Akureyrarvöllur - skipulag

Málsnúmer 2023030895

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 3526. fundur - 21.03.2023

Umræða um framtíðarskipulag Akureyrarvallar.

Málshefjandi er Hilda Jana Gísladóttir. Til máls tóku Andri Teitsson, Jón Hjaltason, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Gunnar Már Gunnarsson, Hilda Jana Gísladóttir, Hlynur Jóhannesson og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir.
Meirihlutinn óskar bókað:

Mikil uppbygging er að fara af stað á miðbæjarsvæðinu og í starfsáætlun skipulagsráðs er gert ráð fyrir að farið verði í hugmyndasamkeppni um Akureyrarvöll. Vinna við það hefur dregist, meðal annars vegna manneklu og mikilla anna í öðrum verkefnum. Fyrir liggur að halda kynningarfund um skipulagsmál á vormánuðum og opna fyrir betra Ísland þar sem íbúum gefst þá kostur á að koma á framfæri hugmyndum sínum að skilmálum fyrir hugmyndasamkeppnina.


Jón Hjaltason óháður óskar bókað:

Áður en lengra er haldið skal gerð almenn skoðanakönnun meðal Akureyringa og spurt hvort þeir vilji að íþróttasvæðið við Hólabraut verði nýtt til þéttingar byggðar eða varðveitt sem almennt útivistarsvæði.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Gunnar Már Gunnarsson B-lista óska bókað:

Það er einkennandi fyrir framtaksleysi meirihlutans að ennþá hafi ekkert verið aðhafst vegna undirbúnings við uppbyggingu á svæði Akureyrarvallar. Úr því sem komið er eru allar líkur á að engar framkvæmdir hefjist á svæðinu á þessu kjörtímabili. Mikilvægt er að vinna án frekari tafa að nýtingu þessa verðmæta byggingarlands, sem gæti skipt bæði atvinnu- og mannlíf miku máli. Þá ætti að skoða alvarlega þann valkost að setja Glerárgötuna í stokk miðsvæðis, með framkvæmd á kostnaðargreiningu sem og viðræðum við Vegagerðina.

Skipulagsráð - 413. fundur - 29.11.2023

Samkvæmt starfsáætlun skipulagsráðs er gert ráð fyrir að vinna við gerð skipulags fyrir Akureyrarvöll hefjist árið 2024 auk þess sem umræða um uppbyggingu svæðisins var á dagskrá bæjarstjórnar 21. mars sl.
Meirihluti skipulagsráðs felur skipulagsfulltrúa að hefja samtal við Arkitektafélag Íslands varðandi útfærslu á hönnunarsamkeppni fyrir endurskipulagningu Akureyrarvallar.


Jón Hjaltason óflokksbundinn situr hjá við afgreiðslu málsins og óskar bókað eftirfarandi :

Áður en lengra er haldið skal kanna viðhorf Akureyringa til íþróttavallarins við Hólabraut. Vilja bæjarbúar fá þar friðlýst svæði til almenningsnota - fólkvang - eða skal völlurinn nýttur til þéttingar byggðar?

Skipulagsráð - 422. fundur - 24.04.2024

Endurskipulagning Akureyrarvallarsvæðisins hófst með bókun í bæjarstjórn 21. mars 2023. Málið var svo tekið upp hjá skipulagsráði 29. nóvember 2023 þar sem ýtt var á skipulagsfulltrúa að hefja vinnuna.

5. apríl 2024 hélt skipulagsfulltrúi fund með Gerði Jónsdóttur framkvæmdastjóra Arkitektafélags Íslands þar sem svæðið var kynnt fyrir henni og þar á eftir fór Gerður yfir hver næstu skref gætu verið og hvaða möguleikar séu í stöðunni varðandi hönnunarsamkeppni fyrir svæðið.
Skipulagsráð felur skipulagsfulltrúa að vinna verkefnið áfram með áherslu á nýja stefnu Akureyrarbæjar varðandi íbúasamráð.


Jón Hjaltason óháður óskar bókað eftirfarandi:

Látum fyrsta skrefið að framtíðarskipan íþróttavallarins við Hólabraut vera íbúaþing.
Sindri Kristjánsson S-lista vék af fundi klukkan 10:59.

Skipulagsráð - 427. fundur - 10.07.2024

Lögð fram til kynningar drög að samningi milli Akureyrarbæjar og Arkitektarfélagsins um fyrirhugaða samkeppni um skipulag sem nær til Akureyrarvallar og nágrennis.


Næsta skref í málinu er að vinna að gerð samkeppnislýsingar fyrir svæðið.
Skipulagsráð felur skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við að útbúa drög að samkeppnisskilmálum og leggja fyrir skipulagsráð á fyrsta fundi eftir sumarfrí.


Jón Hjaltason óháður situr hjá við afgreiðslu málsins og óskar bókað eftirfarandi:

Ég tel hér öfugt að málum staðið. Áður en ráðist er í samkeppni um skipulag íþróttasvæðisins, og næsta nágrennis, ætti að grennslast fyrir um hvernig Akureyringar vilja nýta svæðið. En úr því sem komið er skora ég á skipulagsráð og bæjarstjórn að gera skýra grein fyrir hugmyndum sínum um útivist, þjónustu og íbúðabyggð á umræddu svæði. Í því sambandi legg ég eindregið til að aðal-knattspyrnuvöllurinn verði allur til útivistar. Ennfremur að brekkan upp af verði hugsuð til leikja. Byggingar komi fyrir norðan völlinn, austan - þó þannig að húsaröðin upp Brekkugötu blasi sem fyrr við þeim sem fara um Glerárgötu og meðfram Smarágötu og áfram suður Hólabraut. Slíkar hugmyndir verði síðan lagðar til grundvallar í skipulagssamkeppni um Akureyrarvöll á Akureyri.

Skipulagsráð - 430. fundur - 11.09.2024

Umræða um samkeppni og skipulag fyrir Akureyrarvöll.
Skipulagsráð samþykkir að setja á fót vinnuhóp með 3-5 fulltrúum til að vinna að gerð samkeppnislýsingar fyrir Akureyrarvöll í samráði við starfsmenn skipulagsfulltrúa. Er miðað við að skipað verði í hópinn á næsta fundi skipulagsráðs.


Jón Hjaltason óháður óskar bókað eftirfarandi:

Ég lýsi mig samþykkan því að settur sé á laggirnar umræddur vinnuhópur að því tilskildu að niðurstöður hans verði með öllum tiltækum ráðum - meðal annars á opinberum borgarafundi - lagðar í dóm Akureyringa. Betra samt væri þó að skoða hugi bæjarbúa varðandi þá einföldu spurningu hvort þeir vilji yfir höfuð að byggt sé á Akureyrarvelli. Það er hið eðlilega fyrsta skref.

Skipulagsráð - 431. fundur - 25.09.2024

Á fundi skipulagsráðs 11. september sl. var samþykkt að setja á fót vinnuhóp til að vinna að gerð samkeppnislýsingar fyrir Akureyrarvöll í samráði við starfsmenn skipulagsfulltrúa. Er gert ráð fyrir að 5 verði í hópnum. Erindisbréf liggur fyrir.
Skipulagsráð samþykkir að skipa Þórhall Jónsson D-lista, Huldu Elmu Eysteinsdóttur L-lista og Hlyn Jóhannsson M-lista í hópinn fyrir hönd meirihlutans og Sindra Kristjánsson S-lista og Jón Hjaltason óháðan fyrir hönd minnihlutans.

Bæjarráð - 3866. fundur - 24.10.2024

Liður 20 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 25. september 2024:

Á fundi skipulagsráðs 11. september sl. var samþykkt að setja á fót vinnuhóp til að vinna að gerð samkeppnislýsingar fyrir Akureyrarvöll í samráði við starfsmenn skipulagsfulltrúa. Er gert ráð fyrir að 5 verði í hópnum. Erindisbréf liggur fyrir.

Skipulagsráð samþykkir að skipa Þórhall Jónsson D-lista, Huldu Elmu Eysteinsdóttur L-lista og Hlyn Jóhannsson M-lista í hópinn fyrir hönd meirihlutans og Sindra Kristjánsson S-lista og Jón Hjaltason óháðan fyrir hönd minnihlutans.

Fyrir fundi bæjarráðs liggur erindisbréf vegna vinnuhópsins.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir framlagt erindisbréf fyrir vinnuhópinn.