Lögð fram bókun svohljóðandi:
Bæjarstjórn Akureyrar minnir enn og aftur á mikilvægi innanlandsflugs og að aðgengi landsbyggðanna að höfuðborginni er lykilatriði fyrir farsæla byggðaþróun.
Mikilvægt er að sem víðtækust samstaða allra landsmanna náist um framtíðarfyrirkomulag flugvallar á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarstjórn Akureyrar krefst þess að nefnd sem kennd er við Rögnu Árnadóttur, Rögnunefndin, fái svigrúm og þann tíma sem hún þarf til þess að leggja fram sínar tillögur og skorar á borgarfulltrúa Reykjavíkur að beita sér fyrir því að ekki verði afgreidd framkvæmdaleyfi á Hlíðarendasvæðinu fyrr en Rögnunefndin hefur lokið vinnu sinni.
Njáll Trausti lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:
Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar samþykkir að fela bæjarstjóra að láta vinna skýrslu um afleiðingar þess fyrir Akureyri og þá sem nýta sér Akureyrarflugvöll að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður af í núverandi mynd. Sérstaklega verði litið til öryggissjónarmiða, sem og efnahagslegra áhrifa við gerð skýrslunnar.
Bæjarstjóri vinni verkefnið í samráði við bæjarstjórana á Ísafirði, Fljótsdalshéraði og í Vestmannaeyjum vegna hugsanlegrar aðkomu þeirra að verkefninu fyrir þeirra bæjarfélög. Bæjarstjóra einnig falið að upplýsa borgarstjóra um verkefnið.
Bæjarstjórn samþykkir framlagða bókun með 11 samhljóða atkvæðum.