Skipulagsnefnd

112. fundur 13. apríl 2011 kl. 08:00 - 10:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Haraldur Sveinbjörn Helgason
  • Auður Jónasdóttir
  • Sigurður Guðmundsson
  • Leifur Þorsteinsson staðgengill skipulagsstjóra
  • Stefanía G Sigmundsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Stefanía Sigmundsdóttir
Dagskrá

1.Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018. Dreifistöð raforku við Síðubraut

Málsnúmer 2011040041Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018. Breytingin felst í afmörkun fyrir iðnaðarsvæði við gatnamót Hlíðarfjallsvegar og Síðubrautar þannig að hægt verði að reisa dreifistöð raforku við Síðubraut. Stöðin mun aðallega þjóna svæði við Rangárvelli og aksturs- og skotsvæði. Einnig er gerð breyting á afmörkun þéttbýlismarka á aðalskipulags- og sveitarfélagsuppdráttum vegna þessarar breytingar. Tillagan er unnin af Árna Ólafssyni, dagsett 8. apríl 2011.

Breyting þessi felur ekki í sér stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda, sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, og er hún því ekki háð lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Breytingin er óveruleg og hefur hvorki áhrif á ósnortna náttúru, jaðmyndanir og vistkerfi, sem njóta sérstakrar verndar, verndarsvæði né skráðar fornminjar. Breytingin hefur ekki í för með sér neikvæð áhrif á nágranna eða landnotkun og nýtingu aðliggjandi svæða.

Skipulagsnefnd leggur því til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Síðubraut - deiliskipulag á reit 1.43.8 I, lóð fyrir dreifistöð Norðurorku

Málsnúmer 2011040053Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi við Síðubraut, reit 1.43.8I í aðalskipulagi Akureyrar 2008-2018, vegna lóðar fyrir dreifistöð Norðurorku. Svæðið afmarkast af Hlíðarfjallsvegi í suðri, landamerkjum Hlíðarenda í vestri og deiliskipulagsmörkum hesthúsahverfis í Hlíðarholti að norðan og austan. Tillagan er unnin af Arkitektur og ráðgjöf ehf., dagsett 7. apríl 2011.

Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir iðnaðarsvæði undir lóð dreifistöðarinnar auk reiðleiðar, gatna og lagna á svæðinu. Meginforsendur deiliskipulagsins liggja því fyrir í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 og telur skipulagsnefnd á þeim forsendum ekki þörf á sérstakri skipulagslýsingu skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1.mgr. 41.gr skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Rangárvellir - deiliskipulagsbreyting á reit 1.42.10 I

Málsnúmer 2011040021Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. apríl 2011 frá Bjarni Reykjalín f.h. Gámaþjónustu Norðurlands ehf., kt. 481287-1039, þar sem hann sækir um breytingu á deiliskipulagi á svæði Gámaþjónustunnar við Hlíðarfjallsveg. Breytingin felst í tilfærslu móttöku- og flokkunarsvæða innan lóðar, fækkun húsa, lækkun nýtingarhlutfalls og jarðvegsmön í stað girðingar á lóðarmörkum að hluta.

Skipulagsnefnd getur ekki fallist á breytingar á nýtingarhlutfalli. Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan þannig breytt verði grenndarkynnt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Hverfaskipting og nafngiftir

Málsnúmer 2010120067Vakta málsnúmer

Tekin fyrir að nýju tillaga nafnanefndar um nöfn á nýjum hverfum innan lögsögu Akureyrarkaupstaðar ásamt nýjum tillögum að nafni á hverfi 36 sbr. bókun nefndarinnar 30. mars 2011.

Lagt fram til kynningar. Frestað.

5.Hafnarstræti 86A - afmörkun lóðar og húsnúmer

Málsnúmer 2011040015Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 4. apríl 2011 þar sem Bjarni Reykjalín f.h. Arkitekturs og ráðgjafar ehf., kt. 650106-1130, sækir um afmörkun lóðarinnar Hafnarstræti 86A þannig að lóðin verði í samræmi við lóðarmörk sem sýnd eru á samþykktri aðalteikningu. Einnig er sótt um að húsnúmeri Hafnarstræti 86A verði breytt í Hafnarstræti 84.

Þar sem umbeðin afmörkun lóðar er ekki í samræmi við núgildandi deiliskipulag er erindinu vísað í vinnslu deiliskipulags svæðisins sem nú stendur yfir.

6.Spónsgerði 2 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2011040036Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 5. apríl 2011 þar sem Bjarni Reykjalín f.h. Ragnars Ásmundssonar og Guðrúnar Þórsteinsdóttur óskar eftir byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið nr. 2 við Spónsgerði. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Bjarna Reykjalín dagsettar 5. apríl 2011.

Skipulagsnefnd samþykkir að grenndarkynna erindið skv. 1. mgr. 44. gr skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Skipulags- og framkvæmdamál

Málsnúmer 2011030154Vakta málsnúmer

Eiður Matthíasson, Kjarnagötu 28 mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa þann 24. mars s.l. með ábendingar og spurningar.
Bæjarráð vísaði til skipulagsnefndar eftirfarandi liðum:
a) Spurði um stöðu framkvæmda vegna tengingar Skógarlundar og Miðhúsabrautar um Brálund. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að hún yrði að veruleika.
c) Spurði hvort ekki væri hætt við að byggja á lóðum sunnan Naustaskóla og hvort ekki mætti moka yfir grunna sem á þeim væru.
e) Lýsti óánægju sinni með stækkun á verslun ÁTVR vegna staðsetningar verslunarinnar.

Svör við fyrirspurn:

a) Deiliskipulagsbreyting vegna tengingar Brálundar við Miðhúsabraut var kærð til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og er beðið niðurstöðu hennar. Úrskurðar er að vænta innan skamms.

c) Umræddum lóðum sunnan Naustaskóla hefur flestum verið úthlutað nema lóð nr. 55-59 og framkvæmdir hafnar á sumum þeirra. Lóðarhöfum ber að ganga frá lóðum sínum á tryggilegan hátt ef framkvæmdir eru ekki fyrirhugaðar þannig að öryggi íbúa í grennd sé tryggt. Nú á vordögum munu starfsmenn skipulagsdeildar yfirfara öryggisþætti umræddra lóða og gera viðeigandi athugasemdir um frágang ef honum er ábótavant.

e) Skipulagsnefnd bendir á að umrædd deiliskipulagstillaga er í auglýsingarferli og því hægt að gera formlegar athugasemdir við hana sem skipulagsnefnd mun fjalla um að loknum auglýsingartíma.

8.Tónatröð 5 - fyrirspurn

Málsnúmer 2011030187Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 30. mars 2011 þar sem Sigurður Sveinn Ingólfsson spyr hvort vilji sé til að breyta deiliskipulagi á lóðinni Tónatröð 5 í hús á einni hæð með risi en núgildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir húsi á tveimur hæðum með risi. Meðfylgjandi eru tvær skissuteikningar.

Skipulagsnefnd telur að slík breyting kæmi til greina. Skipulagsnefnd bendir á að allur tilfallandi kostnaður s.s. hönnunarkostnaður vegna breytingar á deiliskipulagsgögnum og auglýsingarkostnaður mun falla á umsækjanda ef sótt verður um slíka breytingu.  

9.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010-2011

Málsnúmer 2010010128Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 30. mars 2011. Lögð var fram fundargerð 342. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.

Lagt fram til kynningar.

10.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010-2011

Málsnúmer 2010010128Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 6. apríl 2011. Lögð var fram fundargerð 343. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 15 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:00.