Fyrir fundinn var lögð ályktun frá skólaráði Giljaskóla dags. 14. febrúar 2011 þar sem þess er krafist að réttindi barna og gæði skólastarfs verði lögð til grundvallar öllum ákvörðunum bæjaryfirvalda varðandi hugsanlegar skipulagsbreytingar á skólastarfi á Akureyri. Þá er kallað eftir raunverulegu samráði við starfsmenn skóla og foreldra áður en ákvarðanir eru teknar.
Fyrir fundinn var einnig lögð skýrsla með niðurstöðum úr viðtalsrannsókn við leik- og grunnskólastjóra Akureyrar, ásamt fundargerðum stýrihóps. Helstu niðurstöður viðtalsrannsóknarinnar eru:
Skólastjórinn er faglegur leiðtogi, starfsmannastjóri og rekstrarstjóri.
Stjórnunarstíll stjórnenda er misjafn og hefur áhrif á verkaskiptingu á milli stjórnenda.
Mestur tími fer í að láta daginn ganga upp - púsla, dekka, redda.
Starfsmannastjórnun vegur þyngst í starfi skólastjórans og veldur mestu álagi.
Álag í starfsmannamálum kallar á stuðning eða handleiðslu fyrir stjórnandann.
Fjarvera starfsmanna er mesti álagsþátturinn í starfsmannastjórnuninni.
Stjórnendum finnst þeir vera límið í húsinu, sú manneskja sem hefur yfirsýn, utanumhald og alla heildarmyndina.
Stjórnendum finnst vellíðan starfsmanna og nemenda skipta miklu máli og þeim finnst þeir bera ábyrgð á henni.
Hindranir koma í veg fyrir breytingar og hafa áhrif á þróun faglegs starfs.
Ytri kröfur eru miklar og fara vaxandi og eru álagsþáttur í starfi skólastjórans.
Sálgæsluhlutverk skólastjórans hefur aukist.
Skortur er á starfsfólki til að vista verkefni á.
Stjórnendur kunna að meta það sjálfstæði sem skólarnir hafa og vilja halda "karaktereinkennum" þeirra.
Eldhúsið er hjarta leikskólans.
Stjórnendum hugnast frekar sameining eða samrekstur á sömu skólastigum.
Skýrsluna í heild sinni og fundargerðir stýrihóps má nálgast á vefsíðu skóladeildar
http://skoladeild.akureyri.is
Skólanefnd þakkar Þuríði fyrir greinargóða kynningu.