Ungmennaráð

39. fundur 09. maí 2023 kl. 16:00 - 17:17 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Anton Bjarni Bjarkason fundarstjóri
  • Erika Arna N. Sigurðardóttir
  • Felix Hrafn Stefánsson
  • Freyja Dögg Ágústudóttir
  • Haukur Arnar Ottesen Pétursson
  • Lilja Dögun Lúðvíksdóttir
  • Telma Ósk Þórhallsdóttir
Starfsmenn
  • Jón Þór Kristjánsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson fundarritari
Dagskrá
Árlegur fundur ungmennaráðs með bæjarstjórn - "Bæjarstjórnarfundur unga fólksins".

Auk fulltrúa í ungmennaráði sátu fundinn bæjarfulltrúarnir Heimir Örn Árnason forseti bæjarstjórnar, Andri Teitsson, Brynjólfur Ingvarsson, Halla Björk Reynisdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Hlynur Jóhannsson, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og varabæjarfulltrúinn Alfa Dröfn Jóhannsdóttir.

1.Fræðslumál

Málsnúmer 2023050330Vakta málsnúmer

Lilja Dögun Lúðvíksdóttir kynnti.

Ungmenni óska eftir meiri fjölbreytni, samfellu og aukinni tíðni þeirrar fræðslu sem þeim er boðið upp á. Óskað er eftir að fræðsla byrji í yngstu bekkjum grunnskóla, jafnvel fyrr, og að þær séu þátttökumiðaðar þar sem nemendur eru hafðir með í spjallinu, hlustað sé á skoðanir þeirra og álit á málunum, með tilliti til aldurs og þroska. Akureyrarbær er barnvænt sveitarfélag, sem felur meðal annars í sér að börn og ungmenni þekki réttindi sín en staðan er sú að það gera ekki öll börn. Ein leið til að sjá til þess að svo verði er að gera alla skóla Akureyrar að Réttindaskólum. Rannsóknir hafa sýnt að innleiðing Réttindaskóla leiðir til þess að börn og ungmenni sýni meira umburðarlyndi og virðingu fyrir til dæmis fjölbreytileika, sem hefur meðal annars þau áhrif að einelti og ofbeldi í skólum minnkar. Ungmenni óska eftir aukinni fræðslu um uppruna og aðstæður flóttafólks/innflytjenda og hvernig það er fyrir börn sem koma til Íslands og tala ekki íslensku. Sérstaklega núna þegar börnum af erlendum uppruna á Akureyri fer fjölgandi og í ljósi samnings um samræmda móttöku flóttafólks sem Akureyrarbær hefur skrifað undir.

Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir góðar ábendingar. Hún tók undir mikilvægi þess að huga vel að fræðslu, ekki síst nú þegar Akureyrarbær tekur á móti sífellt fleira flóttafólki.

2.Samstarf grunn- og framhaldsskóla

Málsnúmer 2023050329Vakta málsnúmer

Telma Ósk Þórhallsdóttir kynnti.

Mikið álag er í framhaldsskólum og nemendur glíma við kvíða, tímaskort og uppgjöf á þeim árum sem eiga að vera þau skemmtilegustu. Nemendur upplifa sig oft og tíðum ekki nægilega vel undirbúna fyrir álagið og ná á sama tíma ekki að sinna áhugamálum sínum sem skyldi, nema það komi niður á öðrum þáttum, svo sem svefni. Lagðar voru fram fjórar tillögur til að draga úr kvíða og gefa nemendum aukin tækifæri til að vera meira við stjórnvölin í sínum eigin málum.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir góð og áríðandi erindi. Hún tók undir það að mikið álag væri á framhaldsskólanemendum sem þyrfti að skoða. Hún sagði einnig mikilvægt að kynna betur fyrir nemendum á unglingastigi grunnskóla möguleikann á að taka í fjarnámi framhaldsskólaáfanga og vinna sér þannig í haginn.

3.Geðheilbrigðismál ungmenna

Málsnúmer 2023050333Vakta málsnúmer

Felix Hrafn Stefánsson hóf umræðu um aðgengi að sérfræðiþjónustu í skólum.

Ungmenni óska eftir betra aðgengi að þjónustu varðandi líðan, erfiðleika, áskoranir og þess háttar innan síns þægindaramma, sem í flestum tilfellum er innan skólans. Í mörgum skólum er námsráðgjafi sá aðili sem oftast er bent á að hægt sé að leita til en vitað er að þeir eru sérmenntaðir í öðrum málum og verða að fá rými til að sinna þeim. Margir nemendur tengja sínar áskoranir ekki við námsráðgjafa og er því kallað eftir öðrum fagstéttum, á borð við sálfræðinga eða (skóla)félagsráðgjafa, inn á gólf skólanna til að mæta þessum þörfum nemenda.

Lára Halldóra Eiríksdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og tók undir það að mikilvægt væri að hafa fleiri fagstéttir inni í skólum og kvaðst taka málið áfram.


Erika Arna N. Sigurðardóttir hóf umræðu um upplýsingar um geðheilbrigði.

Ungmenni kalla eftir betri og aðgengilegri upplýsingum um þjónustu tengda geðheilbrigði, það er að segja hvað sé í boði fyrir þau, hvenær og hvert þau eiga að leita.

Brynjólfur Ingvarsson bæjarfulltrú brást við f.h. bæjarstjórnar og reifaði ýmsa þætti varðandi líðan ungmenna. Í máli hans kom meðal annars fram að æskilegt væri að leggja meiri áherslu á geðrækt innan skólanna.


Lilja Dögun Lúðvíksdóttir fjallaði næst um vellíðan í skólum.

Ungmenni kalla eftir því að starfsfólk skóla sé opnara gagnvart fjölbreytileikanum sem er í nemendahópnum og sýni þeim meiri skilning. Kallað er eftir leiðum til að stuðla að traustari tengslum milli starfsfólks og nemenda, að skoðanir og andleg heilsa nemenda sé virt, hegðun þeirra skoðuð út frá samhengi og þeim gefið rými til að þora að opna sig. Ungmenni telja að til dæmis fleiri einkasamtöl við kennara um líðan geti stutt við það. Þá er óskað eftir meira uppbroti á skólatíma, til dæmis í formi aukinnar hreyfingar og útiveru, því það geti bætt samskipti í bekknum og andlega heilsu nemenda.

Hilda Jana bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir góð erindi. Vakti hún athygli á drögum að mannréttindastefnu Akureyrarbæjar sem eru í kynningarferli og hvatti ungmennaráð til að senda inn umsögn. Sagði hún einnig mikilvægt að fá fram ákall um meiri skilning innan skólasamfélagsins og lagði til að þessum upplýsingum yrði komið á framfæri við kennara.

Til máls tók Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi og varpaði fram hugmynd um hvort hugræn atferlismeðferð ætti að vera ein valgreina á unglingastigi.

Auk hennar tók til máls Telma Ósk Þórhallsdóttir.

4.Umhverfi og samgöngur

Málsnúmer 2023050332Vakta málsnúmer

Anton Bjarni Bjarkason hóf umræðu um bætta lýsingu.

Ungmenni óska eftir bættri lýsingu til dæmis á göngustígum, að kveikt sé lengur og að passað sé upp á viðhald. Börn og ungmenni eru oft að lenda í því að vera að labba á kvöldin ítakmarkaðri birtu eða hreinlega myrki.

Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir ábendinguna. Hann sagði að lýsing tæki mið af útivistartíma barna. Markmiðið væri hins vegar að sem flestir bæjarbúar stunduðu útivist og því væri full ástæða til að skoða þetta nánar.

Auk hans tók til máls Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir bæjarfulltrúi og nefndi í þessu samhengi led-væðingu bæjarins sem gæti haft áhrif á birtustig.



Telma Ósk Þórhallsdóttir fjallaði næst um ruslatunnur, sorphirðu og filteringu skólps.

Fjölga þarf tunnum víðs vegar um bæinn, til dæmis á ljósastaura, við strætóskýli, leikvelli og skóla. Hugsa þarf til nútíma neysluvenja fólks og fjölga sérstökum ruslatunnum/húsum fyrir sígarettur, nikótínpúða og veip. Sérstaklega í ljósi frétta um að börn séu að stinga þessu upp í sig með neikvæðum afleiðingum, á borð við nikótíneitrun. Mikilvægt að skoða líka þann vinkil sem filtering skólps bæjarins er. Skólpinu er dælt út í annað vistkerfi, Eyjafjörð og lagt er til að öll kynni sér fyrstu niðurstöður verkefnis nemenda hjá HA, þar sem gerð var könnun meðal íbúa um hreinsun skólps. Verkefnið ber heitið Waste Water Treatment in Akureyri og var gefið út árið 2022. Telma lagði fram nokkrar leiðir til úrbóta: Fjölga ruslatunnum, gera endurbætur á flokkunarstöðvum með tilliti til djúpgáma og koma á fót líforkuveri í Eyjafirði.

Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og tók undir að fjölga mætti ruslatunnum og gera betur við hreinsun skólps, ekki síst í ljósi þess að strangari reglur væru í farvatninu. Þá fagnaði hann umræðu um líforkuver.



Haukur Arnar Ottesen Pétursson hóf umræðu um strætó.

Ungmenni kalla eftir ýmsum breytingum í tengslum við strætókerfið eins og það er í dag. Leiðakerfið þykir flókið, ferðirnar of fáar, sér í lagi hjá vögnum númer 5 og 6. Mikilvægt að bæta við ferðum eftir því sem hverfi stækka. Óskað er eftir að skýli verði sett upp hjá fleiri stoppum svo ekki þurfi að húka í kulda og rigningu þegar verðurfar er þannig.

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir mikilvæga brýningu. Sagðist hún hafa mikinn áhuga á að endurskoða og bæta leiðakerfið og nefndi að slík vinna hefði átt sér stað fyrir fáeinum árum án árangurs. Þá nefndi hún jafnframt að miklar breytingar á kerfinu kosti mikla fjármuni. Auk hennar tóku til máls Andri Teitsson, Telma Ósk Þórhallsdóttir og Haukur Arnar Ottesen Pétursson.

5.Afþreying

Málsnúmer 2023050338Vakta málsnúmer

Haukur Arnar Ottesen Pétursson hóf umræðu um frístundastyrkinn.

Ungmenni sveitarfélagsins kalla eftir betri kynningu á styrknum, til dæmis í hvað hann nýtist, hverjum, hvenær og hver upphæðin sé. Það er dýrt að stunda tómstundir og íþróttir og á sumum heimilum kemur kostnaður í veg fyrir ástundun krakka. Ungmennaráðið spyr því tengt, hvort það sé uppi á borðum hjá bæjarstjórninni að hafa styrkinn tekjutengdan? Hvar standi sú umræða og hvernig yrði sú útfærsla ef af yrði?

Hulda Elma Eysteinsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og ítrekaði mikilvægi íþrótta- og tómstundastarfs. Sagði hún vel koma til greina að ráðast í kynningarátak á frístundastyrknum en ekki hefði verið tekin nein ákvörðun um tekjutengingu.

Hilda Jana Gísladóttir tók einnig til máls.


Freyja Dögg Ágústsdóttir fjallaði loks um upplýsingar um félagsstarf.

Ungmenni óska eftir einfaldara aðgengi að upplýsingum um það félagsstarf sem er í boði í sveitarfélaginu og jafnframt betri aðstöðu til félagsstarfs og meiri opnunartíma.

Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir ábendinguna sem hún taldi mikilvægt að bregðast við, enda séu upplýsingar forsenda þess að geta notað þjónustuna. Meðal annars þurfi að huga að því hvernig upplýsingar séu settar fram og með hvaða leiðum.

Fundi slitið - kl. 17:17.