Liður 6 í fundargerð bæjarráðs dagsettri 19. október 2023:
Liður 11 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 9. október 2023:
Lögð fram til samþykktar drög að gjaldskrá leikskóla fyrir 2024. Lagt er til að skólatíminn frá 08:00 til 14:00 verði gjaldfrjáls en fæðisgjald hækki í takt við aðrar gjaldskrárbreytingar.
Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir fyrir sitt leyti framlagða tillögu að breytingu á gjaldskrá leikskólamála fyrir árið 2024 og vísar málinu áfram til bæjarráðs.
Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs, Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Kristín Baldvinsdóttir forstöðumaður hagþjónustu og áætlanagerðar sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir með þremur atkvæðum framlagða tillögu að breytingu á gjaldskrá leikskóla fyrir árið 2024 og vísar gjaldskránni til staðfestingar í bæjarstjórn. Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista sátu hjá. Meirihluti bæjarráðs telur að með gjaldfrjálsum 6 tíma leikskóla sé verið að huga að velferð starfsfólks og barna í leikskólum hvað varðar vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu. Gert er ráð fyrir að leikskólagjöld verði tekjutengd bæði fyrir einstaklinga og fólk í sambúð. Einnig er verið að innleiða heimgreiðslur sem við reiknum með að muni gagnast mörgum fjölskyldum með beinum hætti og öðrum með óbeinum hætti, með að skapa meira rými í leikskólunum. Að lokum er verið að innleiða skráningardaga í því skyni að skapa svigrúm til að mæta fjögurra tíma styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki í leikskólum. Skráningardagar og gjaldfrjálsir 6 tímar eru tilraunaverkefni til eins árs og gerðar verða stöðuskýrslur að liðnum 6 og 12 mánuðum frá upphafi verkefnanna. Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Jón Hjaltason óska bókað: Undirbúningi vegna þessa máls er ábótavant og gögnin takmörkuð. Svo virðist vera að ákvörðunin sé tekin fyrst og reynt að finna forsendur eftir á. Þá er dapurlegt að meirihlutinn sýni enga viðleitni til að verða við ábendingum Jafnréttisstofu til Akureyrarbæjar vegna þessa máls. Jafnréttisstofa hefur bent á að undirbyggja mætti slíkt mat út frá eftirfarandi spurningum sem byggja á mannréttindastefnu Akureyrarbæjar: Hefur farið fram mat á áhrifum á ólíka hópa foreldra út frá t.d. kynjasjónarmiði, þjóðerni, hvort um er að ræða einstæða foreldra eða foreldra í sambúð? Hefur verið lagt mat á það hvaða hópar eru líklegastir til að nýta eingöngu 6 tíma leikskóladvöl? Hefur verið lagt mat á það hvaða hópar eru líklegastir til að kaupa viðbótartíma? Hefur verið lagt mat á það hvort vinnutímastytting á við hjá öllum foreldrum leikskólabarna? Hefur verið lagt mat á það hvort líkur eru á því að mæður fremur en feður minnki við sig starfshlutfall til að þurfa ekki að greiða fyrir viðbótartíma? Hefur verið lagt mat á það hvaða áhrif ákvörðunin hefur á stöðu foreldra á vinnumarkaði?
Heimir Örn Árnason kynnti.
Til máls tóku Gunnar Már Gunnarsson, Hilda Jana Gísladóttir, Heimir Örn Árnason, Jón Hjaltason og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.