Skipulagsnefnd

225. fundur 23. mars 2016 kl. 08:00 - 11:40 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Tryggvi Gunnarsson
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Anna Bragadóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Tryggvi Gunnarsson S-lista mætti í forföllum Ólínu Freysteinsdóttur.

1.Miðbær - deiliskipulagsbreyting vegna fjölgunar lóða og breytingar á Torfunefsbryggju

Málsnúmer 2016010086Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram til kynningar tillögu að breytingum á deiliskipulagi Miðbæjar. Um er að ræða fjölgun lóða fyrir hafnsækna ferðaþjónustu við Hofsbót, breytingar á Torfunefsbryggju o.fl. Tillagan er unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi sem kom á fundinn ásamt Ingvari Ívarssyni og kynntu þeir tillöguna.

Tvö erindi bárust frá Ambassador hvalaskoðun þann 16. mars 2016, annars vegar um hvort samþykki fengist til að flytja Wathne-húsið á lóð nr. 1 við Torfunef og gömlu Bátasmiðjuna á lóð nr. 3. Hins vegar er óskað eftir að komið verði upp bryggjukanti í vesturhluta hafnarinnar.
Skipulagsnefnd þakkar Ómari og Ingvari fyrir kynninguna. Málinu er frestað.

2.Torfunef 1 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2016030140Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. mars 2016 þar sem Skúli Gautason f.h. Ambassador ehf., kt. 551009-2620, sækir um tímabundið byggingarleyfi fyrir húsi á lóð nr. 1 við Torfunef. Meðfylgjandi eru myndir.
Skipulagsnefnd getur fallist á að tímabundið verði leyft að setja niður aðstöðuhús á nýja fyllingu við Torfunef, sunnan lóðar fyrirtækisins þangað til byggt hefur verið nýtt hús á lóðinni, þó ekki lengur en til 1. júní 2018.

3.Miðbær suðurhluti - umsókn um breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits

Málsnúmer 2015020122Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst frá 27. janúar með athugasemdafresti til 9. mars 2016. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagsdeildar.

Íbúafundur var haldinn þann 28. janúar 2016 þar sem tillaga að skipulaginu var kynnt almenningi.

Fjórar athugasemdir bárust

1) Miðbæjarsamtökin á Akureyri, dagsett 29. janúar 2016.

Alfarið er lagst gegn því að bílastæðum í miðbænum fækki frá því sem nú er. Ekki hugnast þeim að stækka bílastæðin neðan við Leikhúsið til að koma til móts við bílastæðaþörf. Ef þessi tillaga verður samþykkt þá er komið fordæmi fyrir að sleppa, eða minnka verulega fjölda bílastæða á reitnum austan Skipagötu. Það geta rekstraraðilar í miðbæ Akureyrar aldrei sætt sig við.

2) Undirskriftarlisti, dagsettur 3. mars 2016 þar sem forsvarsmenn fyrirtækja á svæðinu skrifa undir.

a) Deiliskipulagsbreytingin er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag þar sem lögð er áhersla á bílastæðakjallara á svæðinu.

b) 73 bílastæði þyrftu að vera í bílastæðakjallara til að uppfylla gildandi ákvæði eftir hækkun nýtingarhlutfalls úr 1,80 í 2,02.

c) Engin bílastæðakrafa er gerð til fyrirhugaðs hótels þar sem engin bílastæði verða innan lóðarinnar.

d) Að mæta bílastæðaþörf hótelsins ofanjarðar, utan lóðar og á kostnað nærsamfélagsins getur ekki talist samræmast aðalskipulagi.

3) Gunnar Magnússon, dagsett 4. febrúar 2016.

a) Mótmælt er hækkun suðausturhluta byggingarinnar í 3,5 hæð.

b) Allt of fá bílastæði eru í skipulaginu.

c) Austurbrú ætti að vera einstefna í suður. Götur norðan og vestan Hafnarstrætis 80 ættu einnig að vera einstefna. Þá væri hægt að bæta við bílastæðum.

d) Fjölga þarf bílastæðum sunnan Hafnarstrætis 80.

4) Arnar Birgir Ólafsson, dagsett 9. mars 2016.

a) Með hvaða hætti samræmist tillagan aðalskipulagi Akureyrar?

b) Líklega verður gerð krafa um nýtt bílastæðaplan á nærliggjandi lóðum. Hefur skipulagsnefnd tekið afstöðu til þess og ef svo er hvaða svæði verði þá fyrir valinu?

c) Á hvaða hátt rökstyðja bæjaryfirvöld að tillagan þjóni betur framtíðarsýn Akureyrar skv. aðalskipulagi heldur en gildandi deiliskipulag?

d) Kallar þessi tillaga á breytingu á texta aðalskipulags varðandi bílastæðakjallara á reitnum.
Skipulagsnefnd tekur undir áhyggjur í athugasemdum um að fallið verði frá bílastæðakröfum gildandi deiliskipulags en frestar afgreiðslu málsins til 27. apríl 2016.

4.Kjarnaskógur - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2016030052Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. mars 2016 þar sem Jón Birgir Gunnlaugsson f.h. Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, sækir um breytingu á deiliskipulagi Kjarnaskógar. Meðfylgjandi eru myndir.
Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar - breyting á göngu- og reiðleið

Málsnúmer 2016010068Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. mars 2016, frá Ómari Ívarssyni skipulagsfulltrúa Eyjafjarðarsveitar, þar sem óskað er eftir umsögn Akureyrarkaupstaðar á breytingu á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025. Breytingin felst í því að legu göngu- og reiðleiðar sem liggja frá Akureyri að Hrafnagilshverfi er breytt á hluta leiðarinnar.
Skipulagsnefnd bendir á misræmi milli skipulagsuppdráttar og skýringaruppdráttar þar sem á skipulagsuppdrættinum er reiðleiðin nær akvegi, öfugt við það sem er á skýringaruppdrættinum. Réttara er að hafa reiðleiðina fjær því ef hestur fælist við bíla þá er betra að hann hlaupi upp í fjall án þess að eiga á hættu að rjúka á gangandi eða hjólandi.

6.Jörvabyggð 5 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2016030036Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. mars 2016 þar sem Birgir Ágústsson f.h. Hannesar Kristjánssonar sækir um stækkun á bílskúr við hús nr. 4 við Jörvabyggð. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Birgi Ágústsson.
Skipulagsnefnd samþykkir að grenndarkynna erindið skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Austurvegur 45 - lóðarleigusamningur

Málsnúmer 2016020219Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. febrúar 2016 þar sem Haraldur Hrafnsson óskar eftir lóðarstækkun á lóð eignar með fastanúmer 222-4565 í Hrísey. Meðfylgjandi er teikning.
Skipulagsnefnd hafnar erindinu að svo stöddu en bendir á að stefnt er á að hefja vinnslu deiliskipulags á svæðinu í framhaldi af gerð aðalskipulags.

8.Geirþrúðarhagi 5 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2015120185Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi á fundi 27. janúar 2016 og að breytingin yrði unnin í samræmi við 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan er unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi, dagsett 23. mars 2016. Breyting er gerð á byggingarreit til austurs í samræmi við viðræður við hönnuð (sjá tölvupóst).
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9.Matthíasarhagi 1 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2016030115Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi á fundi 10. febrúar 2016 og að breytingin yrði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan er unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi, dagsett 23. mars 2016. Viðbót við erindið barst 16. mars 2016 þar sem óskað var eftir hækkun á nýtingarhlutfalli.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

10.Vallartún 4-8 - niðurfelling á göngustíg

Málsnúmer 2016030116Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. mars 2016 þar sem íbúar við Vallartún 4-8 óska eftir niðurfellingu á göngustíg vestan lóða nr. 2-8 við Vallartún.
Skipulagsnefnd frestar erindinu og felur skipulagsdeild að skoða göngutengingar frá Hagahverfi að Naustahverfi.

11.Rangárvellir, bílastæði - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2016030143Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 17. mars 2016 þar sem Anton Örn Brynjarsson f.h. Norðurorku hf., kt. 550978-0169, leggur inn fyrirspurn varðandi byggingarreit á lóðinni fyrir spennistöð. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Anton Örn Brynjarsson.
Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

12.Mímisbraut, VMA - umsókn um framkvæmdarleyfi

Málsnúmer 2016030134Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. mars 2016 þar sem Bragi Sigurðsson f.h. Norðurorku, kt. 550978-0169, sækir um framkvæmdarleyfi fyrir lagningu nýrra hitaveitulagna að Verkmenntaskólanum á Akureyri við Hringteig 2. Meðfylgjandi er teikning.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmda við Verkmenntaskólann, sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag, og samþykkir útgáfu framkvæmdarleyfisins á grundvelli 4. gr.- g "Samþykktar um skipulagsnefnd".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdarleyfisins:

Framkvæmdin skal vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

13.B. Jensen - uppsetning á búnaði til eyðingar á áhættuvefjum úr sláturdýrum

Málsnúmer 2016030085Vakta málsnúmer

Erindi dagset 11. mars 2016 þar sem Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn Akureyrarbæjar vegna mats á umhverfisáhrifum búnaðar til eyðingar á áhættuvefjum úr sláturdýrum við sláturhús B. Jensen.
Umsögn skipulagsnefndar skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 til Skipulagsstofnunar, vegna tilkynningar B. Jensen um uppsetningu á búnaði til eyðingar á áhættuvefjum úr sláturdýrum.

Skipulagsnefnd hefur fullnaðar afgreiðsluheimild skv. 4. grein samþykktar um skipulagsnefnd.


Með bréfi dags. 8. mars 2016, óskar Skipulagsstofnun eftir umsögn Akureyrarbæjar með vísan til 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, um hvort og á hvaða forsendum ofangreind framkvæmd B. Jensen skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum nr. 106/2000 og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.

Tekið er fram í bréfi Skipulagsstofnunar að í umsögn skuli koma fram, eftir því sem við á, hvort Akureyrarbær telji að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Einnig hvaða leyfi framkvæmd er háð og varðar starfssvið umsagnaraðila.

Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar bendir á að það skortir að þess sé getið nægjanleg vel, annars vegar hvert heildarmagn á ári verði brennt og hins vegar, hvaða úrgang á að brenna, þ.e. eftir hvaða áhættuflokki. Í erindi B. Jenssen segir að búnaðurinn sé fyrst og fremst ætlaður til að eyða áhættuvefjum frá nautgripum og svínum (væntanlega er átt við áhættuflokk I, sem er heili og mæna), en þá segir einnig, auk annars lífræns sláturúrgangs sem til fellur.

Bent er á að brennslan ætti eingöngu að vera fyrir áhættuflokk I, en miðað við magn sem tiltekið er, eða 5-6 tonn á sólarhring þá er það ekki nægjanlega skýrt, auk þess sem hætta er á að magn á ári fari yfir 500 tonn, sem gerir það að verkum að leyfið þarf að fara í umhverfismat hjá Umhverfisstofnun.

Því er erfiðleikum bundið að taka afstöðu til framkvæmdarinnar, fyrr en ákvörðun um umhverfismat liggur fyrir.

Þá er bent á að stutt er í íbúðabyggð, sem leitt geti til hagsmunaáreksturs og að heilsufarsáhætta og lyktarmengun gæti fylgt brunagösum frá brennsluofni.

Samkvæmt svæðisskipulagi Eyjafjarðar er stefnt að því að íbúðarbyggð á Akureyri þróist til norðurs, og í aðalskipulagi Akureyrar er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í aðeins um 50 metra fjarlægð frá sláturhúsinu. Hafin er vinnsla nýs aðalskipulags, þar sem umrætt svæði verður áfram skilgreint sem íbúðarsvæði. Eitt af markmiðum þess skipulags verður að skapa skal íbúum bæjarins heilnæmt og ómengað umhverfi. Taka skal tillit til loftgæða við skipulags- og framkvæmdaáætlanir og draga skal úr útblæstri mengandi lofttegunda.

Þar sem ekki liggur fyrir hversu mikið magn á ári, hvaða úrgang á að brenna í ofninum, né hvaða áhrif verða á nærliggjandi byggð fer skipulagsnefnd fram á umhverfismat.

14.Gönguleið meðfram Strandgötu að Ráðhústorgi

Málsnúmer 2016030054Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri leggur fram tillögu að bættri göngutengingu meðfram Strandgötu, framhjá BSO og að Ráðhústorgi. Jónas Valdimarsson hjá framkvæmdadeild kynnti tillöguna.
Skipulagsnefnd þakkar Jónasi fyrir kynninguna.

15.Úttekt á aðgengi fatlaðra að strætisvögnum

Málsnúmer 2016030030Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla vegna aðgengis fatlaðra að Strætisvögnum Akureyrar sem unnin var á vegum framkvæmdadeildar í framhaldi af styrkumsókn til velferðarráðuneytisins s.l. haust.
Lagt fram.

16.Hafnarstræti, göngugata - verklagsreglur um lokun

Málsnúmer 2015070016Vakta málsnúmer

Vinnuhópur um verklagsreglur um lokanir gatna lagði fram tillögu að samþykkt um lokanir gatna í Akureyrarkaupstað. Formaður kynnti tillöguna.
Tillögunni er vísað til umsagar til framkvæmdaráðs og stjórnar Akureyrarstofu.

17.Framfyglni á samþykktu aðal- og deiliskipulagi í miðbæ Akureyrar

Málsnúmer 2016030074Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarstjórnar 12. mars 2015 var samþykkt að leitað yrði leiða til að framfylgja samþykktu aðal- og deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar hvað það varðar að mynda greiða leið frá Skátagili austur að Hofi og mynda þar með meira skjól og birtu.

Á fundi bæjarráðs 19. mars 2015 var málinu vísaði til skipulagsnefndar til úrvinnslu.
Skipulagsnefnd felur Tryggva Má Ingvarssyni, Jóni Þorvaldi Heiðarssyni og skipulagsstjóra að hefja skoðun á hugsanlegum möguleikum til opnunar Hafnarstrætis til austurs.

18.Reglur um lóðaveitingar - endurskoðun 2015

Málsnúmer 2015030039Vakta málsnúmer

Umræður um breytingu á vinnureglum um lóðaveitingar.
Skipulagsnefnd felur Tryggva Má Ingvarssyni og Edward Hákoni Huijbens að leggja fram tillögur til endurskoðunar reglanna.

19.Stefna bæjarins varðandi kaup á fasteignum

Málsnúmer 2016030073Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarstjórnar þann 12. mars 2015 var eftirfarandi tillögu vísað til bæjarráðs:

Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarráði að móta tillögu að skýrri stefnu varðandi kaup á fasteignum sem þarf að færa eða rífa vegna skipulags. Bæjarráð bókaði á fundi sínum 19. mars 2015 eftirfarandi:

Bæjarráð felur fjármálastjóra og skipulagsstjóra ásamt fulltrúa frá skipulagsnefnd að móta tillögu að stefnu varðandi kaup á fasteignum sem þarf að færa eða rífa vegna skipulags.

Skipulagsnefnd bókaði á fundi sínum 27. maí 2015 eftirfarandi: Skipulagsnefnd tilnefnir Helga Snæbjarnarson L-lista sem fulltrúa skipulagsnefndar til að móta tillögu um stefnu varðandi kaup á fasteignum sem þarf að færa eða rífa vegna skipulags.

Lögð eru fram drög að stefnu varðandi kaup á fasteignum.
Lagt fram til kynningar. Formanni nefndarinnar er falið að vinna áfram í málinu.

20.Styrktarsjóður EBÍ 2016

Málsnúmer 2016020229Vakta málsnúmer

Bæjarráð hvetur nefndir og deildir bæjarins til að skoða verkefni sem falla undir reglur sjóðins og senda tillögur til bæjarstjóra fyrir 8. apríl nk.
Skipulagsdeild er falið að koma með tillögur yfir möguleg verkefni til umsóknar.

21.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2016

Málsnúmer 2016010020Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 3. mars 2016. Lögð var fram fundargerð 576. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum.
Lagt fram til kynningar.

22.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2016

Málsnúmer 2016010020Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 10. mars 2016. Lögð var fram fundargerð 577. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 6 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:40.