Anton Bjarni Bjarkason hóf umræðu um bætta lýsingu.
Ungmenni óska eftir bættri lýsingu til dæmis á göngustígum, að kveikt sé lengur og að passað sé upp á viðhald. Börn og ungmenni eru oft að lenda í því að vera að labba á kvöldin ítakmarkaðri birtu eða hreinlega myrki.
Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir ábendinguna. Hann sagði að lýsing tæki mið af útivistartíma barna. Markmiðið væri hins vegar að sem flestir bæjarbúar stunduðu útivist og því væri full ástæða til að skoða þetta nánar.
Auk hans tók til máls Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir bæjarfulltrúi og nefndi í þessu samhengi led-væðingu bæjarins sem gæti haft áhrif á birtustig.
Telma Ósk Þórhallsdóttir fjallaði næst um ruslatunnur, sorphirðu og filteringu skólps.
Fjölga þarf tunnum víðs vegar um bæinn, til dæmis á ljósastaura, við strætóskýli, leikvelli og skóla. Hugsa þarf til nútíma neysluvenja fólks og fjölga sérstökum ruslatunnum/húsum fyrir sígarettur, nikótínpúða og veip. Sérstaklega í ljósi frétta um að börn séu að stinga þessu upp í sig með neikvæðum afleiðingum, á borð við nikótíneitrun. Mikilvægt að skoða líka þann vinkil sem filtering skólps bæjarins er. Skólpinu er dælt út í annað vistkerfi, Eyjafjörð og lagt er til að öll kynni sér fyrstu niðurstöður verkefnis nemenda hjá HA, þar sem gerð var könnun meðal íbúa um hreinsun skólps. Verkefnið ber heitið Waste Water Treatment in Akureyri og var gefið út árið 2022. Telma lagði fram nokkrar leiðir til úrbóta: Fjölga ruslatunnum, gera endurbætur á flokkunarstöðvum með tilliti til djúpgáma og koma á fót líforkuveri í Eyjafirði.
Andri Teitsson bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og tók undir að fjölga mætti ruslatunnum og gera betur við hreinsun skólps, ekki síst í ljósi þess að strangari reglur væru í farvatninu. Þá fagnaði hann umræðu um líforkuver.
Haukur Arnar Ottesen Pétursson hóf umræðu um strætó.
Ungmenni kalla eftir ýmsum breytingum í tengslum við strætókerfið eins og það er í dag. Leiðakerfið þykir flókið, ferðirnar of fáar, sér í lagi hjá vögnum númer 5 og 6. Mikilvægt að bæta við ferðum eftir því sem hverfi stækka. Óskað er eftir að skýli verði sett upp hjá fleiri stoppum svo ekki þurfi að húka í kulda og rigningu þegar verðurfar er þannig.
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir bæjarfulltrúi brást við f.h. bæjarstjórnar og þakkaði fyrir mikilvæga brýningu. Sagðist hún hafa mikinn áhuga á að endurskoða og bæta leiðakerfið og nefndi að slík vinna hefði átt sér stað fyrir fáeinum árum án árangurs. Þá nefndi hún jafnframt að miklar breytingar á kerfinu kosti mikla fjármuni. Auk hennar tóku til máls Andri Teitsson, Telma Ósk Þórhallsdóttir og Haukur Arnar Ottesen Pétursson.