Skipulagsnefnd

117. fundur 29. júní 2011 kl. 08:00 - 10:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Haraldur Sveinbjörn Helgason
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurður Guðmundsson
  • Leifur Þorsteinsson staðgengill skipulagsstjóra
  • Stefanía G Sigmundsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Kristján Þorsteinsson verkefnastjóri
Dagskrá

1.Tónatröð 5 - umsókn um deiliskipulagsbreytingu

Málsnúmer 2011050092Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. maí 2011 þar sem Fríða Stefánsdóttir f.h. Reisum ehf., kt. 470809-0270, sækir um deiliskipulagsbreytingu á lóð nr. 5 við Tónatröð þ.e. að breyta húsgerð úr E1 (kjallara, hæð og ris) í E3 (hæð og ris).

Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Krossanes 4 - umsókn um stækkun lóðar

Málsnúmer 2011060039Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 9. júní 2011 þar sem Anton Örn Brynjarsson f.h. Becromal Properties ehf., kt. 660707-0850, sækir um stækkun lóðar og byggingareits að Krossanesi 4. Meðfylgjandi eru afstöðu- og loftmyndir, einnig nánari skýringar.

Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem síðan yrðið auglýst. Skipulagnefnd felur skipulagsstjóra að óska eftir við hönnuð Krossanesbrautar að skoða möguleika á umbeðinni færslu götunnar og áætlun um umframkostnað miðað við núverandi hönnun götunnar.

 

Edward H. Huijbens V-lista óskaði bókað: Af gefnu tilefni og í ljósi ítrekaðra bókana V-lista árin 2007, 2008 og 2009 í bæði skipulagnefnd og bæjarstjórn, þá telur fulltrúi V-lista einsýnt að meta þarf heildrænt umhverfisáhrif þessarar verksmiðju með öllum stækkunaráformum og tryggt sé að öllum skilyrðum starfsleyfis sé framfylgt.

Sigurður Guðmundsson mætti á fundinn kl. 8:22.

3.Samþykkt um skilti á Akureyri - endurskoðun

Málsnúmer BN090193Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga að nýrri samþykkt um skilti í lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkt um skilti verði samþykkt og bæjarlögmanni falið að annast gildistöku hennar.

4.Dalsbraut sunnan Þingvallastrætis og nágrenni - deiliskipulag

Málsnúmer 2011050111Vakta málsnúmer

Staðgengill skipulagsstjóra leggur fram tillögu að skipulagslýsingu vegna deiliskipulags Dalsbrautar. Um er að ræða í einu skjali skipulagslýsingu, matslýsingu og tilkynningu framkvæmdar unna af X2 hönnun-skipulagi ehf., dagsettar 30. maí 2011.

Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi, leitað verði umsagnar skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna og framkvæmdin verði tilkynnt í samræmi við 6. gr. laga um umhverfismat.

Edward H. Huijbens V-lista sat hjá við afgreiðslu málsins.

5.Miðbær suðurhluti - deiliskipulag Drottningarbrautarreits

Málsnúmer SN100014Vakta málsnúmer

Vinnuhópur um deiliskipulag reitsins leggur fram tillögu að skipulagslýsingu unna af Árna Ólafssyni, Teiknistofu arkitekta.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um skipulagslýsinguna.

Edward H. Huijbens V-lista óskaði bókað: Við gerð deiliskipulags á þessum reit er nauðsynlegt að horfa til miðbæjarskipulags í heild sinni og er nauðsynlegt að horfa til varanlegra framtíðarlausna fyrir umferðamiðstöð. Núverandi hugmyndir um að setja hana sunnan Austurbrúnar ganga ekki að mati fulltrúa V-lista. Einnig leggur fulltrúi V-lista áherslu á að göngu- og hjólastígur fái skilgreindan sess, sem tengist heildarmynd af gönguleiðum á svæðinu.

 

6.Óseyri 3 - umsókn um breytta notkun á húsnæði og lóð

Málsnúmer 2011050089Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju erindi dagsett 16. maí 2011 þar sem Anton Örn Brynjarsson f.h. Furu ehf., kt. 510907-0940, óskar eftir leyfi til að starfrækja móttöku fyrir brotamálma og notaða hjólbarða í vesturhluta húsnæðis og á lóðinni Óseyri 3. Borist hafa umbeðnar umsagnir slökkviliðs og heilbrigðiseftirlits.

Meirihluti skipulagsnefndar telur að umbeðin starfsemi geti verið á lóðinni. Skipulagsstjóri afgreiðir umsókn um breytta starfsemi þegar hún berst.

Sigurður Guðmundsson A-lista greiddi atkvæði á móti afgreiðslu málsins.

7.Daggarlundur 18 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2011060049Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. júní 2011 þar sem Vagn Kristjánsson og Lilja Filipusdóttir sækja um lóð nr. 18 við Daggarlund. Meðfylgjandi er staðfesting á greiðslugetu.

Skipulagsnefnd samþykkir erindið með fyrirvara um byggingarhæfi lóðarinnar. Skipulags- og byggingarskilmálar ásamt almennum byggingarskilmálum gilda.

 

8.Langholt 11 - tenging á milli Langholts og stígs við Hörgárbraut og lóðarstækkun

Málsnúmer 2011060088Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 22. júní þar sem Sigurlína H. Styrmisdóttir óskar eftir að breyting verði gerð á skipulagi á stíg milli Langholts og Hörgárbrautar, opnað verði hlið á girðingu er sett var á milli Langholts 11 og 7, til að stöðva gangandi umferð um garðinn að Langholti 11 sem er mjög mikil. Einnig er sótt um lóðarstækkun til suðurs að æskilegum stíg. Meðfylgjandi loftmynd og ljósmyndir.

Skipulagsnefnd getur ekki orðið við beiðni um opnun á stíg þar sem ekki er gert ráð fyrir stíg á þessum stað og er það ástæða þess að umrædd girðing var sett upp. Skipulagsnefnd tekur jávætt í stækkun lóðarinnar en bendir umsækjanda á að hann geti sótt um lóðarstækkun til suðurs að mörkum lóðarinnar nr. 7 við Langholt ef vilji er til þess. Umsóknin um lóðarstækkunina verður afgreidd þegar hún berst.

9.Brekkugata 27A - fyrirspurn um almenn bílastæði

Málsnúmer BN100085Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju erindi dagsett 10. maí 2010 þar sem Sæmundur Örn Pálsson bendir á skort á bílastæðum við Brekkugötu og leggur til að þeim verði fjölgað austan við götuna í framhaldi af núverandi uppfyllingu. Skipulagsnefnd óskaði eftir tillögum frá framkvæmdadeild um mögulega fjölgun bílastæða við Brekkugötu.
Borist hefur umsögn famkvæmdadeildar dagsett 14. júní 2011.

Skipulagsnefnd þakkar ábendinguna en getur ekki orðið við tillögu bréfritara. Skipulagsnefnd samþykkir tillögu framkvæmdadeildar um fjölgun stæða með því að heimila samsíða lagningu bíla beggja vegna í götunni.

10.Hrafnagilsstræti/Þórunnarstræti - umferðarmál

Málsnúmer 2011020053Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd óskaði eftir því við framkvæmdaráð á fundi sínum þann 9. mars sl. að gengið verði frá 30 km hliði við gatnamót Mýrarvegar, að hraði í götunni verði mældur og að skoðaður verði kostnaður við uppsetningu 5 hraðamyndavéla í bænum.
Borist hefur svar frá framkvæmdaráði þar sem fram kemur að framkvæmdaráð hafi gengið frá framkvæmdaáætlun árins í ár og er upphækkun við Mýrarveg ekki inni í þeirri áætlun.
Framkvæmdadeild kannaði lauslega mögulegan kostnað við uppsetningu á hraðamyndavélum. Ein Nortek vél kostar 6 milljónir, kassi 1,4 milljónir. Hugsanlegur kostnaður við tengingu frá Mílu miðað við vissar staðsetningar, er 0,3 milljónir fyrir hverja vél. Norðurorka gefur ekki upp kostnað við tengingu við rafmagn heldur er greiddur raunkostnaður.

Lagt fram til kynningar og vísað í bókun á 11. lið.

11.Tjarnartún - umferðarmál og sorphirða

Málsnúmer 2011020055Vakta málsnúmer

Skipulagsnefnd óskaði eftir því við framkvæmdaráð á fundi sínum þann 9. mars sl. að gengið verði frá 30 km hliði við Naustagötu og óskar jafnframt eftir áætlun um uppsetningu hliða og annarra aðgerða vegna 30 km hverfa í bænum.
Borist hefur svar framkvæmdaráðs þar sem fram kemur að framkvæmdaráð hefur gengið frá framkvæmdaáætlun ársins í ár og er 30 km hlið við Tjarnartún ekki inni í þeirri áætlun. Framkvæmdadeild er búin að óska eftir því við skipulagsdeild að fá samþykkta áætlun um uppsetningu hliða og aðrar aðgerðir vegna 30 km hverfa í bænum enda fari sú deild með umferðarmálin en ekki framkvæmdadeildin.

Skipulagsnefnd óskar eftir að tillaga að áætlun um aðgerðir í 30km hverfum sem unnin var 2007 af Mannviti verði lögð fyrir nefndina til skoðunar.

12.Gatnakerfi Akureyrarbæjar - athugasemdir

Málsnúmer 2011050149Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði þann 9. júní 2011 eftirfarandi erindi til skipulagsdeildar:
Anton Valdimarsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa og bað um skýringar á gatnagerðamálum í bænum. Hann lýsti yfir furðu sinni á ýmsum breytingum sem gerðar hafa verið að undanförnu. a) Hann benti á að við gatnamót Borgarbrautar-, Merkigils og Skessugils hafi verið komið fyrir hraðahindrun sem skapi meiri hættu en öryggi. Ökumenn aka gjarnan öfugu megin við hraðahindrunina sem skapar mikla hættu. Hraðahindrunin þarf að ná yfir alla götuna. b) Hann benti á að gatnamót við Borgarbraut og Skarðshlíð væru mjög hættuleg einkum vegna þess að handrið Glerárbrúar blindar hornið. c) Anton var ekki sáttur með þrengingar þær sem settar hafa verið upp á Þingvallastrætið við Hrísalund né heldur yfirstandi framkvæmdir við sundlaugina. Hann telur að þrengt hafi verið of mikið á þeim stað og gangstéttum gefið of mikið vægi. d) Hann lýsti yfir áhyggjum af þrengingum og umferðareyjum á Miðhúsabraut. Hann telur þrengingarnar norðvestan við Bónus algjöra slysagildru. e) Varðandi Dalsbrautina lagði hann til að leysa mætti vanda gangandi vegfarenda með vel girtum undirgöngum. f) Þá benti hann að lokum á að allar beygjur við Kjarnagötu sunnan Bónus halla út, sem skapar hættu.

Skipulagsnefnd þakkar ábendingarnar.

Svör við ábendingum:

a) Skipulagsnefnd vísar til Framkvæmdaráðs að láta hindrun ná yfir alla götu, þegar og ef setja á hana upp í vetur. 

b) Bendir bréfritara á að gera athugasemdir til Vegagerðarinnar.

c) Þrengingar eru gerðar með öryggi gangandi vegfarenda í huga.

d) Þrengingar á Miðhúsabraut tengjast fyrirhuguðum gatnamótum við Brálund.

e) Vísað er í vinnu sem er í gangi við deiliskipulag Dalsbrautar.

f)  Gefur ekki tilefni til svars.

13.Lundarskóli - innkeyrsla

Málsnúmer 2011050150Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði þann 9. júní 2011 eftirfarandi erindi til skipulagsdeildar:
Elvar Smári Sævarsson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa. Hann er íbúi í Heiðarlundi og ræddi hugmyndir um færslu á innkeyrslu að Lundaskóla. Hann taldi núverandi fyrirkomulag vera betra og þessi færsla myndi eingöngu skapa ónæði fyrir íbúa en ekki verða til þess að skapa aukið rými. Hann benti á að betra væri að hafa göngustíg en akandi umferð.

Skipulagsnefnd vísar athugasemdinni til skoðunar við vinnslu deiliskipulags Dalsbrautar.

14.Norðan Bál/Gamli barnaskólinn í Hrísey og Vitavinafélagið/stofnun vitagarðs

Málsnúmer 2011050152Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði þann 9. júní 2011 eftirfarandi erindi til skipulagsdeildar:
Örn Alexandersson mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa fyrir hönd Norðan Báls. a) Hann kynnti starfsemi Norðan Báls í Gamla barnaskólanum í Hrísey. Verið er að vinna að breytingum og úrbótum á húsinu. Hann óskar eftir leiðbeiningum hvernig hægt væri að fá húsinu breytt á skipulagi úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, en slík breyting hefði verulega áhrif á fasteignagjöld.

Breyting sem þessi kallar á breytingu á Aðalskipulagi Hríseyjar. Nú er unnið að endurskoðun þess skipulags. Skipulagsnefnd tekur jákvætt í umrædda breytingu og vísar erindinu til vinnslu við endurskoðunina.

15.Miðbæjarskipulag - athugasemdir

Málsnúmer 2011050159Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði þann 9. júní 2011 eftirfarandi erindi til skipulagsdeildar:
Jóhannes Árnason mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa og skoraði á bæjaryfirvöld að horfa á miðbæjarskipulagið í heild sinni.
Hann benti á mikilvægi þess að útbúa greiðfærari gönguleiðir milli Hofs og miðbæjarins. Til að gera það þarf að breyta Glerárgötunni frá því sem er nú.

Skipulagsnefnd þakkar ábendinguna og vísar erindinu í fyrirhugaða vinnu við miðbæjarskipulagið.

16.Oddeyrargata - hraðakstur

Málsnúmer 2009110138Vakta málsnúmer

Bæjarráð vísaði þann 9. júní 2011 eftirfarandi erindi til skipulagsdeildar:
Ólafur Hergill Oddsson hringdi í viðtalstíma bæjarfulltrúa vegna umferðarhraða í Oddeyrargötunni. Hann spurðist fyrir um fyrirætlanir um að setja fleiri hraðahindranirnir í götuna eins og áætlanir stóðu til. Hann leggur fram tilmæli um að 30 km hámarkshraða verði haldið í Oddeyrargötunni og ráðstafanir þar að lútandi verði gerðar.

Hverfið er nú þegar skilgreint sem 30 km hverfi. Hraðamæling í götunni var framkvæmd af framkvæmdadeild á tímabilinu 14. - 20. janúar 2010 en þar kemur fram að meðalhraði í götunni sé 37 km/klst. Skipulagsnefnd telur ekki þörf á úrbótum samkvæmt fyrirliggjandi hraðamælingu að sinni. Hafin er vinna við endurskoðun á áætlun um hraðatakmarkandi aðgerðir í 30km hverfum. Skipulagsnefnd vill þó benda á að það sé lögreglu að hafa eftirlit með að hraðatakmarkanir séu virtar.

17.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010-2011

Málsnúmer 2010010128Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð dagsett 15. júní 2011. Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram fundargerð 352. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum.

Lagt fram til kynningar.

18.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010-2011

Málsnúmer 2010010128Vakta málsnúmer

Lögð fram fundargerð dagsett 22. júní 2011. Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram fundargerð 353. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 13 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:00.