagaleg staða þeirra húsa sé sem þar falla undir. Í aðalskipulagi skal gera grein fyrir húsum og mannvirkjum sem falla undir lög um menningarminjar í húsaskrá. Æskilegt er að einnig fylgi skrá yfir hús sem verða 100 ára á skipulagstímanum.
6) Umhverfisstofnun, dagsett 2. júní 2017.
Ekki er gerð athugasemd við tillöguna. Stofnunin fagnar að opin svæði fái aukið notagildi og þeirri stefnu sem felur í sér áherslu á sjálfbærni.
7) Samgöngustofa, dagsett 18. maí 2017.
Vegna nálægðar við flugvöllinn verður bærinn að vera í nánu sambandi við Isavia um hæðir mannvirkja þegar kemur að nánara skipulagi. Mikilvægt er að farið sé að kröfum laga og reglugerða um loftferðir.
8) Skipulagsstofnun, dagsett 1. júní 2017.
Gerðar eru athugasemdir við framsetningu skipulagsgagna og að skýra þurfi betur ákveðna þætti.
9) Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra, dagsett 15. júní 2017.
Engar athugasemdir eru gerðar.
Lögð fram tillaga skipulagshöfundar að viðbrögðum við umsögnum og athugasemdum.
Formaður óskaði eftir að bæta inn á útsenda dagskrá lið 26. Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 og var það samþykkt.
Edward Hákon Huijbens V-lista mætti á fundinn kl. 8:35.