Trausti Þorsteinsson lektor við HA mætti á fundinn undir þessum lið og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum viðhorfskönnunar sem lögð var fyrir nemendur í 4.- 7. bekkjum grunnskóla Akureyrar vorið 2010, en þær voru:
Nemendur 4.- 7. bekkjar virðast sáttir við aðstæður sínar í grunnskólum Akureyrar og eru jákvæðir í garð skólans.
Nemendur vilja ná árangri í námi og telja að þeir fái aðstoð og stuðning þegar þeir þurfa á því að halda.
Lágt hlutfall nemendahópsins segist hafa áhuga á því sem kennt er og ráða við það sem hann á að gera í tímum. Stúlkur virðast hafa mun meiri áhuga á náminu en drengir og mun hærra hlutfall þeirra segist ráða við það sem nemendur eiga að gera í kennslustundum.
Eftir því sem líður á skólagönguna dvínar áhugi nemenda á náminu og færri nemendur telja sig fá hjálp í tímum þegar hennar er þörf.
Mikill meirihluti nemenda telur sig vinna vel í skólanum og vinna verkefni í samvinnu við aðra nemendur. Marktækur munur er á afstöðu drengja og stúlkna að þessu leyti þar sem drengir telja síður að þeir vinni vel í skólanum og vinni verkefni í samvinnu við aðra nemendur.
Lítil ánægja virðist vera með heimanám en einungis liðlega helmingur segist sammála því að það sé hæfilegt. Marktækur munur er á milli kynja í afstöðu til heimanáms þar sem hærra hlutfall stúlkna segir námið hæfilegt. Á sama hátt minnkar jákvæðnin til heimanáms eftir því sem lengra líður á skólagönguna og mest er óánægjan í 7. bekk.
Samskipti nemenda á milli og nemenda og kennara virðist almennt með ágætum. Þrátt fyrir það er talsverður munur á afstöðu nemenda til þeirrar fullyrðingar um að samskipti þeirra við kennara séu góð og að þeir geti rætt við umsjónarkennara þegar eitthvað bjátar á. Enn síður virðast nemendur telja sig geta leitað til annars starfsfólks þegar þannig stendur á.
Um 7% nemenda er sammála því að hafa oft orðið fyrir stríðni, árásum og hótunum af ýmsu tagi frá skólafélögum. Fleiri drengir en stúlkur telja sig verða fyrir einelti af þessu tagi.
Nemendum finnst skólar ekki bregðast nógu fljótt við stríðni. Einkum eru það nemendur 7. bekkjar sem telja að skólar bregðist ekki við. Munur er á afstöðu nemenda að þessu leyti m.t.t. þess hvar í skóla þeir eru.
Skýrsla er aðgengileg á heimasíðu skóladeildar
http://skoladeild.akureyri.is
Skólanefnd þakkar Trausta fyrir greinargóða kynningu. Skólanefnd hvetur til þess að niðurstöður þessarar könnunar ásamt niðurstöðum fleiri kannana verði nýttar víðar í bæjarkerfinu t.d. þegar fyrir liggur ákvarðanataka um skipulagsmál. Þá óskar skólanefnd eftir því að frekari upplýsinga verði aflað úr gögnunum varðandi vinnufrið og muninn á afstöðu nemenda milli bekkja.