Skólanefnd

34. fundur 05. desember 2011 kl. 14:00 - 16:55 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Sigurveig S. Bergsteinsdóttir formaður
  • Anna Sjöfn Jónasdóttir
  • Preben Jón Pétursson
  • Helgi Vilberg Hermannsson
  • Logi Már Einarsson
Starfsmenn
  • Hrafnhildur G Sigurðardóttir leikskólafulltrúi
  • Árni Konráð Bjarnason rekstrarstjóri
  • Gunnar Gíslason fræðslustjóri ritaði fundargerð
Dagskrá

1.Viðhorf foreldra til starfs og starfshátta í leikskólum á Akureyri - 2011

Málsnúmer 2011120005Vakta málsnúmer

Trausti Þorsteinsson lektor við HA mætti á fundinn og gerði grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar sem lögð var fyrir sl. vor. Helstu niðurstöður eru:
Almenn ánægja ríkir meðal foreldra með leikskóla Akureyrarbæjar hvort sem litið er til innra starfs eða aðbúnaðar barnanna í leikskólanum. Ákveðinn afstöðumunur er þó í svörum foreldra m.t.t. hvar í leikskóla börn þeirra eru.
Langflestir foreldrar telja að leikskólinn hafi veitt þeim fullnægjandi upplýsingar um stefnu skólans og áherslur. Þeir eru sammála því að leikskólinn hafi skýra stefnu fyrir starfi sínu og starfið í leikskólanum sé í samræmi við stefnuna.
Tveir þriðju foreldrahópsins sem þátt tók í könnuninni segir leikskólana leggja sig fram um að kynna þeim aðalnámskrá leikskólans. Mikill mismunur er á afstöðu foreldra að þessu leyti m.t.t. leikskóla.
Helmingur foreldrahópsins segist hafa kynnt sér skólastefnu Akureyrarbæjar vel en 40% illa. Þeir sem kváðust hafa kynnt sér skólastefnuna vel lögðu mat á starf skólanna og kváðu það í samræmi við stefnu bæjarfélagsins.
85% foreldra er sammála því að starfshættir leikskólanna hvetji til samstarfs og samvinnu starfsfólks, foreldra og nærsamfélags. Afstaða foreldra er þó talsvert mismunandi eftir því hvar í leikskóla barn þeirra er.
Leikskólarnir virðast ekki leggja áherslu á að virkja foreldra í uppeldisstarfi leikskólanna né að veita þeim upplýsingar um hvernig þeir geta stuðlað að auknum þroska barnsins.
Foreldrar virðast almennt telja að leikskólinn beri umhyggju fyrir börnunum. Þeir telja að komið sé til móts við þarfir barnanna, gerðar kröfur til þeirra og þeim veitt þjónusta lendi þau í erfiðleikum.
Í heildina tekið virðast foreldrar þeirrar skoðunar að leikskólar haldi í heiðri áherslur aðalnámskrár leikskóla í innra starfi sínu.
Ólík afstaða kemur fram gagnvart hollustu fæðis eftir leikskólum en almennt eru foreldrar sammála því að börnunum þyki maturinn góður. Ekki er mikill áhugi meðal foreldra að breyta morgunverði og er meirihluti þeirra reiðubúinn að greiða hærra fæðisgjald til að standa undir þjónustunni.
Almennt eru foreldrar sammála um að gjaldskrá leikskólans sé sanngjörn. Tæp 60% foreldra fallast ekki á að taka á sig hærra hlutfall af raunkostnaði leikskólans. Um 40% segjast hins vegar reiðubúnir til þess.
Fáir foreldrar virðast leita upplýsinga á vefsíðu skóladeildar um leikskólana en þeir eru hins vegar ánægðir með upplýsingar af hálfu leikskólanna.
Foreldrar telja mikið stökk fyrir nemendur að færast úr leikskóla í grunnskóla. Meirihluti þeirra sem afstöðu taka telja ekki mikilvægt að halda skólastigunum aðgreindum og svipað hlutfall telur að réttlætanlegt geti verið að sameina tvo leikskóla í einn.
Algengast er að foreldrar hallist að því að æskileg stærð leikskóla sé 61-90 börn.

Skólanefnd þakkar Trausta Þorsteinssyni fyrir góða yfirferð og foreldrum leikskólabarna fyrir þátttökuna.

2.Sumarlokun leikskóla í Akureyrarbæ 2012

Málsnúmer 2011120006Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð eftirfarandi tillaga vegna sumarlokana í leikskólum Akureyrarbæjar, en samkvæmt fjárhagsáætlun verða leikskólarnir að loka í fjórar vikur samfellt.
Foreldrarráð leikskólanna og starfsmannafundir í leikskólunum fá eftirtaldar hugmyndir til umræðu og umsagnar:
1. Óbreytt fyrirkomulag þ.e. eins og búið var að skipuleggja fyrir 2011 - 2013
2. Leikskólarnir loki í fjórar vikur - tvö tímabil: 2. júlí - 27. júlí og 9. júlí - 3. ágúst.
3. Leikskólarnir loki í fjórar vikur - tvö tímabil: 18. júní - 13. júlí og 16. júlí - 14. ágúst.
4. Leikskólarnir loki allir á sama tíma í fjórar vikur: 9. júlí - 3. ágúst.
5. Leikskólarnir loki allir á sama tíma í fimm vikur: 2. júlí - 3. ágúst.
6. Annað form á sumarlokun, þá hvað?

Skólanefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu.

3.Mötuneyti leik- og grunnskóla

Málsnúmer 2011120007Vakta málsnúmer

Á fundinum var gerð grein fyrir niðurstöðu útboða á hrávöru fyrir mötuneyti Akureyrarbæjar, nýr sameiginlegur matseðill fyrir öll skólamötuneyti kynntur og sagt frá breytingum sem verða frá og með áramótum á matseðlum skólamötuneytanna og breyttri tilhögun innkaupa.

Skólanefnd fagnar þeim breytingum sem verða á rekstri skólamötuneytanna frá áramótum og vonast til að sem flestir verði sáttir.

4.Mið- og framhaldsnám í söng og framhaldsnám á hljóðfæri við Tónlistarskólann á Akureyri

Málsnúmer 2011090068Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð afgreiðsla Jöfnunarsjóðs á umsókn Tónlistarskólans á Akureyri vegna nemenda í mið- og framhaldsnámi í söng og framhaldsnámi á hljóðfæri. Einnig var lögð fyrir fundinn kostnaðaráætlun vegna kennslu og stjórnunar í þessu námi hjá skólanum. Fram kemur að fyrirliggjandi framlög frá ríkinu duga ekki fyrir áætluðum kostnaði.

Skólanefnd samþykkir að taka málið til frekari umfjöllunar á nýju ári.

5.Fræðslu- og uppeldismál - rekstur 2011

Málsnúmer 2011050064Vakta málsnúmer

Fyrir skólanefnd var lagt til kynningar minnisblað sem lýsir mati á stöðu reksturs einstakra stofnana m.t.t. þess hvort þær verði innan fjárheimilda ársins. Fram kom að í heildina verður málaflokkurinn innan fjárheimilda en það byggist á því að rýmri fjárhagur sumra stofnana mæti umframkostnaði annarra.

6.Dagforeldrar 2011 - staða mála

Málsnúmer 2011010118Vakta málsnúmer

Samkvæmt upplýsingum sem teknar hafa verið saman um biðlista eftir plássi fyrir börn hjá dagforeldrum, eru 16 börn fædd 2010 og 11 börn fædd 2011 á listanum, eða 27 börn alls.

Skólanefnd felur leikskólafulltrúa að vinna áfram að málinu.

7.Athugasemdir við aðstöðu í íþróttahúsi í Laugagötu

Málsnúmer 2011110127Vakta málsnúmer

Erindi dags. 22. nóvember 2011 frá Vilborgu Þórarinsdóttur f.h. Samtaka þar sem fram kemur að félaginu hafi borist ábendingar og kvartanir frá foreldrum er varða aðstæður barna til íþróttaiðkunar í skóla, nánar tiltekið í Laugargötu.

Skólanefnd beinir því til Fasteigna Akureyrarbæjar að bæta sem fyrst úr athugasemdum við brunavarnir í Íþróttahúsinu við Laugargötu og felur fræðslustjóra að sjá til þess að úttekt verði gerð á aðstæðum grunnskólanna til íþróttakennslu.

Jóhannes G. Bjarnason og Logi Már Einarsson yfirgáfu fundinn kl. 16:15.

8.Athugasemdir við öryggismál í skólabílum

Málsnúmer 2011110127Vakta málsnúmer

Erindi dags. 22. nóvember 2011 frá Vilborgu Þórarinsdóttur f.h. Samtaka varðandi beiðni sem borist hefur félaginu um að vekja máls á öryggismálum í rútum sem sjá um akstur í sund og íþróttir.

Skólanefnd felur fræðslustjóra að afla frekari upplýsinga um málið og leggja fyrir næsta fund.

9.Tónlistarskólinn á Akureyri - styrkbeiðni vegna gistingar á SÍSL móti 2012

Málsnúmer 2011110116Vakta málsnúmer

Erindi dags. 22. nóvember 2011 frá Mögnu Guðmundsdóttur f.h. Tónlistarskólans á Akureyri þar sem óskað er eftir styrk vegna gistingar á SÍSL móti dagana 27.- 29. apríl 2012.

Skólanefnd frestar afgreiðslu og óskar eftir frekari upplýsingum.

10.Ytra mat á skólastarfi - viðmið um gæði

Málsnúmer 2011090084Vakta málsnúmer

Tölvupóstur dags. 24. nóvember 2011 til bæjarstjóra frá Björku Ólafsdóttur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem verkefnisstjórn mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd og innleiðingu á ákvæðum um mat og eftirlit bjóða Akureyri og Lundarskóla til þátttöku í tilraunaverkefni um ytra mat á grunnskólastarfi. Með tölvupóstinum fylgdu einnig drög að viðmiðunum sem lögð verða til grundvallar ytra matinu. Skólastjóri Lundarskóla hefur tekið jákvætt í erindið.

Skólanefnd samþykkir að þiggja boðið.

Fundi slitið - kl. 16:55.