Málsnúmer 2011100003Vakta málsnúmer
Tekið fyrir að nýju í framhaldi af bókun skipulagsnefndar frá 25. apríl s.l. um staðsetningu sameiginlegs urðunarstaðar í Eyjafirði.
Þann 2. október s.l. var aðildarsveitarfélögum svæðisskipulagsins send til umsagnar, með vísan til 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, lýsing á skipulagsverkefninu "Svæðisskipulag Eyjafjarðar 2011-2023" ásamt fylgiriti þar sem gerð var grein fyrir helstu forsendum væntanlegrar skipulagstillögu. Þrjú sveitarfélög gerðu athugasemdir við nokkra þætti lýsingarinnar. Tekið hefur verið tillit til hluta þeirra í meðfylgjandi gögnum og gerð er grein fyrir afgreiðslu þeirra efnisþátta sem ekki þótti ástæða til að færa inn í væntanlega skipulagstillögu.
Samvinnunefndin óskar eftir athugasemdum við meðfylgjandi gögn.
Sveitarfélögin á skipulagssvæðinu reka sameiginlega einkahlutafélagið Flokkun ehf., sem annast stefnumótun og áætlunargerð um meðhöndlun úrgangs á svæðinu, ásamt endurskoðun á gildandi svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2005-2020. Hlutverk félagsins er einnig að fjalla um framtíðar fyrirkomulag á endurvinnslu og förgun úrgangs á svæðinu.
Skipulagsnefnd telur að efniskafli um sorpmál eigi að vera hluti af svæðisskipulagi Eyjafjarðar 2011-2023 þó svo að sameiginlegur urðunarstaður í Eyjafirði sé ekki í augsýn og verði ekki skilgreindur í svæðisskipulaginu sem nú er í endurskoðun.
Skipulagsnefnd telur nauðsynlegt að í skipulagslýsingunni komi fram stefna hins sameiginlega félags um hvernig sorpmálum verði háttað á svæðinu til lengri tíma litið og að gerðar verði tillögur um samræmda meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. flokkun almenns sorps.