Skipulagsnefnd

156. fundur 24. apríl 2013 kl. 08:00 - 12:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Árni Páll Jóhannsson
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurður Guðmundsson
  • Ragnar Sverrisson áheyrnarfulltrúi
  • Stefán Friðrik Stefánsson áheyrnarfulltrúi
  • Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Stefán F. Stefánsson áheyrnarfulltrúi D-lista mætti í forföllun Svövu Þ. Hjaltalín.
Sigurður Guðmundsson A-lista mætti á fundinn kl. 8:10

1.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, breyting á hafnarsvæði og reiðleiðum

Málsnúmer SN080052Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing var kynnt í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar og í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar.
Tvær umsagnir bárust vegna skipulagslýsingar:
1) Hafnasamlag Norðurlands, dagsett 16. apríl 2013.
Engar athugasemdir gerðar.
2) Skipulagsstofnun, dagsett 18. apríl 2013.
a) Gera þarf grein fyrir tengslum milli skipulagsverkefnisins og aðalskipulags nærliggjandi sveitarfélaga hvað varðar reiðleiðir og stíga.
b) Gera þarf grein fyrir áhrifum verkefnisins á umhverfi og samfélag.
c) Hafa þarf hliðsjón af landnotkunarflokkum tilgreindum í skipulagsreglugerð.
d) Ef landfylling fyrir stækkun hafnarsvæða er 5 ha eða stærri fellur tillagan undir lög um umhverfismat áætlana.
Tekið hefur verið tillit til ábendinga Skipulagsstofnunar í greinargerð aðalskipulagstillögunnar.
Ekki bárust umsagnir frá neðangreindum aðilum innan tilskilins frests:
3) Hörgársveit.
4) Eyjafjarðarsveit.
5) Umhverfisstofnun.
6) Norðurorka.
7) Hestamannafélagið Léttir.
Engar athugasemdir bárust vegna skipulagslýsingarinnar frá öðrum aðilum.

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna afmörkunar hafnarsvæða, staðsetningar reiðleiða og skilgreiningar á íbúðarhúsi í landi Hesjuvalla, dagsetta 24. apríl 2013 og unna af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að breytingartillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi B-lista mætti á fundinn kl. 8:37

Sigurður Guðmundsson vék af fundi kl.8:40

2.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018, íbúðarsvæði vestan Kjarnagötu

Málsnúmer 2013030090Vakta málsnúmer

Skipulagslýsing var kynnt í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var aðgengileg á heimasíðu skipulagsdeildar og í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar.
Tvær umsagnir bárust vegna skipulagslýsingar.
1) Skipulagsstofnun, dagsett 17. apríl 2013.
Ekki eru gerðar athugasemdir en stofnunin bendir á að æskilegt sé að gerð verði grein fyrir af hverju nú sé ástæða til að marka stefnu um íbúðabyggð á svæði sem áður var talið óhentugt til íbúðarbyggðar vegna jarðvegsdýpis.
2) Hverfisnefnd Naustahverfis, dagsett 24. apríl 2013.
Hverfisnefndin mótmælir áformum um íbúðabyggð á reitnum.
Tekið hefur verið tillit til ábendinga Skipulagsstofnunar í greinargerð tillögunnar og er athugasemd hverfisnefndar vísað til skipulagsdeildar til nánari skoðunar.
Umsögn barst ekki frá Norðurorku.
Þrjár athugasemdir bárust vegna skipulagslýsingarinnar. Athugasemdir nr. 2 og 3 bárust eftir fund skipulagsnefndar.
1) Guðrún D. Harðardóttir f.h. húsfélags Hamratúns 4 og 6, dagsett 22. apríl 2013.
Fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi er mótmælt þar sem gert er ráð fyrir íbúðarbyggð á reitnum.
2) Þórdís Unnur Þórðardóttir og Marta A. Þórðardóttir, íbúðareigendur í Ásatúni 8, dagsett 18. apríl 2013.
Þær mótmæla fyrirhuguðum breytingum m.a. vegna aukinnar umferðar og mengunar á Kjarnagötu.
3) Samhljóða athugasemd nr. 2 frá eigendum Ásatúns 6 og 8 með 27 undirskriftum, dagsett 18. apríl 2013.
Athugasemdum 1) til 3) er vísað til skipulagsdeildar til nánari skoðunar.

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að breytingu á aðalskipulagi dagsetta 24. apríl 2013 og unna af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf., vegna breytingar á hluta opins svæðis til sérstakra nota, 3.2.7 O, sem verði tekið undir íbúðarbyggð.

Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að breytingartillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samhliða verði auglýst tillaga að deiliskipulagsbreytingu á svæði norðan Tjarnarhóls (sjá málsnr. 2013030067).

 

Edward H. Huijbens V-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista óska bókað að þeir ítreka fyrri bókun og mótmæla breytingu á aðalskipulagi vestan Kjarnagötu þar sem íbúðarsvæði er skilgreint á svæði sem áður var ekki ætlað undir byggð. Telja nefndarmennirnir að rökin sem tiltekin eru fyrir breytingunni haldi ekki, þó sérstaklega það að um þéttingu byggðar sé að ræða sbr. ábendingar Skipulagstofnunar. Ljóst er að hér sé verið að breyta skipulagi í þágu verktaka frekar en eftir sýn skipulagsnefndar og það sem upprunalega var lagt upp með. Mögulega bakast með þessu skaðabótaskylda gagnvart núverandi íbúum.

Edward H. Huijbens V-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni og Sigurður Guðmundsson A-lista var ekki á fundinum við afgreiðsluna.

Sigurður Guðmundsson kom aftur á fundinn kl. 8:50

3.Naustahverfi, svæði norðan Tjarnarhóls, deiliskipulagsbreyting, nýtt íbúðarsvæði

Málsnúmer 2013030067Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðis norðan Tjarnarhóls við Kjarnagötu, dagsetta 24. apríl 2013 og unna af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi ehf.

Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samhliða verði auglýst tillaga að aðalskipulagsbreytingu vegna íbúðarsvæðis vestan Kjarnagötu (sjá málsnr. 2013030090).

Edward H. Huijbens V-lista og Sigurður Guðmundsson A-lista vísa í bókun sína við 2. lið fundargerðarinnar.

Sigurður Guðmundsson A-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni og Edward H. Huijbens V-lista situr hjá.

4.Miðhúsabraut/Súluvegur - deiliskipulag

Málsnúmer 2012070028Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagi athafna-, verslunar- og þjónustusvæðis við Miðhúsabraut/Súluveg dagsetta 24. apríl 2013 og unna af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf.
Þann 8. apríl 2013 voru drög að deiliskipulagi send til Minjastofnunar Íslands til skoðunar. Í svari þeirra kemur fram að ein fornleif sé mjög nálægt skipulagssvæðinu. Steinbogi var yfir ána frá náttúrunnar hendi en engar leifar eru sjáanlegar nú. Skipulagsdrögin fela ekki í sér meira rask en nú er orðið og því eru engar athugasemdir gerðar við tillöguna.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samhliða verði auglýst tillaga að aðalskipulagsbreytingu vegna athafna-, verslunar- og þjónustusvæðis við Miðhúsabraut/Súluveg (sjá málsnr. 2012110148).

Ragnar Sverrisson áheyrnarfulltrúi S-lista óskar bókað að hann mótmæli því að svæðið verði fest í sessi sem athafnasvæði í stað þess að útbúa þar góða útivistarperlu í mynni Glerárdals. 

5.Tjarnartún 29 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2013040072Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 10. apríl 2013 þar sem Tryggvi Tryggvason f.h. Fjölnis ehf., kt. 530289-2069, óskar eftir að heimiluð verði deiliskipulagsbreyting þannig að byggingin verði á tveimur hæðum án pallaskiptingar.
Meðfylgjandi eru teikningar og þrívíddarmynd eftir Tryggva Tryggvason.

Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Kotárgerði 8 - fyrirspurn um byggingu bílskúrs

Málsnúmer 2013040101Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. apríl 2013 þar sem Tryggvi Tryggvason f.h. Arnars Guðmundssonar og Margrétar Dóru Eðvarðsdóttur óskar eftir að byggja bílskúr við Kotárgerði 8. Meðfylgjandi er afstöðumynd af lóð.
Sigurður Guðmundsson A-lista vék af fundi kl. 9:30 vegna vanhæfis við umræðu og afgreiðslu þessa liðar.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið en óskar eftir nánari gögnum um bílskúrinn.

Sigurður Guðmundsson A-lista kom aftur á fundinn kl. 9:34

7.Fjölnisgata 6, bil B,C,D - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2013020234Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 21. febrúar 2013 þar sem Gunnar Björn Þórhallsson f.h. Bjarkarness ehf., kt. 671107-0710, sækir um byggingarleyfi vegna fyrirhugaðrar hækkunar hússins við Fjölnisgötu 6.
Tillagan var grenndarkynnt frá 21. mars til 18. apríl 2013 og barst engin athugasemd.

Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsstjóra að afgreiða umsókn um byggingarleyfi þegar hún berst.

8.Hálönd landnr. 219736 - gatnagerð

Málsnúmer 2012050231Vakta málsnúmer

Erindi í tölvupósti dagsett 17. apríl 2013 frá Helga Erni Eyþórssyni þar sem hann f.h. SS Byggis ehf., kt. 620687-2519, óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir seinni áfanga götunnar Hrímlands í Hálöndum í samræmi við samþykkt deiliskipulag.
Meðfylgjandi eru uppdrættir unnir af Gísla Gunnlaugssyni tæknifræðingi og dagsettir 15. apríl 2013, er sýna staðsetningu götunnar, snið og lagnaleiðir.

Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn og telur þau í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

9.Strandgata - umsókn um leyfi fyrir skúlptúr

Málsnúmer 2013040078Vakta málsnúmer

Móttekið erindi dagsett 10. apríl 2013 frá Finni Inga Erlendssyni f.h. Geðlistar félagasamtaka, kt. 661007-0440, þar sem óskað er eftir að fá að setja niður listaverk í fjöruborðið í tjörninni við Strandgötu 49.
Fyrir liggur samþykki hafnarstjóra fyrir staðsetningunni.

Skipulagsnefnd samþykkir að listaverkinu verði komið fyrir í fjöruborði tjarnarinnar við Strandgötu en gerir kröfu um að gengið verði frá niðursetningu verksins í samráði við skipulagsdeild þannig að ekki stafi hætta af. 

10.Endurvinnslan Furuvöllum 11 - hávaðamengun

Málsnúmer 2013040104Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði þann 11. apríl 2013 4. lið fundagerðar hverfisnefndar Oddeyrar til skipulagsdeildar en þar er komið á framfæri óánægju vegna hávaðamengunar frá starfsemi Endurvinnslunnar ehf. Nefndin lýsir jafnframt furðu á að starfsemin hafi ekki verið send í grenndarkynningu áður en leyfi voru veitt.
Óskað er eftir að Akureyrarbær leiti leiða til að koma til móts við kvartanir íbúa í grennd við starfsemina og geri viðeigandi ráðstafanir til þess að draga úr hávaðanum eða að öðrum kosti flytja starfsemina fjær íbúðabyggðinni.

Í framhaldi af kvörtunum fóru Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra og Vinnueftirlitið fram á úrbætur hjá Endurvinnslunni gegn hávaða inni og úti. Í framhaldinu voru gerðar lagfæringar á hurðum og einangrun auk lagfæringa á vélbúnaði og færiböndum. Í byrjun febrúar var hávaði mældur sunnan við gamla Vörubæ og reyndist hávaði vera á bilinu 53 til 57 dB áður en vinna við brot á gleri og keyrsla á bandi hjá Endurvinnslunni hófst og 63 til 64 dB eftir að vinna og keyrsla hófst. Þetta svæði er skilgreint sem athafnasvæði sem þýðir að Leq má vera allt að 70 db.

Skipulagsstjóra er falið að ræða við eigendur Endurvinnslunnar um úrbætur á glerlosun sem fælu í sér hugsanlega yfirbyggingu.

11.Póstkassi fyrir íslenska jólasveininn - umsókn um staðsetningu

Málsnúmer 2013030035Vakta málsnúmer

Erindi dags. 1. mars 2013 frá Guðmundi R. Lúðvíksyni þar sem hann sækir um stað á Akureyri, annaðhvort í miðbæ eða við fjölfarna ferðamannaleið, fyrir stóran póstkassa fyrir íslenska jólasveininn.

Afgreiðslu erindisins er frestað og skipulagsstjóra falið að afla nánari upplýsinga og gagna.

12.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2013

Málsnúmer 2013010008Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 10. apríl 2013. Lögð var fram fundargerð 439. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 12 liðum.

Lagt fram til kynningar.

13.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2013

Málsnúmer 2013010008Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 17. apríl 2013. Lögð var fram fundargerð 440. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:00.