Skólanefnd

4. fundur 21. febrúar 2011 kl. 14:00 - 17:10 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Sigurveig S. Bergsteinsdóttir formaður
  • Preben Jón Pétursson
  • Sigrún Björk Sigurðardóttir
  • Helgi Vilberg Hermannsson
  • Logi Már Einarsson
Starfsmenn
  • Gunnar Gíslason fræðslustjóri ritaði fundargerð
Dagskrá

1.Kynning á PMT þjónustu skóladeildar

Málsnúmer 2011020100Vakta málsnúmer

Þuríður Sigurðardóttir verkefnisstjóri mætti á fundinn og gerði grein fyrir þjónustu skóladeildar við börn, foreldra, kennara og skóla með aðferðafræði PMT. Til upplýsingar um forsögu verkefnisins var skýrslan um "Bætta þjónustu félagssviðs" lögð fram. Þá skýrslu og frekari upplýsingar um PMT/SMT má nálgast á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd þakkar Þuríði fyrir greinargóða kynningu.

2.Viðhorfskönnun nemenda í 4.- 7. bekk 2010

Málsnúmer 2011020101Vakta málsnúmer

Trausti Þorsteinsson lektor við HA mætti á fundinn undir þessum lið og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir nemendur í 4.- 7. bekkjum grunnskóla Akureyrar vorið 2010, en þær voru:
Nemendur 4.- 7. bekkjar virðast sáttir við aðstæður sínar í grunnskólum Akureyrar og eru jákvæðir í garð skólans.
Nemendur vilja ná árangri í námi og telja að þeir fái aðstoð og stuðning þegar þeir þurfa á því að halda.
Lágt hlutfall nemendahópsins segist hafa áhuga á því sem kennt er og ráða við það sem hann á að gera í tímum. Stúlkur virðast hafa mun meiri áhuga á náminu en drengir og mun hærra hlutfall þeirra segist ráða við það sem nemendur eiga að gera í kennslustundum.
Eftir því sem líður á skólagönguna dvínar áhugi nemenda á náminu og færri nemendur telja sig fá hjálp í tímum þegar hennar er þörf.
Mikill meirihluti nemenda telur sig vinna vel í skólanum og vinna verkefni í samvinnu við aðra nemendur. Marktækur munur er á afstöðu drengja og stúlkna að þessu leyti þar sem drengir telja síður að þeir vinni vel í skólanum og vinni verkefni í samvinnu við aðra nemendur.
Lítil ánægja virðist vera með heimanám en einungis liðlega helmingur segist sammála því að það sé hæfilegt. Marktækur munur er á milli kynja í afstöðu til heimanáms þar sem hærra hlutfall stúlkna segir námið hæfilegt. Á sama hátt minnkar jákvæðnin til heimanáms eftir því sem lengra líður á skólagönguna og mest er óánægjan í 7. bekk.
Samskipti nemenda á milli og nemenda og kennara virðist almennt með ágætum. Þrátt fyrir það er talsverður munur á afstöðu nemenda til þeirrar fullyrðingar um að samskipti þeirra við kennara séu góð og að þeir geti rætt við umsjónarkennara þegar eitthvað bjátar á. Enn síður virðast nemendur telja sig geta leitað til annars starfsfólks þegar þannig stendur á.
Um 7% nemenda er sammála því að hafa oft orðið fyrir stríðni, árásum og hótunum af ýmsu tagi frá skólafélögum. Fleiri drengir en stúlkur telja sig verða fyrir einelti af þessu tagi.
Nemendum finnst skólar ekki bregðast nógu fljótt við stríðni. Einkum eru það nemendur 7. bekkjar sem telja að skólar bregðist ekki við. Munur er á afstöðu nemenda að þessu leyti m.t.t. þess hvar í skóla þeir eru.
Skýrsla er aðgengileg á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd þakkar Trausta fyrir greinargóða kynningu. Skólanefnd hvetur til þess að niðurstöður þessarar könnunar ásamt niðurstöðum fleiri kannana verði nýttar víðar í bæjarkerfinu t.d. þegar fyrir liggur ákvarðanataka um skipulagsmál. Þá óskar skólanefnd eftir því að frekari upplýsinga verði aflað úr gögnunum varðandi vinnufrið og muninn á afstöðu nemenda milli bekkja.

3.Stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar - endurskoðun

Málsnúmer 2010040041Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð ályktun frá skólaráði Giljaskóla dags. 14. febrúar 2011 þar sem þess er krafist að réttindi barna og gæði skólastarfs verði lögð til grundvallar öllum ákvörðunum bæjaryfirvalda varðandi hugsanlegar skipulagsbreytingar á skólastarfi á Akureyri. Þá er kallað eftir raunverulegu samráði við starfsmenn skóla og foreldra áður en ákvarðanir eru teknar.
Fyrir fundinn var einnig lögð skýrsla með niðurstöðum úr viðtalsrannsókn við leik- og grunnskólastjóra Akureyrar, ásamt fundargerðum stýrihóps. Helstu niðurstöður viðtalsrannsóknarinnar eru:
Skólastjórinn er faglegur leiðtogi, starfsmannastjóri og rekstrarstjóri.
Stjórnunarstíll stjórnenda er misjafn og hefur áhrif á verkaskiptingu á milli stjórnenda.
Mestur tími fer í að láta daginn ganga upp - púsla, dekka, redda.
Starfsmannastjórnun vegur þyngst í starfi skólastjórans og veldur mestu álagi.
Álag í starfsmannamálum kallar á stuðning eða handleiðslu fyrir stjórnandann.
Fjarvera starfsmanna er mesti álagsþátturinn í starfsmannastjórnuninni.
Stjórnendum finnst þeir vera límið í húsinu, sú manneskja sem hefur yfirsýn, utanumhald og alla heildarmyndina.
Stjórnendum finnst vellíðan starfsmanna og nemenda skipta miklu máli og þeim finnst þeir bera ábyrgð á henni.
Hindranir koma í veg fyrir breytingar og hafa áhrif á þróun faglegs starfs.
Ytri kröfur eru miklar og fara vaxandi og eru álagsþáttur í starfi skólastjórans.
Sálgæsluhlutverk skólastjórans hefur aukist.
Skortur er á starfsfólki til að vista verkefni á.
Stjórnendur kunna að meta það sjálfstæði sem skólarnir hafa og vilja halda "karaktereinkennum" þeirra.
Eldhúsið er hjarta leikskólans.
Stjórnendum hugnast frekar sameining eða samrekstur á sömu skólastigum.
Skýrsluna í heild sinni og fundargerðir stýrihóps má nálgast á vefsíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd fullvissar alla aðila skólasamfélagsins á Akureyri um að engar meiriháttar breytingar verða gerðar á skipulagi skóla án ítarlegs samráðs við þá alla. Skólanefnd bendir á að fram að þessu hefur áherslan í undirbúningsvinnu stýrihópsins verið á að greina störf og viðhorf skólastjóranna. Nú liggur niðurstaða þeirrar vinnu fyrir og er verið að skoða næstu skref. Skólanefnd samþykkir að fela fræðslustjóra að funda með starfsmönnum þeirra skóla sem þess óska til að upplýsa um gang og stöðu mála. Þá samþykkir skólanefnd að boða skólaráð grunnskólanna og foreldraráð leikskóla, fulltrúa starfsmanna og stjórnenda í leikskólum til funda, til að upplýsa um stöðu málsins og næstu skref.

4.Starfsáætlun skólanefndar 2011

Málsnúmer 2011010037Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð stefna bæjarstjórnar Akureyrar 2010-2014 og var farið yfir þann hluta hennar sem snýr að fræðslumálum. Þá var farið yfir skilgreiningu Sambands íslenskra sveitarfélaga á grunnþjónustu í skólamálum.

Skólanefnd samþykkir að halda starfsdag þar sem unnið verði að gerð starfsáætlunar. Skólanefnd samþykkir að bjóða þeim flokkum í bæjarstjórn sem ekki eiga aðild að nefndinni að tilnefna fulltrúa sína til að taka þátt í þessari vinnu. Fræðslustjóra er falið að finna heppilegan dag og skipuleggja vinnuna.

Logi Már Einarsson S-lista og Anna Lilja Sævarsdóttir fulltrúi grunnskólakennara yfirgáfu fundinn kl. 16.50.

5.Leikskólinn Kiðagil - ósk um breytingu á námskeiðsdegi

Málsnúmer 2011020086Vakta málsnúmer

Erindi dags. 15. febrúar 2011 frá Snjólaugu Brjánsdóttur skólastjóra Kiðagils f.h. starfsmanna þar sem óskað er eftir því að námskeiðsdagur Kiðagils verði haldinn þann 29. apríl 2011 í stað 26. apríl 2011 vegna fyrirhugaðrar ferðar til Reykjavíkur.

Skólanefnd samþykkir erindið, enda liggur fyrir samþykki foreldra.

6.Námskeið fyrir skólanefndir vorið 2011

Málsnúmer 2011020102Vakta málsnúmer

Tölvupóstur dags. 7. febrúar 2011 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem auglýst eru námskeið fyrir alla fulltrúa í skólanefndum sveitarfélaga. Námskeiðið á Norðurlandi verður haldið á Akureyri 15. apríl nk. í Háskólanum á Akureyri og stendur frá kl. 13.00 - 17.00.

Fundi slitið - kl. 17:10.